fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Kolbrúnt lóðarí

Örpistlar dagblaðanna eru hálfundarlegt fyrirbæri. Pistlahöfundar fá þar gjarnan eigi meira en hálfan fernanómetra til að láta gamminn geisa og blaðra um hin helstu dægurmál. Slíkur er skortur á plássi að pistlarnir eru annaðhvort ekki meira en lítill inngangur án endis eða undarlegt raul um dagsins amstur. Höfundarnir koma úr hinum ýmsu afkimum samfélagsins, líklega í þeim tilgangi að gera pistlana mismunandi og fjölbreytta fyrir lesendur.

Kolbrún Bergþórsdóttir bókmenntagagnrýnandi er einn pistlahöfunda. Þvert á það sem maður hefði ætlað fjalla pistlarnir hennar ekki um bókmenntir á neinn hátt (ætli hún skrifi ekki nóg um slíkt í sérgreinum) heldur um karlmenn. Iðulega fer hún fögrum orðum um þekkta karlmenn og skrifar gjarnan með hálfgerðu slefbleki um stinna líkamshluta knattspyrnukappa og nokkrum sinnum hafa stálslegnir kálfar Eiðs Smára borið á góma. Í pistli hennar í dag er það Ingólfur Bender Glitnisgreiningarmenni sem er fórnarlambið og eys hún lofsyrðum yfir piltinn og útlit hans líkt og um grískan guð væri að ræða. Um daginn var hinn skyndiskeggjaði Logi Bergmann til umræðu og ekki var Kolbrún neitt svakalega sátt við kinnahnoðrana á Loga og eyddi heilum pistli í að minna fólk á hve eggjó hann væri án skeggs.

Ég er farinn að halda að Kolbrún sé á krónísku lóðaríi og notfæri sér pistla blaðanna til að tæla karlmenn í rekkju. Þessir pistlar eru nefnilega eins og duldar einkamálaauglýsingar. Ekki veit ég þó hvort þeir virki sem skyldi en það væri allavega gaman að sjá bókina Rekkjusögur Kollu í jólabókaflóðinu eitthvert árið. Spurningin er bara hvort hún myndi gagnrýna þá bók sjálf.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

þú ert greinilega dyggur lesandi... ætli rauðbirkni sjarmörinn Jón Sigurður verði ekki tekinn fyrir næst.... eða smekkvísa launkvendið Jónína Sigríður?

1/9/06 10:21  
Blogger Jón Sigurður said...

Það er nú ekki ólíklegt.

1/9/06 11:25  
Anonymous Nafnlaus said...

Já - skrýtið finnst mér að hún velji sér útlit fólks að ritefni þar sem hún er nú alveg ready fyrir yfirhalningu. Ég hef nú séð hana á förnum vegi síðustu ár og alltaf er hún í svona flassarakápu sem minnir á Manninn með ljáinn.

Augnpot

2/9/06 18:31  

Skrifa ummæli

<< Home