laugardagur, mars 12, 2005

Mikið lifandi skelfingar ósköp var þátturinn Reykjavíkurnætur leiðinlegur. Hann var svona alveg eins og við var að búast, sneisafullur af ofleik og ýktum alíslenskum djammatriðum. Allar persónurnar voru leiðinlegar og ekki veit ég hvað þessi þáttaröð á að fyrirstilla. Ég held að Íslendingar ættu bara að halda sig við að gera eina og eina góða mynd og sleppa því að gera svona misheppnaðar eftirhermur af erlendu drasli.

Hvers vegna er aldrei gerð almennileg spennumynd hér á landi? Ég væri til í að sjá eina alíslenska og vel leikna spennumynd í anda hinnar stórgóðu Foxtrot.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Grindavíkurharmleikurinn

-Þegar legghlífarnar duttu af-


Knattspyrnuferill minn hjá ÍR spannaði rúm tólf ár, en ég byrjaði að æfa á sjötta ári og hætti rétt fyrir átján ára afmælisdaginn. Eins gengur og gerist í þessari göfugu íþróttagrein átti ég mínar hæðir og lægðir eins og flestallir knattspyrnumenn (eða réttara sagt hægðir og lægðir). Ein var þó lægðin ógnardjúp og átti upptök sín í Grindavík. Á yngsta ári í öðrum flokki áttum við í hatrammri baráttu við Grindavíkurliðið um efsta sæti C-riðils í Íslandsmótinu. Í toppslagnum í Grindavík átti að leggja allt undir í titilbaráttunni, en eins og stundum áður var ég ekki alveg með hugann við leikinn.

Á leiðinni til Grindavíkur uppgötvaði ég að ég hafði gleymt legghlífunum heima. Ég sat því á bekknum í leiknum legghlífalaus og varð því að fá þær lánaðar ef ég skyldi þurfa að koma inn á. Mikið fjör var á varamannabekknum og sagði ég bekkjarfélögum mínum drambsfullur frá því að aldrei hefði ég gult spjald augum litið í knattspyrnuleik. Áttu liðsfélagar mínir bágt með að trúa þessu, þó að ég hafi verið annálaður fyrir lítið baráttuskap. En ég hafði varla sleppt orðinu að þjálfarinn sagði mér að gera mig kláran fyrir skiptingu. Þar sem mig vantaði legghlífar fékk ég þær lánaðar frá fýrnum sem fór út af fyrir mig. Legghlífarnar voru þess eðlis að maður átti að setja þær ofan í sokkana og á þeim var engin teygja undir hælinn. Eitthvað var ég utan við mig þegar ég átti að koma inn á því að ég setti legghlífarnar ekki ofan í sokkana heldur undir tunguna á takkaskónum mínum og festi þær svo með því að breiða efsta hluta sokkanna yfir þær.

Inn á ég fór nú og hélt beinustu leið í varnarvegg þ.s. Grindavík hafði fengið aukaspyrnu á stórhættulegum stað. Ekki hafði hugur minn náð að dansa í takt við leikinn því að ég var einkar æstur og lét ófriðlega í varnarveggnum. Í von um að bjarga marki og verða fyrir aukaspyrnunni spretti ég úr spori út úr varnarveggnum og tók karatehringspark með þrefaldri skrúfu í átt að boltanum. Tímasetning mín var aðeins fyrir einn fisk sökum þess að dómarinn hafði ekki flautað aukaspyrnuna á og sparksérfræðingur Grindvíkinga var enn að velta fyrir sér skotleiðum fram hjá hinum þétta varnarvegg okkar. Að launum fékk ég gult spjald, hið fyrsta á mínum ferli, fyrir óspektir á almannafæri. Um leið og dómarinn lyfti upp spjaldinu glumdu hlátrasköllin frá varamannabekknum, enda menn þar nýbúnir að heyra frægðarsögur af prúðum leikmannaferli mínum sem greinilega var á enda runninn.

Ekki var ég neitt ofsasáttur við þetta spjald og var staðráðinn í að skora til að bæta fyrir mistökin. Við vorum 1-0 undir í leiknum og undir lok leiksins fékk ég sendingu inn fyrir vörn Grindavíkur og sá þar gullið tækifæri til að lauma inn jöfnunarmarkinu og ná gleðinni á ný eftir gula spjaldið. Í sömu andrá og ég var að sleppa fram hjá seinasta varnarmanninum duttu hinar illa festu legghlífar af mér og ég vissi ei hvaðan á mér stóð veðrið á þeirri stundu. Sóknin rann út í sandinn meðan hlátrasköllin bergmáluðu um varamannabekk ÍR-inga. Grindvíkingarnir stóðu hins vegar hvumsa í vörninni, enda höfðu þeir eflaust aldrei áður séð jafnundarlegan atburð á heimavelli sínum. Þeir hins vegar tvíefldust við atvikið og skoruðu stuttu seinna. Við töpuðum þessum leik 2-0, en hver veit hvernig hefði farið ef ég hefði sett legghlífarnar ofan í sokkana, en ekki ofan í tunguna á skónum.

Svona fór um sjóferð þá.