þriðjudagur, september 28, 2004

Í tvíburaprófinu þá er Jón Sigurður minn BETTE MIDLER sem kona. Hahahahahahaha! Sem karlmaður er hann Jaquin Phoenix, Stanley Tucci eða Chevy Chase. Jesúss!!!

Var á eilitlu síðuhoppi í dag og endaði í svona celeb-twin prófi. Eftir að hafa lagt fyrir allar myndir sem ekki eru í skrímsladeild minni og prófað aftur og aftur þá komu niðurstöðurnar gífurlega á óvart. Ég er sumsé tvífari Natalie Portman. Ekki það að ég hefði ekki geta sagt mér það sjálf.
Það kom svo upp lítill "villiköttur" í mér (svona eins og ég og Nattie tvibbi segjum) og ég skráði mig inn sem karlmann. Grunaði ekki Gvend - ég er heldur betur nákvæmlega eins og þeir John Cusack, Kyle MacLachlan og ugly fuck Paul MacCrane (fúli læknagaurinn sem missti hendina í E.R. for crying out loud!). Þeir þrír eru sumsé tvibbar mínir í réttri röð talið frá Cusack. Ég var náttlega ekki alveg allskostar sátt við þessar niðurstöður þannig að ég reyndi nýja mynd. Þá átti ég að líkjast einhverjum nobody Stephen Dorff, þá Michael Schumacher og síðast en ekki síst John Cusack. Veröld mín hefur hrunið til grunna.

Svo ákvað ég nú að leika heldur betur á prófið og setti mynd af Britney í kerfið... Ooog viti menn - hún er engin önnur en Keira Knightley. Nema hvað að myndin af Keiru var ekki Keira. Og það hlýtur að þýða að John Cusack er ekki tvífari minn. Schumacher því síður. Ligga ligga lái!

miðvikudagur, september 15, 2004

Jón í gólfæfingum

Ég horfði eilítið á Ólympíuleikana um daginn og fylgdist geysigrannt með fimleikakeppninni. Þetta kann að hljóma undarlega í eyrum þeirra sem mig þekkja, enda hef ég löngum verið talinn í lágum fimleikaklassa. Á unga aldri barðist ég við ofsahræðslu við hestana í leikfimi og þorði ei í mitt fyrsta stökk fyrr en í 6. bekk að mig minnir. Ég þótti hins vegar efnilegur hástökkvari í yngri bekkjum Ölduselsskóla, en er leið á keppnisferil minn breyttist stökkstíll minn og nýi stíllinn gekk út á að reka hnéð í hægra augað í sömu andrá og ég sveif gríðarlangt yfir ránni. Þetta hafði skelfilegar afleiðingar í för með sér og óttaðist ég mikið að taka þátt í hástökki seinna meir. Eitt skiptið í leikfiminni var ég svo mikið með hugann við að hlífa hægra auganu að ég gleymdi að fylgjast með hvernig ég stökk, sem olli því að ég stökk á ská yfir dýnuna og lenti á rófubeininu á gallhörðu gólfinu. Ég man enn í dag eftir stingandi sársaukanum sem barst ógnarhratt upp hrygginn. Hef ég ekki farið í hástökk síðan.

Er ég hélt í MR á sextánda ári taldi ég að engin væri hættan á leiðindaleikfimi. Annað kom á daginn. Eins og flestir núverandi og fyrrverandi MR-ingar vita er Haukur frænka, leikfimikennari, forn í háttum og atgervi. Svo fornar vori sumar æfingarnar sem hann setti saman að stundum vissi maður vart hvaða öld væri. Án efa leiðinlegasta æfingin var terran svokallaða. Í terru skal maður sveifla sér upp á planka í tveggja metra hæð og snúa sér í hringi og hvaðeina og taka svo afstökk með sexfaldri skrúfu og hálfu heljarstökki. Í stuttu máli tókst mér aldrei að fara í terru á mínum MR-tíma.

