þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Extreme Makeover: Augnpot Edition


Eins og sjá má hefur síðan verið tekin rækilega í gegn hvað útlit varðar. Bakgrunnur var málaður dökkblár og allt kapp hefur verið lagt á að láta lesandanum líða eins og heima hjá sér. Ég og Auður erum gráti næst og ofur djúpt snortin yfir því merka starfi sem útlitshönnuðir okkar hafa unnið. Þessi stund minnir einmitt mjög á hinn eiturmorkna og sakkarínsvæmna slepjuþátt Extreme Makeover: Home Edition. Í þeim þætti fara fremst í flokki Kanamenni nokkur sem sígrenja yfir endurbættum vistarverum sínum. Hvernig geta 5 ára krakkar grenjað úr sér augun vegna nýmálaðs herbergis? Slíkt gerist bara vestan Atlantshafsins í landi táranna.

Á Íslandi finnast einnig undarlegir þættir og má þar nefna Brúðkaupsþáttinn já. Ekki sé ég skemmtunina og sjarmann við að hafa myndavélar í hverju horni á brúðkaupsdaginn. Til að toppa undarlegheitin er Sigrún Klink og bank (eða eitthvað í þá áttina) látin spá fyrir um framtíð hjónakornanna. Sigrún sú er spákona mikil og les framtíð fólks úr miðum sem hún dregur úr hatti (eins gott að hún muni eftir að skrifa eitthvað gott á miðana). Það vekur hins vegar alltaf jafnmikla furðu hjá mér hvers vegna fólk eins og Sigga spá fær að vaða uppi í fjölmiðlum með sína falsspádóma. Annað dæmi er Hermundur Rósinkranz 'talnaspekingur' sem segist geta reiknað persónuleika fólks út frá fæðingardegi þess. Spurning um að panta tvær spennitreyjur með DHL.

Væri annars ekki gaman að fá smáfútt í sjónvarpið með þáttum eins og Skilnaðarþættinum nei eða Rifrildaþættinum þegiðu þar sem pör á hinum enda sambandsins eru i aðalhlutverki? Ég segi já.

Látum þetta gott heita að sinni. Maður má ekki fara of geyst af stað eftir sjö mánaða bloggbindindi. Sú spurning vaknar þó að lokum hvers vegna mynd sem heitir Snakes on a Plane fái jafngóða dóma og raun ber vitni. Ég bara neita að trúa því að hún sé ekki hroði.

5 Comments:

Blogger Þórhildur Hagalín said...

Afar smekklegt makeover eins og við var að búast af ykkur smekkmennum

30/8/06 09:25  
Anonymous Nafnlaus said...

Það er hressandi að þér veitið oss þann heiður að hafa aðgang að sérdeilis prýðilegu bloggi í svartasta skammdegi komandi veturs.

Tölfræðilega er það alveg magnað að í öllum þessum þáttum hafi spákonan aldrei dregið upp miða og muldrað: "Já, það er ljóst að þetta samband er tómt rugl og ég ráðlegg ykkur að hætta þessu bulli sem fyrst".

30/8/06 18:31  
Blogger Jón Sigurður said...

Rétt er það, Lindi.

30/8/06 19:18  
Anonymous Nafnlaus said...

velkomin aftur í blogg heima. ég horfi oft á extreme makeover og brúðkaupsþáttinn já.. ekki að mér finnist þeir skemmtilegir sem slíkir hef bara lúmskt gaman að að sitja í sófanum og hneykslast á heiminum... árumyndataka hjá sigríði kink og bank var toppurinn!
hlakka til að fylgjast með ykkur hjúum

1/9/06 10:18  
Blogger Tóta said...

Verð að segja að ég horfi líka mikið á home edition og um daginn var Gústa syss hjá mér og ætlaði sko ekki að horfa á slíka vitleysu..en var tilneidd því ég ræð hvað er horft á í mínu TV..og það komu tár, svo mikil var innlifunin hjá Gústu syss að hún grét af gleði með kanamanninum ;) Til hamingju með nýja lúkkið!

19/9/06 13:01  

Skrifa ummæli

<< Home