föstudagur, maí 27, 2005

Raddir


Raddir fólks eru mismunandi eins og gengur og gerist. Sumir eru mjög skrækróma meðan aðrir er óhemjudjúpraddaðir. Ég hef til dæmis einstaklega hljómfagra rödd eins og heyra má í söng mínum. Til eru manneskjur sem selja rödd sína fyrir pening. Þekktustu dæmi þess eru líklega ofurbassarnir sem lesa inn á sýnishorn úr kvikmyndum.

Ein rödd fer óendanlega í mínar fínustu taugar. Það er bandaríska þáttaröddin.
Þá rödd má heyra bregða fyrir í ýmsum þáttum eins og Heimsmetabók Guinnes og sumum spjallþáttum. Rödd þessi er dýpri en myrkustu hafsbotnar og virðist sem raddgjafinn hafi stærðarinnar gímald undir tungu sér meðan hann talar. Það skrítna er að sama röddin virðist vera notuð í öllum þessum þáttum. Ég efast hins vegar um að sami maður tali inn á alla þessa þætti. Líklegast er að teknar hafi verið stofnfrumur úr raddböndum eins manns og þær græddar í ung og upprennandi raddmenni sem nú hafa lifibrauð af sjónvarpsröfli.

Þessi einræktaða rödd pirrar mig einstaklega mikið eins og áður segir, en virðist aftur á móti falla vel í geð Bandaríkjamanna. Hvers vegna er ekki hægt að fá einstakling með eðlilega rödd til að tala inn á þætti? Ég skil vel að fólk vilji ekki hlusta á ískrandi leiðinlegar raddir Jennifer Tilly eða Fran Drescher dægrin löng, en það hlýtur að vera einhver millivegur. Hvers vegna getur meðaljóninn ekki lesið með sinni mjúku og venjulegu rödd í stað djúprödduðu jaðarjónanna? Mig fýsir að vita þetta.

Ég get tekið undir það að skelfilega pínlegt væri að hlusta á skrækróma geldinga eins og Geir Ólafsson lesa inn á nýjustu spennumyndirnar - þær yrðu bara ekkert spennandi. Annað mál finnst mér vera með sjónvarpsþætti. Þættir verða leiðinlegri þegar einræktaðar djúpraddir leika lausum hala.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home