föstudagur, desember 17, 2004

Um tvíburakvendi og afturgöngur


Nú er níðþröngri prófatörn lokið og letin hefur tekið við. Með fjögur próf á sex dögum er manni eilítið þröngur stakkur sniðinn og olli það miklum svefntruflunum hjá mér. Auður er enn á fullu í prófum og sökum þess hef ég tekið að mér að baka ýmislegt fyrir jólin. Konfekt, agúrkubitakökur og sitthvað fleira góðgæti mun verða hnoðað milli lófa mér á næstunni.

Nú er það opinbert að íbúð 0101 á Leifsgötu 10 hefur verið seld hæstbjóðanda, þ.e. mér og Auði. Mikilli þrautagöngu er þar með lokið og fæst íbúðin afhent 1. febrúar 2005. Í stigagangi verðandi fjölbýlishúss okkar búa ýmsar kynjaverur og ber þar hæst hálffimmtugu tvíburakvendin í Millet-úlpunum sem flestir Íslendingar hafa séð í strætisvögnum borgarinnar á kjaftatörn við bílstjórann. Ég hef munað eftir þeim alla mína tíð og hef ósjaldan séð þær þramma um strætin á ljóshraða, alveg í takt. Kvendi þessi búa á efstu hæð og eru verndarar og einhvers konar guðmæður hússins, Don Tvibbi 1 og Don Tvibbi 2. Njóta þær mikillar virðingar meðal samborgara sinna og segja gárungar að komist maður í mjúkinn hjá þeim sé ekki aftur snúið.

Fyrir þau sem ekki vita er Leifsgata nokkurs konar leynigata og liggur á milli Eiríksgötu og Egilsgötu. Horfi maður eftir götunni blasir við tignarlegur afturendi Hallgrímskirkju. Eins og staðsetningin gefur í skyn er kirkjuklukknamartröðum okkar Auðar eigi lokið í bráð, enda svo sem erfitt að losna við þær nema að flytja til Kolbeinseyjar. Eftir að hafa keypt íbúðina fór okkur að ráma í morð nokkur sem framin voru á Leifsgötu. Hver man ekki eftir Vatnsberanum sem myrti fýr köldu blóði hér um árið? Það gerðist á Leifsgötu. Við töluðum við stúlkuna sem seldi okkur íbúðina og hún tjáði okkur að maður hefði verið stunginn til bana í íbúðinni fyrir neðan. Þetta var ekki Vatnsberamorðið heldur eitthvert uppblásið óvartmorð fyrir fimm árum. Þannig að hugsanlega mun afturganga hreiðra um sig hjá okkur og kitla tær mínar í næturhúminu. Það er nú ekki alslæmt, það hafa allir gaman að félagsskap. Ég vona bara að vofa þessi muni ekki láta ófriðlega eins og litla stelpan Regan í The Exorcist, þ.e. snúa haus sér 360° í tíma og ótíma og ganga sem kónguló í brú aftur á bak niður tröppurnar í stigaganginum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home