fimmtudagur, júní 30, 2005

Kindur og kveinstafir


Eru kindur heimskustu dýr veraldar? Þessi spurning skaðbrennur á rauðum vörum mínum þennan daginn. Í morgun keyrði ég Auði á Þingvelli og á Mosfellsheiðarvegi var allt morandi í kindum að sleikja malbikið. Það getur ekki verið gott að sleikja tjörustöppu. Á heimleiðinni keyrði ég næstum á lítið lamb sem ákvað að hlaupa þvert yfir veginn rétt áður en ég kom að því. Ég þurfti að nauðhemla til að myrða ekki litla hnoðrann og stefndi þar með mínu eigin lífi í hættu. Undarlegt þykir mér að kindur fái að leika lausum hala á vegum landsins. Ég heimta að bændur umkringi þær með girðingu til þess að koma í veg fyrir árekstra og slys á fólki jafnt sem dýrunum.

Nú keyra þúsundir bíla árlega um vegi landsins. Hvernig stendur á því að kindurnar bregðast ávallt jafnheimskulega við bíl sem nálgast þær? Annaðhvort hlaupa þær meðfram vegarkantinum í korter og skjóta sér svo inn í landið eða þær spretta umsvifalaust úr spori frá veginum og hlaupa svona 3 km inn í landið þó að bíllinn sé löngu farinn fram hjá. Sumar kindur eru óvenjuvitgrannar og hlaupa þvert yfir veginn er bíl ber að garði. Lærð hegðun er hugtak sem kindur þekkja ekki. Eðlilegt fyndist mér að þær væru byrjaðar að læra að best sé bara að rölta nokkra metra frá veginum og leggjast á ullarmallann heyri þær í bíl. Það er óþarfi að hlaupa hálfmaraþon fyrir hvern bíl. Íslenskar kindur eru eflaust í góðu líkamlegu formi eftir þessi hlaup og hugsanlega reynist smölun þeirra erfiðari fyrir vikið.

Snúum okkur nú aftur að spurningunni um heimskasta dýrið. Mörgæsir hafa sjaldan verið taldar til gáfudýra. Hvort þær séu heimskustu dýr veraldar skal látið liggja milli hluta, en á þessari síðu, undir nafninu „acc - pinguin sinks.mpg“, má sjá myndband með ofsalega heimskri mörgæs.

mánudagur, júní 13, 2005

Pyntingar og teiknimyndasögur


Í gegnum tíðina hafa hinar ýmsu pyntingaraðferðir tíðkast til að kreista mikilvægar upplýsingar úr föngum og öðrum sem geyma leyndarmál. Sumar þessara aðferða eru hrottalegar og einungis til þess fallnar að valda viðkomandi heljarinnar sársauka þangað til hann lætur undan og ælir út úr sér iðrasafa í bland við mikilvægar upplýsingar. Ein aðferðin sem Rauðu kmerarnir í Kambódíu hafa notað felur í sér að fangar eru látnir liggja á bakinu meðan vatnsdropar detta taktfast á mallakút þeirra. Þetta hljómar allsakleysislega í fyrstu en sögur herma að eftir dágóðan tíma valdi þessir dropar óbærilegum sársauka fyrir fangana. Ekki veit ég hvort þar sé á ferðinni andlegur eða líkamlegur sársauki — ef til vill sitt lítið af hvorum.

Nú hafa bandarískir pyntarar fundið upp nýja aðferð sem þeir beita á fangana í Guantanamo-fangabúðunum. Þessi aðferð er líklega sú ómannúðlegasta og hrottalegasta sem ég hef heyrt um (sjá hér). Í þessari aðferð er tónlist Christinu Aguilera notuð til að æra fangana sem á endanum kjafta frá öllu til að losna við froðupoppið. Ég myndi persónulega mæla með tónlist Buttercup til pyntingar (ekki að ég mæli með pyntingum) enda myndi ég sjálfur gefast upp ef ég væri neyddur til að hlusta á þann hroða lengur en 7 nanósekúndur.

Þessi nýstárlega pyntingaraðferð sýnir svo ekki sé um villst að ofbeldi er ekki nauðsynlegur þáttur í þessum hrottaskap. Til dæmis væri hægt að láta fangana hlusta á þvæluna í Karli Sigurbjörnssyni allan daginn eða horfa á allar myndir sem Jim Varney (kóninn sjálfur) hefur leikið í án pissuhlés. Tónlist Christinu er sem himnasending miðað við krónísku leiðindin í umræddum kauðum.

Snúum okkur að öðru. Ég er að velta því fyrir mér þessa dagana að stofna þýðingarfyrirtæki sem sér um að snara óþýddum (ósnöruðum?) teiknimyndasögum um Tinna, Sval og Val og Ástrík á íslensku. Ég varð í senn reiður og sár er ég sá að fyrsta Tinnabókin sem teiknuð og skrifuð var hefur aldrei verið þýdd á íslensku. Sú bók ber titilinn TINTIN AU PAYS DES SOVIETS eða Tinni í Sovétríkjunum eins og hún myndi heita á íslensku. Ég hélt alltaf að Tinni í Kongó væri fyrsta bókin, enda var hún fyrsta Tinnabókin sem var þýdd á íslensku. Einnig er fjöldinn allur af bókum um Sval og Val ekki til á íslensku eins og þessar sem eru eftir Cauvin. Einnig vantar nokkrar eftir hina höfundana Tom og Janry, Franquin og Fournier. Þetta er ekkert nema synd og skömm og stefni ég að því að bæta úr skák sem allra fyrst. Þessar bækur eru merkur menningararfur og er nauðsynlegt að halda heiðri þeirra á lofti. Ég er gráti næst.