fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Kolbrúnt lóðarí

Örpistlar dagblaðanna eru hálfundarlegt fyrirbæri. Pistlahöfundar fá þar gjarnan eigi meira en hálfan fernanómetra til að láta gamminn geisa og blaðra um hin helstu dægurmál. Slíkur er skortur á plássi að pistlarnir eru annaðhvort ekki meira en lítill inngangur án endis eða undarlegt raul um dagsins amstur. Höfundarnir koma úr hinum ýmsu afkimum samfélagsins, líklega í þeim tilgangi að gera pistlana mismunandi og fjölbreytta fyrir lesendur.

Kolbrún Bergþórsdóttir bókmenntagagnrýnandi er einn pistlahöfunda. Þvert á það sem maður hefði ætlað fjalla pistlarnir hennar ekki um bókmenntir á neinn hátt (ætli hún skrifi ekki nóg um slíkt í sérgreinum) heldur um karlmenn. Iðulega fer hún fögrum orðum um þekkta karlmenn og skrifar gjarnan með hálfgerðu slefbleki um stinna líkamshluta knattspyrnukappa og nokkrum sinnum hafa stálslegnir kálfar Eiðs Smára borið á góma. Í pistli hennar í dag er það Ingólfur Bender Glitnisgreiningarmenni sem er fórnarlambið og eys hún lofsyrðum yfir piltinn og útlit hans líkt og um grískan guð væri að ræða. Um daginn var hinn skyndiskeggjaði Logi Bergmann til umræðu og ekki var Kolbrún neitt svakalega sátt við kinnahnoðrana á Loga og eyddi heilum pistli í að minna fólk á hve eggjó hann væri án skeggs.

Ég er farinn að halda að Kolbrún sé á krónísku lóðaríi og notfæri sér pistla blaðanna til að tæla karlmenn í rekkju. Þessir pistlar eru nefnilega eins og duldar einkamálaauglýsingar. Ekki veit ég þó hvort þeir virki sem skyldi en það væri allavega gaman að sjá bókina Rekkjusögur Kollu í jólabókaflóðinu eitthvert árið. Spurningin er bara hvort hún myndi gagnrýna þá bók sjálf.

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Extreme Makeover: Augnpot Edition


Eins og sjá má hefur síðan verið tekin rækilega í gegn hvað útlit varðar. Bakgrunnur var málaður dökkblár og allt kapp hefur verið lagt á að láta lesandanum líða eins og heima hjá sér. Ég og Auður erum gráti næst og ofur djúpt snortin yfir því merka starfi sem útlitshönnuðir okkar hafa unnið. Þessi stund minnir einmitt mjög á hinn eiturmorkna og sakkarínsvæmna slepjuþátt Extreme Makeover: Home Edition. Í þeim þætti fara fremst í flokki Kanamenni nokkur sem sígrenja yfir endurbættum vistarverum sínum. Hvernig geta 5 ára krakkar grenjað úr sér augun vegna nýmálaðs herbergis? Slíkt gerist bara vestan Atlantshafsins í landi táranna.

Á Íslandi finnast einnig undarlegir þættir og má þar nefna Brúðkaupsþáttinn já. Ekki sé ég skemmtunina og sjarmann við að hafa myndavélar í hverju horni á brúðkaupsdaginn. Til að toppa undarlegheitin er Sigrún Klink og bank (eða eitthvað í þá áttina) látin spá fyrir um framtíð hjónakornanna. Sigrún sú er spákona mikil og les framtíð fólks úr miðum sem hún dregur úr hatti (eins gott að hún muni eftir að skrifa eitthvað gott á miðana). Það vekur hins vegar alltaf jafnmikla furðu hjá mér hvers vegna fólk eins og Sigga spá fær að vaða uppi í fjölmiðlum með sína falsspádóma. Annað dæmi er Hermundur Rósinkranz 'talnaspekingur' sem segist geta reiknað persónuleika fólks út frá fæðingardegi þess. Spurning um að panta tvær spennitreyjur með DHL.

Væri annars ekki gaman að fá smáfútt í sjónvarpið með þáttum eins og Skilnaðarþættinum nei eða Rifrildaþættinum þegiðu þar sem pör á hinum enda sambandsins eru i aðalhlutverki? Ég segi já.

Látum þetta gott heita að sinni. Maður má ekki fara of geyst af stað eftir sjö mánaða bloggbindindi. Sú spurning vaknar þó að lokum hvers vegna mynd sem heitir Snakes on a Plane fái jafngóða dóma og raun ber vitni. Ég bara neita að trúa því að hún sé ekki hroði.