þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Langar svo að kunna að setja inn myndir á þetta blogg. Ef það tækist þá myndi ég setja eina góða af Ara sem var heilagur Valentínus á Valentínusardaginn ooog eina sem við skötuhjúin teiknuðum af Herdísi.
Fjórar litlar strætósögur


Strætóar eru vettvangur fyrir kynstrin öll af ankannalegum atburðum. Ég hóf minn strætóferil 8 ára gamall er ég þurfti að skreppa á fótboltaæfingu í Laugardalnum. Ekki mátti miklu muna að ég endaði í öðrum bæjarhluta því ég vissi ekki að dingla þyrfti til að strætóbílstjórinn stoppaði á viðkomandi stoppustöðvum. Sem betur fer voru fleiri í erindagjörðum í Laugardalnum og ég smeygði mér út er strætóinn stoppaði þar. Ég hef marga fjöruna sopið í strætó og séð margt jafnt sem misjafnt eiga sér stað þar. Ég var meira að segja um tíma lagður í skipulagt einelti af óprúttnum aðilum á menntaskólaárum mínum.

Þannig er mál með vexti að ég bjó í Gerðunum í byrjun MR og tók leið nr. 6 á morgnana í skólann. Ég fékk mér yfirleitt sæti aftast í vagninum til að hafa yfirsýn yfir það sem færi fram í vagninum. Á Bústaðavegi kom iðulega hópur ungmenna á leið í Öskjuhlíðaskóla í strætóinn og hertók plássið fyrir framan mig. Voru jafnan mikil skrílslæti í gengi þessu og stafaði mér svakamikil ógn af ribböldunum. Á tíðum áttu vissir aðilar hópsins það til að ögra og gera aðsúg að samferðafólki sínu, ósköp venjulegu og saklausu fólki sem átti sér einskis ills von er það steig fæti í strætóinn. Eitt skiptið varð ég fyrir miklu aðkasti frá litlu hálfspössunum og var innikróaður í horni strætósins meðan þeir gerðu aðsúg að mér. Skrílslætin vor slík að ekki heyrðust neyðaróp mín, en sem betur fer var stutt í Öskjuhlíðarskóla og skúrkarnir þurfti fljótt frá að hverfa. Er þeir stigu út úr vagninum litu þeir í átt til mín og hlógu og skríktu sem kólibrífuglar. Ég var felmtri sleginn eftir þessa viðureign og tók mér frí í fyrsta tíma til að jafna mig. Þessi ferð er aðeins einn svartur blettur á löngum og farsælum strætóferli mínum.

Kómískir hlutir hafa einnig hent mig í strætó. Einhverju sinni í sjötta bekk í MR voru ég og Snorri á leið heim í strætó. Við vorum klyfjaðir töskum enda leikfimi í skólanum þennan dag. Með ógnarþungar töskurnar á herðunum og græna kortið í munninum héldum við inn í strætóinn. Eitthvað var þröngt á þingi aftast svo við ákváðum að sitja framarlega. Ég bakkaði því með mitt hafurtask inn í sætaholl þar sem tvö og tvö sæti voru gagnstæð og nóg pláss fyrir allan farangurinn. Snorri settist niður á undan mér og ég bakkaði í sætið gegnt honum. Er ég ætlaði að setjast fann ég eitthvað mjúkt undir mér og heyrði eitthvert óskilgreint búkhljóð. Þá sá ég að ég hefði sest á snót eina sem gat sig hvergi hrært og búkhljóðið var tilraun til neyðaróps enda gat hún ekki andað innan um tylft taskna. Þegar ég uppgötvaði hvað hafði gerst sprakk ég úr hlátri ásamt Snorra og öllum farþegunum sem horfðu á viðburðinn í beinni útsendingu. Við stóðum í miðjum vagninum alla heimleiðina og grétum stöðugt hláturstárum. Einni manneskju í strætónum var ekki skemmt og það var greyið pían sem starði út um gluggann og virtist fara einkar mikið hjá sér.

En strætóar geta verið lífshættulegir eins og margur veit. Í fyrndinni fóru ég og Halldór ósjaldan í bæinn til að skoða mannlífið og kaupa nammi. Eitt skiptið kom ævaforn kerla inn í strætóinn og settist í sæti fyrir einn, fremst í vagninum. Kerla þessi var íturvaxin mjög og bústnar rasskinnar hennar löfðu niður á gólf. Mátti hún því hafa sig alla við að halda sér í sætinu enda virtist sem strætóbílstjórinn væri skyldur Jóni Ragnarssyni rallíkappa, slíkur var hraðinn. Eftir að hafa nærri oltið þrisvar í óhemjukröppum beygjum vorum við Halldór farnir að óttast um heilsu okkar. Framundan var ein 90° beygja og við héldum grettistaki í sætið fyrir framan okkur. Rallíbílstjórinn gaf í við byrjun beygjunnar og hlussukerlan skaust út úr sætinu sem eldflaug og fleytti níu kerlingar á grútskítugu gólfinu. Brá öllum farþegunum í brún og hópuðust að til að lyfta kerlunni upp. Ég og Halldór hins vegar lágum í hláturskrampa.

