föstudagur, janúar 30, 2004

Ég hef komið til nokkurra landa og má sjá þau lönd sem ég hef heimsótt lituð rauð á kortinu hér að neðan. Geysimargar smáeyjar hafa einnig litast rauðar og er það ekki vegna þess að ég hef dvalið þar heldur eru það eyjar sem tilheyra löndum sem ég hef komið til (Frakklandi og Bretlandi). Það væri þó ekki leiðinlegt ef ég hefði dvalið næturlangt á ekki ómerkari stöðum en Nárú, sem er svipað að stærð og þrettán Viðeyjar, eða Kíríbatí (á að vísu að segja Kíríbass en það er ekki flott) sem lét færa daglínuna (sem klauf eyjarnar í tvennt) nokkur hundruð kílómetra austur til að njóta sólarupprásar nýrrar aldar fyrst allra landa. Nárú og Kíríbatí eru að vísu sjálfstæð ríki en samt gaman að kíkja þangað við tækifæri.

Áfangastaðir mínir hafa einkum verið í Evrópu og vonandi breytist það í bráð. Kannski verða nokkur lönd í Afríku eða Asíu rauðlituð þegar næsta ferðakort mitt kemur út, hver veit? Það væru engin örlög að koma við í Senegal og þefa uppi töfrahálsfestina sem kumpánarnir Svalur og Valur leituðu ákaft af í bókinni Töfrafestinni frá Senegal. Ég hefði heldur ekkert á móti því að fara í svefnpokaferðalag til Madagaskar og heilsa upp á indrann, hið undarlega dýr, sem veinar og gólar næturlangt við rætur eldfjalla á eyjunni. Mun indrinn háværi vera óvinur annarra dýra þar. Svo segja allavega gárungar sunnan Miðjarðahafs. Ekki má heldur gleyma ókapanum ankannalega sem að sögn kóna og kvenda er einhvers konar samblanda af sebrahesti og gíraffa. Það er sko ekki leiðum að líkjast. Ókapinn heldur til í frumskógum Vestur-Afríku og er meðal annars að finna í dýragarðinum í London. Þangað vil ég skunda til að berja goðsögnina augum, en þó vildi ég heldur gista á hans heimavelli í Gana eða Búrkína Fasó eða hvar hann heldur sig nú.create your own visited country map
or write about it on the open travel guide

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Þeir sem vita sínu viti í mínu lífi vita að ég á aldrei að mæta fyrr en klukkan 13:15 eða jafnvel 15:15 í skólann. Þetta letilíf enskuskorar er eitthvað sem ég lét, hérna áður fyrr, fara í mínar taugar en hef ég nú aðlagast sem mandla í graut að þess háttar mætingarprógrammi. Ég vakna iðulega (ekki ætíð) svona kortér yfir sjö og toga í augabrúnir Jóns þar til augu hans opnast eða högg lendir á hálsi mínum. En um klukkutíma síðar eru allir farnir til vinnu og skóla nema ég og Katsí og þá eru góð ráð dýr.
Reynt hef ég að stytta mér stundir milli lærdóms (?) við ýmislegt á borð við yogaástundun, grenj yfir Oprah og að sjálfsögðu að glápa á örþáttinn (15 mín.) The Bold and the beautiful. Sá síðastnefndi og reyndar miðjunefndi líka eru hreinasta afbragð og tilhugsunin ein um að horfa á dýrðina lætur mig hoppa fram úr rúmi mér. Oprah er náttlega bara snilli og frábær og mér finnst eiginlega eins og ég hafi eignast góðan vin í henni, já seisei jájá. Grátið höfum við Oprah og hlegið saman í gegnum síðustu ár. En nóg um það og meira um Bold því að nýjustu fréttir úr Boldinu herma að Stephanie liggi milli heims og helju (eða kameru og leikmyndar) eftir að hafa fengið heilablóðfall. Ég held nú samt að það hafi í raun og veru verið Brooke og Thorne að kenna að svo fór því að þau voru, öllum til mikillar óhamingju, farin að skjóta sér saman í skjóli myrkurs. Aumingja Macy var einmitt farin að halda að hún og Thorne væru að fara að ná saman á ný... En nei - alltaf er Brooke tilbúin að hlaupa í skarðið þegar kemur að Forresterfeðgum því að nú hefur hún náð nýjum lægðum í þeim efnum með því að tæla til sín Thorne sem er sá eini af þeim feðgum sem ekki á barn með henni. Ég held að það hafi bara reynst Stephanie of erfitt að sjá á eftir Thorne sínum til Brooke og þess vegna hafi hún fengið heilablóðfallið.
Meira um Bold seinna - verð aðeins að prófa Maríó 3 aðeins betur...

