fimmtudagur, nóvember 20, 2003

Mikið elskaði ég þessa þætti þegar ég var smápæja... tími kominn á smá upprifjun...

Pizzazz
You are Pizzazz


Which Misfit are you? (from the Jem Cartoon series)
brought to you by Quizilla

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Dagur ógeðisins


Enginn hefur gott af ævarandi hollustu. Ég og Snorri komumst að því í MR og eftir óhemjufjölda af frímínútum þar sem við nærðum okkar þunna hold á rótargrænmeti og mysu, ákváðum við að gera okkur glaðan dag. Við ákváðum að efna til árlegrar átveislu til að mynda mótvægi við allhressilegt næpuát vort. Í sameiningu nefndum við þessa veislu/hátíð dag ógeðisins og síðar kom í ljós að það var nafn með einkar mikilli rentu.

Minni mitt svíkur mig er ég reyni að rifja upp nákvæma dagsetningu á hinum fyrsta árlega degi ógeðisins, en líklega hefur hann verið í 6. bekk í MR. Víkjum nú sögunni að framvindu mála þennan merka dag. Við Snorri héldum í skólann argir og reiðir út í Röggu fyrir að gefa okkur ekki frí þennan merka dag og mættum einungis skilningsleysi hjá skólayfirvöldum. Í bræði okkar sátum við í skólanum og ornuðum okkur við kolaofninn aftast í G-stofunni meðan hugsanir okkar leituðu út fyrir stofuna og í átt að Mekka skyndibitaiðnaðarins, Skeifunni. Mikilvægur siður á degi ógeðisins er fastan frá morgni til upphafs hátíðar klukkan 18:00. Ærðum við óstöðugan það sem eftir var dags með garnagauli í c-dúr og þurftum að horfa upp á bekkjarfélaga okkar snæða dýrindiskrásir við garnabakraddir okkar. Um leið og síðasti tíminn kláraðist spruttum við á fætur, orkulitlir og hraktir, og héldum beinustu leið til Mekka. Til að hámarka ógeðið var ákveðið að halda á KFC. Mikilvægur þáttur í degi ógeðisins er einmitt hámörkun ógeðs og því er nauðsynlegt að kaupa of mikinn mat.

Eftir miklar vangaveltur á leiðinni til Mekka ákváðum við að 10 kjúklingabitar, 4 lítrar af kóki og víðfeðmur frönskuskammtur væri hæfilegt magn. Er á hólminn var komið fóru taugarnar að segja til sín og áttuðum við okkur á því hversu illa það liti út fyrir okkur tvo að panta þvílíkt magn matar. Okkur til varnar lugum við að greyið afgreiðsluhnátunni og kváðum okkur útsendara heljarveislu. Báðum við um diska handa Siffa, Frolla, Dissa og Sprokka sem vel að merkja eru allt uppspunnar aukapersónur til að hylma yfir átveislu okkar. Sluppum við með skrekkinn á KFC og héldum beint í Hagkaup til að kaupa eftirmat og nasl. Fyrir valinu varð HARIBO-mix, snakkpoki og Kransæðaídýfa með 123% fituinnihaldi.

Héldum við nú heim í Grjótaselið og laumuðum veigunum meistaralega fram hjá tollinum niður í gamla kjallarfylgsnið mitt. Negldum við hurðina fasta og settum slagbrand fyrir dyrnar til að verjast árásum matvælaeftirlitsins. Ég þurfti að ná í aukaborð til að bera allar þessar kræsingar og hófst átan svo með mikilli áfergju. Ekki tókst okkur að klára allan matinn, en eftir 23 korter lágum við afvelta í sófanum og vældum sem stungnir grísir. Myrkva tók stuttu eftir át okkar og komumst við hvorki lönd né strönd. Í næturhúminu skreið þó Snorri út og keyrði heim fullur matar.

Daginn eftir vaknaði ég með ógeðisþynnku og hóf að ræsta minn innri mann hjá Salernu frænku. Öruggar heimildir frá Holræsaeftirlitinu segja Snorra hafa gert hið sama. Vorum við sammála um hve frábærlega þessi hátíð hefði tekist og hlökkuðum sérstaklega til næsta árs. Barst hróður þessa mikla hátíðardags víða og flaug fiskisagan mannanna millum. Valinkunnir matgæðingar sóttu skriflega um inngöngu og fór Halldór þar fremstur í flokki. Veittum við þó engum inngöngu og vorum ávíttir opinberlega fyrir vikið.

Árið leið og nýr ógeðisdagur rann upp. Ég ætla ekki að rekja gang hans, en læt forvitna um að geta í eyðurnar. Ég hvet hins vegar alla til að feta í fótspor okkar.

miðvikudagur, nóvember 05, 2003

Alveg er það dæmigert þegar maður leggur af stað í skólann um miðja nótt (09:21) með tóman en sprellikátan magann. Maður hugleiðir og hugleiðir en ekkert gerist því maginn ætlar að fá að segja nokkur vel valin orð í miðjum tíma hjá Peter Lingó. Brak brest og magatónleikar af bestu gerð vekja óumbeðna athygli samnemenda því þeir halda ábyggilega að minns hafi verið að freta - en svoleiðis gerir minn rass ei.
Nú vil ég gera fretinn ógurlega að ennþá meira umræðuefni hér í þessum loftmikla pistli, því fret er nú bara ansi merkilegur félagslegur atburður. Karlmenn mega prumpa og það allsvakalega ef marka má kynni mín af Viggóinum ógurlega en hjá honum líður varla sú tylft mínútna að hann hvæsi ekki norðan sex vindstigum úr snúðnum. Þekki ég meiraðsegja mann sem fer inn á skrifstofu annars til þess að deila kátínu yfir hávaða, lykt og jafnvel áferð fretsins með þessum góða vin. Já þetta tengir þá saman bræðraböndum, að freta og flissa, og koma þeir sem nýslegnir túskildingar úr slíkum vindgusupartíum.
Stelpur á hinn bóginn "prumpa ekki" - kúka ekki heldur ef eitthvað er að marka Botnleðjutextann góða en leyfum því nú að liggja á milli vatns og setu. Fretið er eitthvað sem stelpa leynir - - - og ef ske kynni að smá hvæs hrykki út þýðir það samviskubit og viðbjóð á uppátækjum eigin líkama. Maður hefur meiraðsegja heyrt svo gróf dæmi um fretskömmustu, að kærasta með mörg ár í reynslupokanum af sambandsstússi þorir ekki að prumpa fyrir framan manninn sinn.
Fyrir skömmu heyrði ég líka frá einum fræknum að hann vildi alls ekki vita af svona háttalagi hjá kvenfólki og að hann beinlínis ætlaðist til þess að kvendi í makaleik sparaði það fyrir sjálfa sig.
Ég held því nú bara fram að fólk í sambandi sé að missa af miklu fjöri og fáti við það að setja svona óraunhæfar kröfur á hvort annað. Eins og það getur nú verið fyndið að heyra lagstaut frá rassaboru.