þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Vináttan endurnýjuð...
Ég vil hér með endurnýja vináttu mína við lyklaborðið og bloggerinn sem ég hef algjörlega sniðgengið í sumar af augljósum ástæðum. Vinna mín hefur hreiðrað um sig í kolli mér og lítið annað komist að. Er þess vegna best að hér skuli lokað þeim kafla með því að tala eilítið um sumarið í Skaftafelli.
Saga 1 - Gella labbar inn í upplýsingarnar (þar sem ég vinn) klædd í dýrustu og flottustu útivistarfötin og í gönguskóm í stíl. Vindur hún sér að Söru (kollega mínum) og bendir á kort af Íslandi, inn á miðjan Vatnajökul og spyr: "Erum við hérna?". Sara svarar því til að þar séum við nú ekki. Svo gellan gerir aðra tilraun og bendir nyrst á austfirði: "Erum við hérna?". Sara heldur nú að um sé að ræða falda myndavél og fer því að litast um og brosa út í annað. Bendir þá á Skaftafell á kortinu og segir við gelluna: "Sko, við erum hérna, ekki uppi á Vatnajökli!". Gengur þá kvendið út sælt og glatt með landafræðikunnáttu sína.
Saga 2 - Ég ætla af greiðvikni við viðskiptavini að þrífa sprengiskít af setu nokkurri á klósetti gestastofu. Hleypur þá inn maður á klóið, áður en ég kemst að, og gerir sitt pæng í dallinn. Þegar ég kem svo að er allur kúksi horfinn á braut og þurfti ég ei að þrífa manna annarra manna þennan dag.
Saga 3 - Sprengisplatter á kvennaklósettinu þekur gólf, veggi og setu. Ég er þunn, þreytt og get mig hvergi hreyft í þessum hrylling. Set klósettsetuna í ruslapoka, læsi klóinu og salta vibbann. Aðrir starfsmenn þjóðgarðsins taka málið að sér. En hvernig í ósköpunum er hægt að kúka á vegg, efst á setu og á gólf? Skítur konan lárétt?
Aðrar sögur eru því miður ekki prenthæfar og bið ég því fólk að leita til mín ef áhugi vaknar.

mánudagur, ágúst 16, 2004

Hvenær ætla fréttamenn á mbl.is að lesa talnapistlana mína? Maður sér aldrei tölur rétt þýddar á þessari síðu. Af mbl.is: „Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna segja þær þurfa að bæta samskipti við þær billjónir múslima sem búi í heiminum og tryggja að íbúar Miðausturlanda líti á stofnunina sem hlutlausa.“ Þarna á að standa milljarðar í staðinn fyrir billjónir, en billjón er 1000 sinnum stærri tala en milljarður.

Fyrst ég er byrjaður að röfla hér, er best að henda inn Íslenskuhorninu.

Íslenskuhornið

Oft sér maður raðtölur rangt skrifaðar. Í íslensku ritmáli er hafður punktur á eftir raðtölum. Dæmi: Í dag er 16. ágúst. Þetta er lesið svona: Í dag er sextándi ágúst. Allt of oft sér maður svona raðtölur ritaðar án punkts. Dæmi: Í dag er 16 ágúst. Þetta er lesið svona: Í dag er sextán ágúst.

Gjarnan er röng tala höfð á sögnum sem standa með orðum sem tákna heild. Dæmi: Fjöldi manna slasaðist. Rangt væri að segja: Fjöldi manna slösuðust. Það er fjöldinn sem slasast.

Oft heyrir maður í fréttum eitthvað á þessa leið: Þúsundir manna er nú heimilislausir. Þetta er að sjálfsöðu alrangt, en rétt væri að segja: Þúsundir manna eru nú heimilislausar. Hér ræðst kyn lýsingarorðsins heimilislaus af frumlaginu þúsundir. Hins vegar myndi maður segja: Þúsund menn er nú heimilislausir. Munurinn er sá að í seinna dæminu er frumlagið þúsund menn, en í fyrra dæminu er frumlagið þúsundir.

Mjög oft sér maður skrifað á prenti eða tölvuskjá nýjir, bæjir og deyjir þ.e.a.s., joði er ofaukið. Þetta er kolrangt og rétt er skrifa nýir, bæir og deyir. Hins vegar skrifar maður nýja, nýjum, bæja, bæjum, deyja og deyjum. Reglan er einföld: Á eftir ý, æ og ey skal ekki rita j ef i fer á eftir.

Djammsjúkum er enn fremur bent á að skrifa partí, en ekki partý.