sunnudagur, janúar 11, 2004

Bloggandinn kemur einungis yfir mig einu sinni til tvisvar í mánuði. Seinasta blogg var í ýli, rétt fyrir jól, og því kominn tími á færslu. það er einnig tímabært að vekja Sælgætishornið til lífsins. Ég er búinn að liggja undir feldi í eina eykt til að hugsa vöru til að gagnrýna. Ég er vandur á mat og því ekki um auðugan garð að gresja. Ég hef hins vegar ákveðið að taka fyrir Jónas R. sem stjórnar Viltu vinna milljón. Eins og flestir vita er Jónas ekki matvæli, en sumum kynni að finnast hann hnossgæti og á ég þá einkum við mannætur í Melanesíu. Með þessu vali er ég að breyta varanlega ásýnd og ímynd Sælgætishornsins og einblíni þar með ekki einungis á matvæli í gagnrýni minni.

Að öðru í bili. Við Auður fórum til Löfu og Rúnka í gær ásamt Stut og Rebba og Kristínu og Guðjóni. Undum við glöð við okkar yfir kornöli og Séð og heyrt-spilinu sem reynir talsvert á sorpminnið. Ég gat svarað sjöundu hverri spurningu sökum þess að ég dett inn í um það bil sjöunda hvert blað og les upp til agna. Eftir miðnætti settist á öxl mér óminnishegri og verpti eggjum í handarkrikann á hægri hönd. Ég þurfti að beita góðu ráði til að létta augnlokin fyrir bæjarförina og hóf að ganga í hringi kringum tröppurnar fyrir utan íbúð þeirra Ólafar og Rúnars. Virkar þetta ávallt sem skyldi og vekur hjá manni þrótt til þess að vaka. Ekki leið á löngu þangað til hinir þrír piltarnir gengu á eftir mér í einni halarófu. Tókum við þónokkra hringi saman. Þetta hafði tilætluð áhrif og ég vaknaði fyrir gönguna miklu. Úti var hált og ég hafði mig allan við að tipla með ímyndaða mannbrodda á svellinu. Broddarnir brugðust og ég tók þrefalda skrúfu áður en ég lenti með víðfeðmt bakið á hraunsvellinu. Ekki batnaði það er ég fékk hálfan lítra af bjór inn í vinstra eyrað í þann mund er ég lenti. Ég veit ekki hvaðan sá bjór kom, en hann olli allavega hugsanatruflunum það sem eftir lifði nætur.

Svo er ,,gaman" að segja frá því að ég myrti Snorra köldu blóði í draumi fyrri nætur. Áður en þið stimplið mig sem einhvern bíræfinn morðingja skulið þið hafa það hugfast að ég drap hann í sjálfsvörn. Snorri var nefnilega vondur í þessum draumi og í teymi með öðrum skúrki reyndi hann að drepa mig og ræna einhvern óskilgreindan skúr uppi á heiði. Mér tókst hins vegar með lævísi minni og snerpu að sleppa úr klóm þeirra, hnupla vélbyssu sem lá á glámbekk og flýja upp í hæðirnar að handan. Samskúrkur Snorra var maður um hálffimmtugt sem líktist Sean Bean í háttum og atferli. Í raun var þetta enginn annar en Sean Bean og sýndist mér hann hafa tekið með sér í drauminn minn samblöndu af illmennskupersónunum úr myndunum Patriot Games og Goldeneye. Hann reyndi að skjóta mig oft á flótta mínum, en sökum granns vaxtarlags míns slapp ég með skrekkinn. Er ég var kominn í var uppi í hvítri hlíðinni sá ég Snorra birtast skyndilega með ófrýnissvip og skotvopn. Með hraða tígursins þreif ég vélbyssuna undan þjóhnöppum mínum og skaut Snorra í bringspalirnar. Hann féll slefandi til jarðar og rann niður hlíðina á bakinu. Ekki fögur frásögn en engu að síður dagsönn. Fyrirgefðu Snorri.

Sælgætishornið


Vara: Jónas R. Jónsson spyrill Viltu vinna milljón.
Þyngd: Um 80 kg.
Lýsing: Óhemjuleiðinlegur miðaldra maður.
Kostir: Birtist á skjánum bara einu sinni í viku.
Ókostir: Leiðinlegur, ófyndinn og kann ekki að mynda spennu.
Aukaverkanir: Ógleði, þunglyndi og svefnleysi.
Einkunn: 1 Namm.