miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Að skjóta sig í fótinn og Jón orðinn „blaðsíðu 4"-fýrinn


Smáborgari hins ofur þunna og feykilega illa skrifaða fréttablaðs Blaðsins lýsti sinni einstöku íslenskukunnáttu í reglubundinni og samnefndri grein á mánudaginn. Þar tautaði hann og raulaði um fólk sem talar um mikið fólk í staðinn fyrir margt fólk. Kauði hóf greinina svona:

Smáborgarinn talar móðurmálið ylhýra ágætlega. Reyndar verður lýsingarorðið ágætlega að lesast hér í hinum nýja skilningi orðsins sem hefur þá merkinguna; rétt yfir meðallagi."

Orðflokkaglöggir Augnpotslesendur hafa væntanlega hrokkið í kút yfir þessum rangfærslum íslenskufræðings Blaðsins. Öllum ætti að vera kunnugt að orðið ágætlega er atviksorð en ekki lýsingarorð. Smáborgarinn skaut sig svo illilega í fótinn í grein sinni að af fóru leggir og ökklar. Mun hann bera nafn með rentu hér eftir — smáborgarinn.

Nóg um það. Þeir sem lásu Moggann í þaula í morgun hafa væntanlega tekið eftir ægifögrum hnakka mínum á blaðsíðu 4. Þetta var engin tilviljun enda er ég fyrsti „blaðsíðu 4"-fýrinn sem prýðir Moggann. Þekktar eru myndirnar af fáklæddum stúlkum á blaðsíðu 3 í breskum blöðum en myndir þessar þykja góður stökkpallur fyrir verðandi fyrirsætur. Ég á því ekki von á öðru en að gylltur makkinn minn muni fleyta mér langt og róa umboðsmenn mínir öllum árum að því að koma mér að í þessum harða heimi. Draumastarfið er náttúrulega að prýða sælgætisdósir HARIBO-samsteypunnar.

Vindum okkur í önnur málefni. Sjónvarpsstöðin Sirkus stefnir hraðbyri á alkul í dagskrárgerð. Eintómir ljósabekkjabrúnkuþættir frá hnakkmennum og hnakkkvendum tröllríða þessari annars vondu stöð. Brynja Björk reið á vaðið með djammþætti þar sem hún spyr krakka á Hverfisbarnum hvort það sé stuð í bænum. Nú hefur þátturinn verið tekinn af dagskrá eftir heila tvo þætti. Gárungar telja ástæðuna vera þá að Brynja hafi bara ekki haft fleiri spurningar í pokahorninu en þessa: „Ertu ekki í stuði?" Annar djammþáttur er í umsjón Ásgeirs Kolbeinssonar og gengur út á það að Ásgeir, hinn sígamli hnakki, fer milli skemmtistaða í miðbænum og spyr alla hvort þeir séu ekki í stuði. Eins og sjá má er flóran fjölbreytt og skemmtileg á Sirkus. Sagan er þó ekki öll. Gilzenegger er með þátt ásamt Partý-Hans og umbreytir almúgamennum í hnakka. Þarna er á ferðinni einkar áhugaverður þáttur sem býður upp á fjöldann allan af mögulegum útærslum: aflitun og strípur. Tveir þættir af Köllunum ættu því að vera nóg. Gilzenegger er nefnilega löngu orðinn leiðinlegur og Partý-Hans er líklega leiðinlegasti og vitgrennsti maður sem ég hef séð í sjónvarpi.

Þetta er fólkið sem erfa mun landið. Spurning um að kaupa flugmiða aðra leið.