miðvikudagur, janúar 11, 2006

Andvökunótt á Leifsgötu
Þegar þessi orð eru rituð er klukkan langt gengin í fjögur um hánótt. Ég ákvað áðan í barnalegheitum mínum að ljúka við bókina mína á meðan spúsi færi snemma að sofa. Bókin búin og ég skríð undir mína silkimjúku sæng. Ég beini öllum hugsunum að því að útiloka sjónvarpsgargan frá þjónmenninu í reiðhjólageymslunni. Svefninn sígur að en þá fer önnur og talsvert öflugri maskína í gang: Jón. Ég prófa í kjölfar hrotusólós að leggjast á hliðina og setja kodda yfir eyra. Ekki gengur það. Ég hossast og dilla mér aðeins til þess að framkalla rusk og stellingarbreytingu hjá spúsa. Ekkert gengur. Eftir ýmsar tilraunir í þessum dúr fer ég bölvandi á fætur.
Jón hefur iðulega haft orð á því við mig að ég sofni alltaf um leið og önnur tása mín snerti rúm vort. Neita ég því fastlega og segist sofna eftir 3 mínútur að meðaltali. Hérna áður fyrr, B.J. (before Jón), var öldin önnur og ég var iðulega andvaka mjög lengi. Hef ég velt fyrir mér ástæðum þessara breytinga og komist að tveim lógískum niðurstöðum. Höfgi minn stafar annaðhvort af þreytu (e. singing syndrome) eða sjálfsbjargarviðleitni (e. survival of the fittest). Þreytan vísar þá til ákveðins eiginleika Jóns sem flestir hafa fengið smjörþefinn af sem er gífurleg söngelska. Virkar þessi eiginleiki e.t.v. öðruvísi á mig en ykkur því ég ver talsvert meiri tíma með honum Jóni (Tóni) mínum. Dagurinn í dag var t.d. helgaður Jónsa og laginu "ég flækist í þinn vef, á meðan ég sef" - þarf væntanlega ekki að hafa fleiri orð um það. Sjálfsbjargarviðleitni mín vísar þá í gífurlegan höfga er í rúm er komið vegna þess að ef Jón sofnar á undan þá hrýtur hann mig í hel. Ég man bara næst að klára bókina seinna. Ég læt hluta textans fylgja með að lagi dagsins... afar lýsandi titill (fyrir suma kannski).
“Martröð”
Veistu...
Ég flækist í þinn vef
Og á meðan ég sef
Liggur þú hjá mér
Það lýkur minni leit
Og hjarta mitt veit
Hvaða hug ég til þín ber

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home