fimmtudagur, apríl 14, 2005

Górsíli og hornillur


Eitt megineinkenni spendýra er að þau er hærð einhvern hluta ævinnar. Mannskepnan telst til spendýra og hefur hár vítt og breitt um líkamann. Karlmenn eru þó að jafnaði ívið loðnari en kvenmenn að undanskildum austurevrópskum spretthlauparakvendum sem eiga það til að spranga um Ólympíuleikvanga með ógnarþykkar hormottur. Karlmenn eru afskaplega misloðnir og eru sumir náskyldir górillum í hárvexti meðan aðrir eru álíka loðnir og hornsíli. Ég fell í flokk einhvers staðar á milli górillunar og hornsílisins, þ.e. ég er górsíli ellegar hornilla.

Ég er sáttur við að vera górsíli eða hornilla, enda getur verið ofsahvimleitt að vera mannleg ullarpeysa. Það getur nefnilega verið einkar sársaukafullt að slasast og þurfa að líma sárabindi á hársekki. Ekki má gleyma því að menn eru misfljótir að taka út sinn hárvöxt og eitt sinn æfði ég fótbolta með górillu sem tók út sinn ofsafenga hárvöxt á fjórða aldursári. Var fýr sá sem gangandi hársekkur og stöðugt hlýtt. Hinum öfgunum hef ég einnig kynnst því að einn af skólafélögum mínum gegnum menntaskóla var argasta hornsíli og ávallt sem olíuborið fóstur. Honum var alltaf kalt.

Ég er ánægður með þann runna sem þekur nú bringspalir mér og kankast gjarnan á við silkimjúku hárin mín. Gott er að flétta þau og æfa sígilda sjómannahnúta á þeim við arineld á síðsumarkveldi. Hins vegar er ég allt annað en ánægður með það fenjasvæði sem hefur verið að spretta upp í víðfeðmum nösum mér undanfarið. Hár þessi eru risavaxin og gægjast í tíma og ótíma út úr nösunum þegar maður á síst von á því. Einnig kemur það fyrir að eitt hár smeygi sér undir miðnesið og tengist hinni nösinni og myndi þannig flóttaleið fyrir litlar horkúlur úr kommúnísku vinstri nösinni yfir í kapítalísku hægri nösina.

Ég hef nú þurft að berjast við þessi nefhár í allnokkurn tíma og reynt ýmsar aðferðir til að hamla útbreiðslu þessara vágesta. Ætli ég út á meðal fólks þarf ég oftar en ekki að reyta dálítinn arfa og reyni stundum að slíta hárin með handafli. Ég mæli ekki með því, enda getur það verið sársaukafullt. Skærin hef ég einnig prófað en ég er það skjálfhentur að ég óttast að sú aðferð leiði til enn meiri sársauka. Ég hef margoft séð rafræna nefháraeyða auglýsta, en aldrei þorað að kaupa slíkan af ótta við að sölufólkið fari að rýna í fenjasvæði nefs míns þegar ég ber vöruna upp að afgreiðslukassanum. Í dag var hins vegar vendipunktur í mínu lífi er ég keypti slíkan nefháraeyði í ELKO. Nú getur leiðin ekki annað en legið upp á við hjá mér og mæli ég með því að fólk sem á við sama nefháravandmál að stríða og ég bíti a jaxlinn og kaupi eyði. Þetta er vandamál sem þarf að komast upp á yfirborðið. Þetta er ekkert feimnismál lengur.