Ég og Halldór áttum það nefnilega til á okkar yngri árum að þykja hinir undarlegustu hlutir ofur fyndnir og urðum okkur stundum til skammar sökum þess. Í einni strætóferð þegar við vorum líklega á níunda ári sátum við fyrir aftan eldgamalt par. Konan var í hæsta máta furðuleg í útliti, með teinótt augu og risastórt nornanef. Mér og Halldóri fannst þessi kona óskaplega fyndin og grétum af hlátri. Slík voru hlátrasköllin að fólk var farið að líta okkur hornauga og hvæsa. Þegar nornaparið fór út úr strætónum stóð Halldór upp í sætinu sínu, leit út um gluggann og sagði hátt og dátt: „Þarna fer nornin!“, svo bergmálaði um allan strætóinn. Vakti þetta mikla hneykslun meðal annarra farþega sem fussuðu og sveiuðu. Ég skammast mín enn í dag fyrir þetta, enda á maður ekki að hlæja svona að öðru fólki.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum og ávallt gerast skemmtilegir hlutir í strætó.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Einhvern tímann skrifaði ég pistil um tölur og hve fólk væri gjarnt á að þýða tölur rangt úr ensku. Þannig þýðir enska orðið billion milljarður (109) á íslensku, en íslenska orðið billjón (1012) er samsvarandi orð fyrir enska orðið trillion. Í raun eru tvö talnakerfi í gangi. Annars vegar er það bandaríska kerfið og hins vegar evrópska kerfið. Í báðum kerfunum er stórum tölum gefin nöfn eftir latneskum heitum á tölum, n, að viðbættri endingunni (i)lljón. T.d. er billjón myndað úr latneska forskeytinu bi (n=2) og trilljón úr forskeytinu tri (n=3).

Munurinn á kerfunum er sá að í bandaríska kerfinu á nafnið sem dregið er af latnesku tölunni, n, við töluna 103n+3, en í evrópska kerfinu á það við töluna 106n. Þess vegna merkir trilljón 1012 í bandaríska kerfinu, en 1018 í því evrópska. Í evrópska kerfinu á þá hvert latneskt forskeyti við tvær tölur, þ.e. tölur sem enda á (i)lljón og (i)lljarður. Talan sem endar á (i)lljarður er ávallt 1000 sinnum stærri en tala sem endar á (i)lljón, t.d. er billjón 1012 og billjarður 1015. Hæsta talan í þessu kerfi, sentilljón (n=100), jafngildir því 10303 í bandaríska kerfinu en 10600 í því evrópska.

Ég rakst á grein á mbl.is í gær þar sem fjallað var um ofurtölvu sem IBM smíðaði. Í fréttinni stóð að notendur ofurtölvunnar hefðu aðgang að 60 terabætum sem jafngiltu 60 trilljón bætum. Þetta er bandvitlaust því forskeytið tera jafngildir 1012 og því jafngildir eitt terabæti billjón bætum. Hér hefur greinilega verið þýtt úr erlendri frétt því 1012 er jú trillion á ensku en aftur á móti er íslenska trilljónin 1018. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fréttamiðlar rugla þessu saman. Skamm skamm mbl.is.

sunnudagur, febrúar 08, 2004

Þeir sem sáu Super Bowl-leikinn tóku væntanlega eftir „hneykslunaratriðinu“ hjá Janet Jackson. Að hún skuli hafa berað hægra júgur sitt er ekkert minna en hneisa. Þessi beri líkamshluti fór svo fyrir brjóstið á sumum Könum að blygðunarkennd þeirra er horfin. Eitthvert Kanakvendi hyggst fara í mál við Janet greyið og mun þar væntanlega krefjast 50 milljón dollara í skaðabætur fyrir þessa óhugnaðarsýn. Í kjölfarið hafa stjórnendur Grammy-verðlaunahátíðarinnar ákveðið að hafa 5 sekúndna töf á útsendingunni frá hátíðinni til að geta komið í veg fyrir jafnsiðlausar og -móðgandi uppákomur og brjóstasýning Janet var. Ég er sammála Botnleðju með það að fólk sé fífl.

Hvernig getur eitt lítið og lafandi júgur valdið slíkum viðbrögðum? Milljónir manna voru djúpt sokknar í aðdáunargláp á tugum durgmenna sem reyndu að fótbrjóta hver annan og finnst það allt í lagi. Svo birtist geirvarta á skjánum og allir ærast. Er þetta eðlilegt? Nei. Er fólk fífl? Já. Ætlar hið málshöfðandi Kanakvendi líka að kæra kynsystur sínar sem bera sig í sturtu fyrir og eftir morgunsundið? Hvað með alla listamennina sem kúka í krukkur og sýna alþjóð? Eða ljósmyndarana sem mynda nakta líkama?

Tók enginn eftir strípalingnum sem hljóp nokkra hringi kringum völlinn og sýndi á sér hreðjarnar? Ætlar enginn að kæra hann? Janet greyið fær ekki að veita verðlaun á Grammy-hátíðinni eftir allt fjaðrafokið. Hvert stefnir þetta ef maður má ekki sýna á sér líkamshluta án þess að eiga á hættu að verða kærður? Ég þori að veðja að kærukvendið er stolt móðir hermanns á villigötum í Írak og gengur jafnframt með byssu í veskinu í Texas. En það er víst allt í lagi.