þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Útlit er ekki allt

-Raunasaga af silungaáti-


Fagrar umbúðir fela stundum rotið innihald og oft er flagð undir fögru skinni. Þessu komst ég að raun um snemma á sjöunda aldursári er ég var ásamt fjölskyldu minni í matarboði hjá Siddu og Árna, vinafólki nömmu og pabba. Þar settist ég við matarborðið sem var drekkhlaðið dýrindiskræsingum og varð undurfljótt starsýnt á miðju borðsins sem glitraði fögrum og bleikum geislum. Spurði ég móður mína æstur hvort þetta væri draumsýn en hún kvað þetta einungis stirnandi silungaflök. Ég gat ekki beðið eftir að bragða á slíkri fegurð og fékk mér tvö risastór flök á diskinn. Ekki leið á löngu áður en fyrsti bitinn hvarf inn fyrir vit mín en út fór hann jafnfljótt og inn hann kom. Bragðið stóð ekki undir væntingum mínum og var í engu samræmi við útlitið. Þarna sat ég sem sagt með tvö silungaflök sem mett gætu heila fílahjörð en ekki mig. Til að koma í veg fyrir leiðindi gerði ég mér upp fótbrot og komst þannig heilu og höldnu frá matarboðinu með ósvert mannorð.

Mórall þessarar skemmtilegu raunasögu er sá að silungur er ekki góður.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Sælgætishornið og gullgerðarmenn vorra daga


Langt er síðan Sælgætishornið góða birtist hér á bloggi okkar og bíður ein vara þess nú að láta slátra sér þar. Móðir mér kom heim úr búðarferð um daginn og bauð mér að smakka nýja hollustunammið frá Ágústu Johnson. Eins og alþjóð veit passa orðin hollusta og nammi (fyrir utan samsetta orðið hollustunammi) ekki vel saman og stöðugt reynir fólk að búa til hið fullkomna nammi sem er jafnt ugluhollt sem ofsagott.

Fólk þetta minnir mig eilítið á gullgerðarmenn miðalda sem kepptust við að búa til vélar sem mynduðu gullmola úr jafnfáranlegum afurðum og agúrkum og nefhárum úr sköllóttum lemúrum. Eins og gefur að skilja gekk ekkert upp hjá gullgerðargreyjunum, enda kom síðar í ljós að gull er í raun frumefni og er nú táknað með Au í 79. sæti lotukerfisins. Segja má að Ágústa Johnson og hennar meðhollustunammiframleiðandabræður og -systur séu gullgerðarmenn nútímans. Nú er ljóst að ekki er mögulegt að hræra saman hollustuvörum í nammihjúp þannig að útkoman verði bragðgóð. Í raun má segja að gott hollustunammi sé matarfrumefni sem sé einungis til í vísindaskáldsögum og draumum (eða martröðum). Það er nefnilega hálfaumkunarvert að horfa upp á hollustuspekingana eyða sínum tíma í svona alkemistaklúður og held ég að þeir verði jafnmikið aðhlátursefni framtíðarfólks og gullgerðarmenn fyrri alda eru nú.

Allavega, hér birtist dómur um hollustunammi alkemistans Ágústu Johnson.

Sælgætishornið


Vara: Nýja hollustunammið Minna mál úr smiðju Ágústu Johnson.
Þyngd: Segjum 300 g í pakka.
Lýsing: Nammikex samansett úr hollum afurðum.
Kostir: Að sögn Ágústu minnkar mittismál manna við át umrædds nammikex.
Ókostir: Óendanlega bragðvont og geipilega þurrt. Eftirbragðið er allasvakalegt og varir í níu korter.
Aukaverkanir: Ógleði, þunglyndi, martraðir, matarfælni og mikil vanlíðan.
Einkunn: 2,2 Nömm.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Stalkerarnir Alda og Bára


Þá höfum við fengið Leifsgötuíbúðina afhenta og ætla Kristín og Gaui að leigja hana fram á haust. Við afhendingu bar það hæst að tvíburakvendin Alda og Bára kíktu í heimsókn og biðu í sjö korter eftir að Auður var búin í símanum til þess að heilsa henni. Þessi fundur okkar leit allsakleysislega út og væntanleg framtíðarsamskipti okkar við kvendi þessi virtust ætla að verða eðlileg.

En Adam var eigi lengi í paradís því að klukkan hálftólf í gærkvöldi fékk Auður hringingu frá öðru tvíburakvendinu. Hafði annar helmingur kvendatvenndarinnar (flott orð) grafið upp símanúmer Auðar til þess að hringja augljóst neyðarsímtal. Borist hafði bréf (e-r reikningur eða álíka ómerkilegt) til Auðar á Leifsgötuna og þótti Áru (köllum viðkomandi tvíbura Áru (=(Alda+Bára)/2) það sem eftir lifir bloggs svo að ég geri ekki upp á milli þeirra) það svo merkilegt að hún ákvað að hringja svona seint í Auði, ókunnuga manneskjuna. Var Ára einkar æst og lét sem heimurinn væri að farast. Kvaðst hún ætla að setja bréfið í sína vörslu þangað til að við hittum þær stöllur næst.

Nú er ég farinn að óttast um líf okkar Auðar enda virðast systurnar vera úrvalsstalkerar. Ég á alveg eins von á því að Ára eða Balda (=(Bára+Alda)/2) hringi í framtíðinni um miðja nótt og andi í símann sem astmasjúklingur á lóðaríi. Gárungar segja að maður eigi að vara sig á systrunum og hleypa þeim ekki of nærri sér. Ég held að þessi dagur verði okkur víti til varnaðar og förum við brátt fram á nálgunarbann. Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í Grjótaseli 17 vegna málsins.