mánudagur, febrúar 07, 2005

Sælgætishornið og gullgerðarmenn vorra daga


Langt er síðan Sælgætishornið góða birtist hér á bloggi okkar og bíður ein vara þess nú að láta slátra sér þar. Móðir mér kom heim úr búðarferð um daginn og bauð mér að smakka nýja hollustunammið frá Ágústu Johnson. Eins og alþjóð veit passa orðin hollusta og nammi (fyrir utan samsetta orðið hollustunammi) ekki vel saman og stöðugt reynir fólk að búa til hið fullkomna nammi sem er jafnt ugluhollt sem ofsagott.

Fólk þetta minnir mig eilítið á gullgerðarmenn miðalda sem kepptust við að búa til vélar sem mynduðu gullmola úr jafnfáranlegum afurðum og agúrkum og nefhárum úr sköllóttum lemúrum. Eins og gefur að skilja gekk ekkert upp hjá gullgerðargreyjunum, enda kom síðar í ljós að gull er í raun frumefni og er nú táknað með Au í 79. sæti lotukerfisins. Segja má að Ágústa Johnson og hennar meðhollustunammiframleiðandabræður og -systur séu gullgerðarmenn nútímans. Nú er ljóst að ekki er mögulegt að hræra saman hollustuvörum í nammihjúp þannig að útkoman verði bragðgóð. Í raun má segja að gott hollustunammi sé matarfrumefni sem sé einungis til í vísindaskáldsögum og draumum (eða martröðum). Það er nefnilega hálfaumkunarvert að horfa upp á hollustuspekingana eyða sínum tíma í svona alkemistaklúður og held ég að þeir verði jafnmikið aðhlátursefni framtíðarfólks og gullgerðarmenn fyrri alda eru nú.

Allavega, hér birtist dómur um hollustunammi alkemistans Ágústu Johnson.

Sælgætishornið


Vara: Nýja hollustunammið Minna mál úr smiðju Ágústu Johnson.
Þyngd: Segjum 300 g í pakka.
Lýsing: Nammikex samansett úr hollum afurðum.
Kostir: Að sögn Ágústu minnkar mittismál manna við át umrædds nammikex.
Ókostir: Óendanlega bragðvont og geipilega þurrt. Eftirbragðið er allasvakalegt og varir í níu korter.
Aukaverkanir: Ógleði, þunglyndi, martraðir, matarfælni og mikil vanlíðan.
Einkunn: 2,2 Nömm.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home