Að lokum skal getið þess að frasinn „eitthvað er að gera sig“ er svartur blettur á tungu margra einstaklinga. Frasarnir verða ekki ljótari og óíslenskari en umræddur frasi.

mánudagur, ágúst 09, 2004

Þá erum við komin heim frá Danmörku þar sem hitabylgja varð á vegi okkar og hlutfall nikótíns í andrúmslofti er 78%. Ég er brúnn sem afganskur bolabítur eftir sólina enda notaði ég ekkert nema brúnkuaukandi áburð á sólelskandi húð mér. Í tilefni eyðimerkurhúðlitar míns skal hið næstum gleymda Sælgætishorn líta dagsins ljós í viðauka þessa pistils. Ég veit ekki enn hvað ég ætla að taka fyrir í umræddu horni, en ég skal reyna að hugsa það meðan ég skrifa þessi orð.

Í dag ætla ég að tala um íslenskt mál. Ég sá tvær auglýsingar í gær með svæsnum stafsetningarvillum sem ollu því að ég varð reiður. Önnur auglýsingin var í búðarglugga á Hverfisgötu, en þar stóð að skóhlýfar væru til sölu. Rétt er auðvitað að skrifa skóhlífar. Hin auglýsingin, sem er á stærð við Þrándarjökul, er á þríhyrningsauglýsingaskilti í Breiðholti og stakk mig í augun við fyrstu sýn. Auglýsingin er svona: Grasið er grænt, himininn er blár og SS pylsur eru góðar. Rétt væri að segja himinninn (himinn í nefnifalli og himin í þolfalli) er blár. Einnig væri betra að skrifa SS-pylsur. Ég býst við að menn myndu skrifa kokteilpylsur, en ekki kokteil pylsur. Annars man ég ekki hvort það var bandstrik í þessu orði í auglýsingunni eða ekki.

Eftir að hafa legið undir feldi í sextán korter hef ég ákveðið að bjóða upp á nýjung á bloggi þessu. Nýjungin verður Íslenskuhornið þar sem ég mun, í örstuttu máli, útskýra algengar stafsetningarvillur og upplýsa lesendur hver rétt stafsetning sé. Á eftir Sælgætishorninu hér á eftir verður Íslenskuhornið vígt með tilheyrandi látum.

Úr einu í annað. Ég prófaði Singstar-tölvusöngleikinn um daginn og öllum að óvörum greindist ég tone deaf eftir að hafa sungið lagið I Believe in a Thing Called Love með The Darkness. Eitthvað virðist þessi tölvuleikur vera gallaður og hef ég sent höfundum hans formlegt kvörtunarbréf, þannig að stuðningsmenn hinnar íðilfögru söngraddar minnar þurfa engu að kvíða. Í sárindum mínum yfir undarlegri sönggreiningu hef ég ákveðið að taka þennan tölvuleik fyrir í Sælgætishorninu.


Sælgætishornið
Vara: Singstar-tölvuleikurinn í Playstation 2.
Þyngd: Disklingurinn er líklega um 166 g, en disklingur og hulstur eru líklega samanlagt 357 g.
Lýsing: Þetta er karókítölvuleikur þar sem hver laglína hjá manni er dæmd og henni gefin einkunn. Í enda hvers lags er keppendum gefin heildareinkunn fyrir frammistöðu sína.
Kostir: Mikil búbót fyrir söngelska fýra og söngelskar stúlkur. Hentar vel í partíum og við almennar söngæfingar.
Ókostir: Greining á frammistöðu keppenda er augljóslega röng eins og greiningin á frammistöðu minni gefur glögglega til kynna.
Aukaverkanir: Reiði og sorg yfir röngum greiningum.
Einkunn: 7 Nömm. Hér missti leikurinn af mikilvægum Nömmum vegna undarlegrar og bersýnilega rangrar greiningar.


Íslenskuhornið
Samtengingin annaðhvort eða er mjög oft ranglega rituð annað hvort eða. Dæmi: Jón er annaðhvort skrýtinn eða eðlilegur. Rangt væri að skrifa: Jón er annað hvort skrýtinn eða eðlilegur. Orðið annaðhvort er einungis ritað í einu orði þegar það er hluti af þessari samtenginu. Fornöfnin annar hvor skal hins vegar rita í tveimur orðum. Dæmi: Annað hvort þeirra keypti sér leðursamfesting.

Orðið ofur er einungis forliður með nafnorðum, en ekki með atviksorðum og lýsingarorðum. Þannig ritar maður t.d. ofurmaður, ofurkona og ofurheimska. Ofur er hins vegar atviksorð þegar það stendur á undan lýsingarorðum og atviksorðum. Þannig ritar maður t.d. ofur vel, ofur ljótur og ofur eðlilega. Dæmi: Jón er ofurmenni þrátt fyrir að vera ofur lofthræddur.
Jæja, ég læt þetta nægja af Íslenskuhorninu í dag. Von er á framhaldi Íslenskuhornsins á næstunni.