miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Stalkerarnir Alda og Bára


Þá höfum við fengið Leifsgötuíbúðina afhenta og ætla Kristín og Gaui að leigja hana fram á haust. Við afhendingu bar það hæst að tvíburakvendin Alda og Bára kíktu í heimsókn og biðu í sjö korter eftir að Auður var búin í símanum til þess að heilsa henni. Þessi fundur okkar leit allsakleysislega út og væntanleg framtíðarsamskipti okkar við kvendi þessi virtust ætla að verða eðlileg.

En Adam var eigi lengi í paradís því að klukkan hálftólf í gærkvöldi fékk Auður hringingu frá öðru tvíburakvendinu. Hafði annar helmingur kvendatvenndarinnar (flott orð) grafið upp símanúmer Auðar til þess að hringja augljóst neyðarsímtal. Borist hafði bréf (e-r reikningur eða álíka ómerkilegt) til Auðar á Leifsgötuna og þótti Áru (köllum viðkomandi tvíbura Áru (=(Alda+Bára)/2) það sem eftir lifir bloggs svo að ég geri ekki upp á milli þeirra) það svo merkilegt að hún ákvað að hringja svona seint í Auði, ókunnuga manneskjuna. Var Ára einkar æst og lét sem heimurinn væri að farast. Kvaðst hún ætla að setja bréfið í sína vörslu þangað til að við hittum þær stöllur næst.

Nú er ég farinn að óttast um líf okkar Auðar enda virðast systurnar vera úrvalsstalkerar. Ég á alveg eins von á því að Ára eða Balda (=(Bára+Alda)/2) hringi í framtíðinni um miðja nótt og andi í símann sem astmasjúklingur á lóðaríi. Gárungar segja að maður eigi að vara sig á systrunum og hleypa þeim ekki of nærri sér. Ég held að þessi dagur verði okkur víti til varnaðar og förum við brátt fram á nálgunarbann. Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í Grjótaseli 17 vegna málsins.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home