fimmtudagur, júní 24, 2004

Syngjandi fjölskyldan


Fjölskyldur eru jafnmismunandi og þær eru margar. Einnig eru fjölskyldur jafnmisskemmtilegar og þær eru mismargar (?). Ég barði eina undarlega fjölskyldu augum áðan í drepleiðinlegri umferðinni á Miklubraut. Ég keyrði mína sjálfrennireið glaður og reifur í bragði, en hrökk í kút þegar ég sá bíl mér við hlið hristast sem Snorri á hryllingsmynd. Í fyrstu hélt ég að ekki væri allt með felldu í bíl þessum og sú var reyndar raunin.

Er ég leit á bílinn sá ég þar fimm manna fjölskyldu sem söng, klappaði, stappaði og hristist af kæti. Faðirinn, gumi á fimmtugsaldri, og móðirin, sprund á svipuðum aldri, rugguðu sér í lendunum í framsætunum og trommuðu á mælaborðið og sætisbökin í takt við eitthvert lag sem ég að sjálfsögðu heyrði ekki. Þrjú lítil ungmenni skríktu og kímdu í aftursætunum og böðuðu út sínum limum sem strengjabrúður á lóðaríi. Lífið virtist leika við þessa fjölskyldu og allir meðlimir voru ofur hýrir á brá.

Ég gat ekki annað en brosað út í kantinn, enda slakur á kantinum (heimild: Svali á FM957), því þessi fjölskylda minnti mig á einhvern grínþátt fyrir nokkrum árum þar sem gert var grín að svona ofsaskemmtilegum og syngjandi fjölskyldum. Þessi fjölskylda var eiginlega ýktari mynd af þeirri sem birtist í grínþættinum. Hristingurinn í bílnum var slíkur að það lá við að hann flakkaði milli tveggja akreina.

Ég man ekki þá tíð er mín fjölskylda skemmti sér svona vel í bílferðum um borgina eða landið. Er við söngelsku bræðurnir hófum upp rastir okkar í aftursætinu vorum við umsvifalaust beðnir um að hætta sökum árekstrarhættu. Í staðinn var farið í þannig leik að maður átti að giska á lit næsta bíls er á móti kom og í verðlaun voru töggur.

Þó ég hafi nú einkar gaman að söng er ég ekki viss um að ég kysi frekar svona fjölskyldusöngleik í bílferðum en tögguleik, enda getur svona tögguleikur verið æsispennandi meðan söngleikur er þreytandi og hristingurinn í kjölfarið getur valdið bílveiki.

föstudagur, júní 04, 2004

The Exorcist


Ég hef sjaldan verið talinn mikill harðhaus þegar kemur að kvikmyndum, þó ég sé nú óttalegur harðhaus í raunveruleikanum. Nokkrar kvikmyndir hafa valdið mér krónískum martröðum og flökurleika gegnum tíðina og ber þar hæst The Exorcist. Ég og Snorri, sem er jafnlítill kvikmyndaharðhaus og ég, brugðum okkur á þá mynd er hún var tekin til sýninga að nýju í sölum borgarinnar. Ég skil stundum ekki hvað sogar mig að svona hryllingsmyndum því ég sat stjarfur alla myndina og þorði vart að anda. Ekki var hann Snorri betri og var hann reifaður úlpu sinni til að verjast alls kyns óvættum. Allt í kringum okkur voru pískrandi gelgkvendi og litlir unglingsfýrar sem skríktu alla myndina. Á svona stundu efast maður um sitt eigið ágæti. Hvernig getur maður orðið svona hræddur meðan ofsalítil táningsmenni hlæja?

Þetta er spurning sem ég kýs ekki að svara. Ég þarf nefnilega ekki annað en að hugsa um The Exorcist til að fá skerandi hroll niður hrygginn. Í fyrradag var þessi mynd einmitt á dagskrá Stöðvar 2. Er ég las yfir dagskrána um kvöldið fór ég næstum að gráta af hræðslu við það eitt að sjá nafn myndarinnar. Ég strengdi þess heit að slökkva á sjónvarpinu áður en myndin byrjaði, enda einn heima (Auður farin í Skaftafell) og ekkert er verra en að horfa á hrylling einn. Ráðagerð mín gekk eftir og sprangaði ég upp í rúm í þann mund er myndin byrjaði. En þetta var bara ekki nóg. Ég vissi af myndinni í sjónvarpinu og það eitt gerði dauðskelkaðan. Ég gat ekki hætt að hugsa um litlu andsetnu stelpuna Regan og hennar ófrýnilegu ásjón. Varð þetta þess valdandi að ég fékk væna martröð um nóttina þar sem ég var eltur af andsetnu óféti. Skelfileg lífsreynsla.

Sál mín er stórskemmd eftir hryllingsmyndagláp í gegnum tíðina. Hver man ekki eftir Gremlins-myndunum? Ég vil gleyma þeim. Er ég var sex vetra horfðum við systkinin á Gremlins meðan foreldrar oss skíðuðu niður Alpana. Þetta reyndist mér ofviða og þótti mér myndin slíkur hryllingur að ég grét stanslaust í 23 korter. Bryn, systir, skellti mér á lær sér og reyndi að hugga mig með því að segja mér að hugsa um fótbolta. Það gekk ekki eftir. Þessi mynd var þó öllu betri en sú er mamma og pabbi píndu mig til að horfa á einungis þriggja ára.

Þá mynd kaus ég að kalla Hausinn af-myndina enda var maður hálshöggvinn í henni og gekk um hauslaus langtímum saman. Ekki er slíkur óbjóður sæmandi þrívetra snáða og fæ ég enn bullandi martraðir eftir þessa raun. Myndin var víst svört kómedía en það vissu ekki foreldrar mínir sem hlupu með mig, háskælandi, út úr bíóinu í hléi.

Ég og Halldór tókum eitt vetrarkvöldið The Shining sem seint verður talin ljúfsár sveitamynd. Hafði hróður myndarinnar borist um víðan völl og vildum við ekki missa af þessu meistarastykki. Við vorum einir heima og stirnuðum fljótt upp af hræðslu. Eftir myndina lá við að Halldór hringdi á mömmu sína til að sækja sig, enda þorði hann ekki að keyra einn heim. En kauði beit á jaxlinn og reimaði skóna í anddyrinu eins og ekkert hefði í skorist. Er hann steig á fætur og horfði út um dyragluggann sá hann andlit. Var þar Þórður bróðir að koma heim af djamminu og var glær sem vofa. Halldór veinaði af hræðslu og fékk sinadrátt í hjartað sökum ofsahræðslu.

Ekki var minni skelfingin í okkur piltunum þegar við sáum Event Horizon í Háskólabíói. Snorri gróf sig snemma í fönn í rúmgóðri úlpu sinni en ég sat við endann á röð og hafði engan við hægri hlið mér. Þetta olli mér hugarangri út myndina og var ég á ávallt á varðbergi gagnvart óvættum sem gætu ráðist á óvarðan hægri helming minn. Ímyndunarveikin nær greinilega hæstu hæðum hjá mér á svona myndum.

Já, mörg hryllingsmyndin hefur valdið usla í heilahveli mér í gegnum tíðina. En það er eitthvað sem togar í mann og veldur löngun til að horfa á þennan ófögnuð. Það er einkar óskiljanlegt því mér líður alltaf óendanlega illa á svona myndum og í svona 7 klukkutíma eftir þær.