sunnudagur, desember 18, 2005

Framsóknarmenn í ostafondúiFátt hefur drifið á mína daga síðasta hálfa árið. Eitt gerðist þó merkilegt en ég varð vitni að lifnaðarháttum framsóknarmanna. Eftir vísindaferð í byrjun nóvember endaði ég ásamt fylgdarsveinum mínum í höfuðvígi framsóknarklíkunnar við Hverfisgötu. Húsakynnin og lifnaðarhættir þessa deyjandi flokks voru ekki eins og ég hafði gert mér í hugarlund. Ég bjóst við geithöfrum í formi lífvarða og að Guðni og hans kónar sætu reifaðir í jötu, japlandi á bambusstráum. Annað kom á daginn. Þarna var heljarinnar svallveisla að hætti spilltra hundraðshöfðingja Rómaveldis hins forna. Guðni, Ísólfur Gylfi og litli þingsnáðinn hann Birkir Jón lágu kviknaktir ásamt flokksbræðrum og -systrum í einni hrúgu útataðir í ostasósu. Löptu framsóknarmenn ost af iljum og kálfum hvers annars og könkuðust á í ostakösinni. Bjórinn flæddi milli osta og líkamsvessa og mér leið eins og ég væri staddur í Palladíum í Rómaveldi árið 44 f. kr.

Er líða tók á kvöldið fóru gítarar á loft og sungnir voru baráttusöngvar. Ostamaríneraður Ísólfur reyndi að stappa stálinu í þá hálfu tylft framsóknarmanna sem var á lífi eftir ostasvallið. Birkir Jón lék við hvurn sinn fingur og taldi árhringi nára sinna til að ganga úr skugga um að hann væri alveg örugglega kominn á þingmannaaldur, enda nýskriðinn úr egginu. Er ég sá að ég hafði dregið úr landbúnaðarstyrkjum framtíðar með því að háma í mig salthnetur, sem í boði voru, sá ég að ég þyrfti að kveðja partíið. Á leið minni að lyftunni faðmaði ég Guðna vel og lengi og þakkaði honum fyrir veisluna. Guðna var hins vegar ekki til setunnar boðið og ætlaði að vera mér samferða í lyftunni. Þá gerðist undarlegur hlutur. Þegar við stóðum í lyftunni og bjuggum okkur undir að ýta á jarðhæðarhnappinn birtist skyndilega einhver framsóknarmaður með stúlku í fanginu og bauð Guðna að taka hana heim með sér. Ekki man ég hvernig Guðni brást við þessu undarlega uppátæki en allavega sá ég snótina borna út í bílinn hans Guðna sem ók svo inn í mórauða nóttina með ostakvendi í aftursætinu. Er maðurinn ekki giftur?

En nóg af svallveislu Framsóknarflokksins. Vonum bara að hann næli sér í nokkur prómill í næstu kosningum. Maður eldist afar fljótt og eftir tvær vikur verð ég orðinn árinu eldri. Auður varð hins vegar árinu eldri á mánudaginn. Tíminn líður nefnilega hratt á gervihnattaöld og óttast ég að áður en haninn galar tvisvar verði ég orðinn níræður þrisvar. Mér finnst ég orðinn fjörgamall og því til stuðnings má nefna að ég er ekki fyrr búinn að grisja nef- og eyrnahárin mín að runnar spretta upp aftur. Þess vegna hef ég ákveðið að á næsta ári og þar eftir verði 27 klukkustundir í sólarhringnum hjá mér. Ég mæli með aðrir sem eldast ofur hratt lengi sólarhringinn líka.