fimmtudagur, júní 30, 2005

Kindur og kveinstafir


Eru kindur heimskustu dýr veraldar? Þessi spurning skaðbrennur á rauðum vörum mínum þennan daginn. Í morgun keyrði ég Auði á Þingvelli og á Mosfellsheiðarvegi var allt morandi í kindum að sleikja malbikið. Það getur ekki verið gott að sleikja tjörustöppu. Á heimleiðinni keyrði ég næstum á lítið lamb sem ákvað að hlaupa þvert yfir veginn rétt áður en ég kom að því. Ég þurfti að nauðhemla til að myrða ekki litla hnoðrann og stefndi þar með mínu eigin lífi í hættu. Undarlegt þykir mér að kindur fái að leika lausum hala á vegum landsins. Ég heimta að bændur umkringi þær með girðingu til þess að koma í veg fyrir árekstra og slys á fólki jafnt sem dýrunum.

Nú keyra þúsundir bíla árlega um vegi landsins. Hvernig stendur á því að kindurnar bregðast ávallt jafnheimskulega við bíl sem nálgast þær? Annaðhvort hlaupa þær meðfram vegarkantinum í korter og skjóta sér svo inn í landið eða þær spretta umsvifalaust úr spori frá veginum og hlaupa svona 3 km inn í landið þó að bíllinn sé löngu farinn fram hjá. Sumar kindur eru óvenjuvitgrannar og hlaupa þvert yfir veginn er bíl ber að garði. Lærð hegðun er hugtak sem kindur þekkja ekki. Eðlilegt fyndist mér að þær væru byrjaðar að læra að best sé bara að rölta nokkra metra frá veginum og leggjast á ullarmallann heyri þær í bíl. Það er óþarfi að hlaupa hálfmaraþon fyrir hvern bíl. Íslenskar kindur eru eflaust í góðu líkamlegu formi eftir þessi hlaup og hugsanlega reynist smölun þeirra erfiðari fyrir vikið.

Snúum okkur nú aftur að spurningunni um heimskasta dýrið. Mörgæsir hafa sjaldan verið taldar til gáfudýra. Hvort þær séu heimskustu dýr veraldar skal látið liggja milli hluta, en á þessari síðu, undir nafninu „acc - pinguin sinks.mpg“, má sjá myndband með ofsalega heimskri mörgæs.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home