sunnudagur, mars 28, 2004

Eitt helsta áhugamál mitt, utan þess að læra auðvitað, er að litast um á fasteignamarkaðnum. Spranga ég iðulega um heimili fólks og dáist ýmist að eða fussa og sveia. Nokkuð skoplegt getur verið að skoða íbúðir pilta og manna því þeir hafa oft á tíðum sinnt sínu nánasta umhverfi líkt og sorphaug. Myndi maður nú ekki færa útbremsuðu nærbuxurnar úr sjónmáli ef fasteignamaðurinn væri að koma við? Mmm. Svo eru það auðvitað þeir sem hafa ekki sama smekk og ég og mála allt skærgult eða innanpíkubleikt og veggfóðra svo í stíl. Iðulega á þetta smekkmisjafna fólk líka furðuleg húsgögn í stíl við veggi sína og reynir þá oft að brydda upp á nýjungum á borð við MC Hammerbuxna bólstraða sófa og sturtuhengi frá Satan og Co. Maður fær varla séð dýrðina sem væri hægt að skapa með nokkrum handtökum út í ruslagám já eða jafnvel málningarslettu á vegg eða tvo.
Svo eru auðvitað til íbúðir sem eru bara búnar til án hugsunar. "Já, brjótum þennan vegg og þá fáum við svona eldhús/klósett/svefnherbergi - Úúúújeee." Á þeim nótum þá verð ég nú bara að minnast massamannsins sem að átti heima á Bollagötunni á undan Rut og Stebba. Sá var einmitt innanhússarkitekt að mennt (árgangur '84 úr skóla andsetinna) og hann málaði eins og sjúkur væri í ælugulum og kóngabláum en hann var greinilega með stóra hnúa því hann gat alls ekki málað á bak við ofna. Ef ég get hjálpað einhverjum sem á við svona innanhússveiki að stríða endilega hringið þá í mig piltar...

fimmtudagur, mars 25, 2004

Mongó kýlir Jón


Þeir sem lásu strætósögurnar mínar gerðu sér vonandi grein fyrir því að ég var lagður í einelti af andlega vanheilum krökkum á þeim tíma. Þetta var erfiður tími og skildi eftir sig hyldýpi í heila mér. Þetta var hins vegar ekki eina skiptið sem ég hef orðið fyrir barðinu á slíkum kónum.

Sagan hefst á blíðviðrisdegi í Reykjavík er við Snorri spígsporuðum út úr MR á leið á Nonnabita. Hvergi var ský að sjá og geislaði af okkur fýrunum gleðin enda sumar á næsta leiti. Við leiddumst niður tröppurnar, valhoppandi eins og í dömubindaauglýsingu, og sungum saman um lóuna sem var komin að kveða burt snjóinn. Um huga okkar reikuðu ekkert nema bjartsýnis- og gleðihugsanir, enda ekki annað mögulegt því handan hornsins beið okkar sex vikna stúdentsprófatörn.

Við gengum eftir Lækjargötunni og önduðum að okkur ferskum bakarísilminum frá Breiðholtsbakaríi. Allar hreyfingar samborgara okkar virtust í slow motion og allir undu glaðir við sitt. Í fjarska sáum við tvennd fólks ganga á móti okkur. Annar hluti tvenndarinnar var augljóslega fullorðin manneskja en hinn hlutinn var öllu smávaxnari og lét ófriðlega. Er bilið milli okkar minnkaði sáum við að tvenndin var miðaldra kona og mongólíti sem virtist vera í afar slæmu skapi.

