laugardagur, desember 13, 2003

Frekar af dólgum: Ris og fall bíódólgsins


Allir hafa reynslu af einhverri gerð dólga. Ég reit í seinasta pistli frá reynslu okkar Auðar af bíræfnum flugdólgum en flugdólgar eru ekki einir dólga um að hafa ruðst inn í líf mitt. Ég hef lent í bídólgum nokkrum um ævina og er einn þeirra minnisstæðastur.

Vindum okkur til ársins 1998. Ég ákvað að skella mér í Laugarásbíó á myndina Wild Things sem skartar meðal annarra hinni síbrosandi barbídúkku Denise Richards, grátþáttakvendinu Neve Campbell og Fótaleysisdansaranum Kevin Fleski. Ég man ekki hver var fylgdarsveinn minn í þessari bíóför en við höfðum allavega gert okkur vonir um skemmtilegan tíma. Er ljósin slökknuðu og myndin byrjaði fann ég að ekki var allt með felldu í áhorfendamergðinni því er leikkonurnar birtust á skjánum heyrðist hávært og skrækróma óp sem barst ofarlega frá í salnum. Varð mér fljótt ljóst að hér væri á ferðinni einn hinna alræmdu bíódólga og andvarpaði ég því duglega í vonleysiskasti.

Í hvert skipti sem Neve Campbell eða Denise Richards sáust heyrðist ískra í bíódólgnum: „Daaaaammmnn, babies!“ svo að glumdi í eyrum bíógesta. Þótti skaranum þetta einkar fyndið í fyrstu og hló dátt að garginu í dólgnum. Var sem dólgurinn tvíefldist við þennan óvænta stuðning og setti í fluggírinn. Hóf dólgurinn sig til flugs og gubbaði út úr sér hverju skerandi ískrinu á fætur öðru þegar hnáturnar birtust á skjánum. Fór fólki brátt að leiðast þófið og rétt fyrir hlé voru allir hættir að hlæja að þessum hvimleiða pilti.

Í hléi tókst mér að bera kennsl á viðkomandi pörupilt og sá ég umsvifalaust að hann átti ættir sínar að rekja til hnakkmenna frá Selfossbæ. Var kauði klæddur í hlýrabol, vesti, háleista úr silki og einhverjar tískubuxur úr Mótor. Göngulag hans minnti á upprennandi vaxtarræktarmann og var hann glaður og reifur í bragði eins og dólgum sæmir. Sá ég nú fram á ofsaleiðinlegan seinni helming bíómyndarinnar. Ég vonaðist til að hnakkmennið myndi ganga fyrir ætternisstapa í hléi en þvert á móti óx honum ásmegin og þjóraði hann 3 Magic til að hafa orku í öll ópin.

Þegar myndin hófsta á ný fór kauði að láta á sér kræla og rauf hljóðmúrinn átta sinnum með óhljóðum næstu mínúturnar. Voru hinir ýmsu ýtar farnir að ókyrrast og sumir brugðu á það ráð að skipa dólgnum að þegja. Féllu þessi mótsvör ýta í grýttan jarðveg hjá dólgnum sem hækkaði róminn í staðinn. En er næstu hróp dólgsins fóru að bergmála í tóminu var honum ekki skemmt lengur. Smátt og smátt dóu skerandi öskrin út og búið var að ráða að niðurlögum dólgsins. Svo virðist sem alger þögn hinna siðmenntuðu bíógesta hafi haft meiðandi áhrif á dólginn. Eftir myndina gekk dólgurinn álappalegur og skömmustulegur út og var hann greinilega bugaður eftir að hafa beðið mikinn ósigur á heimavelli.

Það sem ég lærði af þessari bíóför er að dólgum vex ásmegin við uppklapp áhorfenda og telja þeir sig þá hróka alls fagnaðar. Hins vegar er besta leiðin til að fella þessar óvættir að sitja þegjandi og láta leiðindin sem vind um eyru þjóta. Það tókst hjá mínum áhorfendaskara en þó munaði ekki miklu að það hefði verið allt of seint. Ég vona að þið lærið að bregðast rétt við í erfiðum aðstæðum eftir að hafa lesið þessa frásögn.

miðvikudagur, desember 10, 2003

Dublin og dólgar


Þá erum við komin heim frá Dublin. Radioheadtónleikarnir voru vægast sagt óendanlega góðir. Thom Yorke var í ofurstuði og dansaði mikið, svo mikið að Heiðar Ástvaldsson hefði verið stoltur. Hér má sjá lagalistann og umfjöllun um tónleikana.

Annars er Dublin hin fínasta borg en miðborgin þó kaffærð í mengun. Það tók á að venjast vinstri umferð og litum við yfirleitt í öfuga átt þegar við gengum yfir götur. Dublinbúar eru langt á undan Frónbúum í jólaundirbúningi og sá maður inn í margar íbúðir þar sem búið var að setja upp jólatré. Í vélinni á leiðinni heim fengum við aldraðan flugdólg í kaupbæti. Sat fyrir aftan okkur eiturhress fýr á níræðisaldri með tylft lítilla brennivínsflaskna í handarkrikanum og baulaði út úr sér hverri vitleysunni á fætur annarri. Reifst hann og skammaðist í gestum og gangandi og lagði sessunauta sína í einelti.

Merkilegir þessir flugdólgar. Umræddur ellidólgur var þó skömminni skárri en flugbullan sem fylgdi okkur til Búdapest í fyrra. Bulla sú var hálffertugur gumi sem var beljaki mikill, nauðasköllóttur og rjóður í kinnum sem útsprungin rós. Hafði kauði teygað heilu gallonin af dýrindismiði í flugstöðinni og sat í miðju vélarinnar æpandi og veinandi alla leiðina. Okkur Auði stóð verulegur stuggur af drykkjunauti þessu og óttuðumst við um líf okkar á tímabili. Í miðju flugi hóf maðurinn upp raust sína og söng rámri, hásri og einkar ljótri röddu hina ýmsu ættjarðarsöngva. Féll þessi ómóþýði söngur raftsins í grýttan jarðveg flugvélargesta, en í skaranum átti hann þó sér nokkra fylgismenn sem kímdu og undu glaðir við sitt.

Er flugvélin lenti heilu og höldnu í Búdapest ákváðu drykkjunautið og hyski hans að klappa allduglega fyrir áhöfninni. Glumdu klappskellir um vélina svo mann verkjaði í eyrun. Drykkjuhyskið fylkti liði að hótelrútunni okkar með dólginn í broddi fylkingar og sáum við Auður fyrir síður en svo skemmtilega rútuferð að hótelinu. Áður en bolinn náði að stíga inn í rútuna tók áfengið að segja til sín og limpaðist hann niður og valt undir rútuna. Vonuðumst við Auður að enginn tæki eftir þessu og bílstjórinn myndi spóla allhressilega á mjóbakinu á honum. Ósk okkar rættist ekki í þetta skiptið.

Við sátum uppi með þessi dusilmenni og leiðindaskjátur í þrjár nætur á hótelinu. Mér skilst að þetta pakk hafi verið starfsmenn Café Óperu í skemmtireisu. Ég og Auður munum aldrei skunda á þann stað.