Einhverju sinni ákvað Haukur frænka að hafa hest til að stökkva yfir fyrir liðuga menntamenn. Ég sá strax leik á borði þarna og ákvað að sýna hvað í mér bjó, enda búinn að vinna bug á hestahræðslu grunnskólans. Ég spretti úr spori sem antilópa í tilhlaupinu, eins og mér einum er lagið, en er ég kom að stökkbrettinu hrasaði ég með þeim afleiðingum að ég skelltist með magann á hestinn og datt öfugur niður hann hinum megin. Fyrir þetta stökk fékk ég víst ekki góða einkunn frá frænkunni; dómaraskandall.

Er ég horfði á ofur massaða og hulk-lega fimleikafýrana á Ólympíuleikunum rifjuðust fyrrgreindir fimleikataktar upp fyrir mér. Ég hugsaði líka hvernig ég myndi standa mig í fimleikum á slíkum leikum ef ég á einhvern undarlegan hátt myndi komast þangað.

Tvíslá: Ég myndi hanga á tvíslánni og afstökkið yrði með því móti að ég sleppti haldinu er tíminn væri kominn.

Hringir: Það þyrfti sjö menn til að lyfta mér upp í hringina og þar myndi ég hanga líkt og á tvíslánni. Hugsanlega gæti ég sveiflað fótunum til að vinna hylli dómaranna og fá aukastig. Afstökkið yrði eins og á tvíslánni.

Stökk: Stökkið væri líklega mín slakasta grein. Í byrjun myndi ég veifa allduglega til áhorfenda til þess að fá þá á mitt band og svo í miðju lófatakinu sprytti ég úr spori og tæki gott hopp á stökkbrettinu til að lenda ofan á hestinum á báðum fótum. Krafan er víst sú að menn taki nokkrar skrúfur og/eða nokkur heljarstökk og lendi á dýnunni, en ég færi ótroðnar og óséðar slóðir í þessar grein. Vonandi fengi ég stig fyrir stuðning áhorfenda.

Gólfæfingar: Án efa mín sterkasta grein. Að velja gott lag fyrir þessar æfingar er algjört grunnatriði og rímix af vinsælustu lögum vikunnar kæmi sér vel. Þar sem ég er ekki mikill aðdáandi skrúfna og heljarstökka myndi ég einblína á dansinn og listrænu hliðina á gólfæfingunum; eitthvað sem enginn hefur gert fyrr. Hugsanlega myndi ég þó taka nokkra kollhnísa, eitt handahlaup og handstöðu, sem ég gat í 12 ára bekk, til að krydda dansinn. Í MR lærði ég nefnilega nokkur dansspor og það gæti verið sterkur leikur að taka t.d. upphafssporin í cha cha cha meðan maður hlypi um gólfið. Sem sagt gólfæfingar mínar væru stöðug hlaup um gólfdýnuna með danskenndu ívafi, þar sem ég blandaði saman helstu dönsum samtímans eins og lambada, cha cha cha, valsi og polka. Þetta gæti vakið ófyrirséða lukku meðal dómaranna. Og að sjálfsögðu væri ég klæddur í níðþröngar sokkabuxur og netabol.

Ég yrði án efa stolt Íslands.

mánudagur, september 06, 2004

Trúið því. Ég, antiútivistar ég er búin að ganga á tvö fjöll + einhverja hóla og hæðir á aðeins tveim vikum. Þessar fjallferðir eru nú samt ógurlega viðeigandi og stórkostlegar því ég er nú stoltur meðlimur nemendafélagsins Fjallið. Afar kaldhæðið. En er loks komin í landfræðina og bara alsæl með mig og mína. Þurfti hins vegar að taka með mér hamar og lúpu í þessa ferð til þess að skoða ekki ómerkari hluti en ólivín, túff (veðrað móberg) og plagíóglas svo nokkuð sé nefnt.
Ég gerði svo grín að samnemendum mínum með því að gera óformlega könnun á því hversu margir þar væri í 'bjöggum' eða 'flubbum' (björgunarsveitum...). Held samt að þau hafi bara haldið að ég væri líka svoleiðis þannig að grínið var bara grín fyrir mér. Fékk nefnilega gönguskó í láni frá Önnu Stínu (megatengdó) og bara leit út fyrir að vera svona útivistarnörri líka(sorrí Herdís og samnemendur ef þið lesið þetta).
Ausa