Þegar við Snorri mættum tvenndinni var ég búinn að ákveða að bjóða góðan daginn og reyna að hressa upp á skapstirða mongólítann. Eitthvað virðast hýrubollar mínir hafa farið í taugarnar á mongólítanum því í sömu andrá og ég ætlaði að bjóða góðan daginn kýldi hann mig þéttingsfast í magann. Varð ég óhemjuhvumsa og skyndilega virtist sem dregið hefði fyrir sólu og góða veðrið væri farið. Hýrubollar á kinnum mér höfðu brotnað og gleðin skein ekki lengur úr andliti mínu. Hún skein hins vegar úr andliti Snorra sem hló sig máttlausan meðan ég reyndi að ná andanum. Eins og netfang mitt gefur í skyn hef ég þéttan múr af magavöðvum í neðri kvið og kvartaði því ekki undan eymslum í maga þrátt fyrir bylmingshögg.

Eftir stutta stund hurfu skýin og góða veðrið var komið aftur. Okkur Snorra fannst þetta gríðarlega fyndið og hlógum við dátt það sem eftir lifði dags. Ég hef hins vegar velt því töluvert fyrir mér síðan hvort þetta hafi verið skipulagt einelti af hálfu mongólítans og Öskjuhlíðarskólakrakkanna. Hætturnar leynast nefnilega alls staðar og hvergi er maður óhultur. Einelti er á öllum stigum þjóðfélagsins, það er ljóst.

mánudagur, mars 15, 2004

Frábært alveg þegar maður upplifir svona kreisí útgjaldamánuði. Sérstaklega þegar þeir læðast að manni eins og dauðinn að grunlausri mauraætu. Hviss bang og Háskólinn ákveður að rukka nemendur sína í mars um skráningargjöld og enginn sjéns gefinn. Ég er nú bara þannig úr garði gerð að ég er ekki alltaf að skoða hvað kellurnar í nemendaskrá eru að bauka til þess að takmarka nemendafjölda. Annars skil ég alveg vandann sem steðjar að þarna í þessari hábölvuðu menntastofnun en er samt alveg viðbjóðslega pirruð út í rektor og hans vini.
Get samt ekki ákveðið hvort ég vilji fara í Kennaraháskólann núna því ég gæti bara endað á fokking götunni ef ég gerði það. Já eða þá að ég myndi bara borga rektor extra 30.000.- kall svona fyrir að hafa breytt þessu ef ég skyldi svo komast inn. Gott að lenda í svona smá framtíðardilemmu rétt áður en prófin skella á.
Helvíti fínt samt veðrið.
Alveg brjál.

mánudagur, mars 01, 2004

Svona líka hress eftir að hafa tórað yfir auglýsingum og Óskari í gærkveld. Alveg sátt með hverjir fengu verðlaun fyrir sitt og sína þannig séð. Finnst samt skítt hvað það eru fáar "erlendar" myndir sem drífa inn á borð "akademíunnar". Mér virðist sem kaninn haldi oft á tíðum að óenskar myndir séu eitthvað leiðinlegar og minna í þær varið en bölvaða hámenningarfroðuna sem flæðir frá Hollywood. Er handviss um að hvaða Bollywood mynd sem er gæti skákað og mátað Cold Mountain, sem er vafalaust epísk ræpa af verstu gerð.

Föstudagskveldið var alveg stórskemmtilegt hjá okkur spúsa þar sem vinkonur og nokkrir vinir heiðruðu okkur með nærveru sinni og drykkjulátum. Fórum í eftirminnilegan Scrabble drykkjuleik sem fór alveg úr böndunum þegar Jón Bravó fékk þriðja tvöfalda orðgildið sitt. Annars fundum við Jón grunsamlega margar eftirlegukindur sem við fórum svo með í Ikea, bara svona reisunnar vegna, og keyptum okkur skóhorn og púða. Það minnti mig barasta á Eyrarbakka og garðálfa en langt er síðan svona þynnkubras hefur verið iðkað. Held barasta að ég hafi ekki gert svona gott grín síðan ég sturtaði ullarsokkunum mínum niður um klósettið á Hótel Bræðraborg í Eyjum '98. Þá var ég átján ára vel að merkja. En gott að vita að ég er ekki að þroskast óeðilega hratt.