þriðjudagur, október 28, 2003

JÓN SIGURÐUR heldur TÓNLEIKA á STÚDENTAKJALLARANUM ásamt hljómsveit,
MIÐVIKUDAGINN 29. OKT. og hefjast þeir KL.21:00. MIÐAVER ER 500 KR.

Dagskráin er tvískipt, fyrst verða leikin lög af plötunni NUEVOS CANTOS DE SIRENA
eða NÝJU SÖNGVAR SÍRENUNAR sem inniheldur lög Jóns Sigurðar við ljóð spænska
skáldsins CARLOS MARTINEZ AGUIRRE og ljóð LEÓN SALVATIERRA en hann er frá Nikaragva.


Í síðari hlutanum verða leikin lög Jóns við ljóð Jóns úr Vör og fleiri íslenskra
skálda.

Hljómsveitina skipa: Pétur Valgarð Pétursson á klassískan gítar, Birgir "Waller"
kontrabassaleikari, Cheick Bangoura, slagverksleikari og Kristín Helgadóttir sér um
bakraddir.

Jón minn - ég hélt við leyndum engu í okkar sambandi...?

laugardagur, október 25, 2003

Við hjúin kíktum rétt snöggvast í Hagkaup í Smáralindinni fyrr í dag. Þetta væri nú ekki saga til næsta bæjar ef Jón hefði ekki opinberað sinn innri kvenmann með jafn afgerandi hætti í áður ónefndri deild. Sagan byrjar semsagt á því að ég kem auga á afar áferðafagran disk í búsáhaldadeildinni. Leiði ég Jón í humátt að þessum diski en þegar þangað er komið þá fangar eitthvað allt annað athygli Jóns míns. Upp úr manninum hrekkur: "hey Auður, eigum við að fá okkur kryddhillu?". Jón stendur þarna og virðir fyrir sér hilluna góðu og leitar að verðmiðanum, á meðan mér detta allar dauðar lýs úr höfði. Áður en ég hef komið upp orði segir spúsi minn til ítrekunar hvað honum lítist nú vel á gripinn en hillan sé ef til vill aðeins of dýr fyrir okkur svona í bili. Úffalahúff segi ég nú bara en geri mér grein fyrir því fyrir hversu álitlegur og yndislegur fengur minn er. Vil þakka foreldrum hans fyrir vel unnið starf - húrra fyrir Önnu Kristínu og Þórarni Moore!!!

fimmtudagur, október 23, 2003

Ég tók próf áðan og ég á heima í myndinni Forest Gump - af öllum! Ég er nú barasta forbavset og hissa og allt.

CWINDOWSDesktopGump.JPG
Forrest Gump!


What movie Do you Belong in?(many different outcomes!)
brought to you by Quizilla

þriðjudagur, október 21, 2003

Ég sá í Fréttablaðinu áðan að til væru samtök sem kölluðu sig Félag íslenskra farfugla. Þetta finnst mér óhemjuskrýtið og óskapaundarlegt að litlir farfuglar skuli hópa sig saman og stofna svona félagsskap. Að sjálfsögðu er ekkert nema gott um það að segja og vil ég hrósa þessum framtakssinnuðu fuglum. Hvet ég nú önnur dýr til þess að gera slíkt hið sama. Gaman væri, í því samhengi, að sjá spörfugla, hræætur, hryggleysingja og jafnvel rotverur stofna slík réttindasamtök. Hvað hefur tafið þessar verur, hví er ekki fyrir löngu búið að stofna slík samtök? Svarið er einfalt: Hvert ætti árgjaldið að vera t.d. hjá rotverum? Og hvað fengju félagsrotverur í Félagi rotvera í staðinn? Því er ei auðsvarað, jafnvel ómögulegt að svara. Félagsfuglar í Félagi íslenskra farfugla borga t.d. 7 ánamaðka á hverju ári til félagsins, en eiga í staðinn möguleika á lággjaldaflugförum til heitu landanna á veturna. Góður díll þar.

Við mennirnir erum sífellt að stofna ný hagsmunasamtök sem berjast fyrir réttindum ákveðinna hópa fólks. Svona samtök eru nauðsynleg svo ekki séu brotin mannréttindi á fólki. Gildir það sama um dýrin. Hlakka ég mjög til framtíðarinnar er dýrin hafa fullklárað félagaskiptingu sína. Mun það án efa auðvelda vistina í frumskóginum fyrir vissar tegundir sem geta leitað til félagssamtaka ef réttindi þeirra verða fótum troðin af stærri og frekari tegundum.

Áfram með smérið dýr!

mánudagur, október 13, 2003

Öll þau 4 ár sem ég hef verið með bílpróf hafa ómenni af verstu sort leitað mig uppi og skrifað mér bréf. Rauður Skoda, Brynjólfsgötu, gegnt SAS hóteli, LY XXX, stöðubrot 2. Núna ætla þessi skítseiði, drulluháleistar og hortittar að rukka mig um 2500.- íslenskar krónur fyrir að hafa lagt, þar sem næstum hver einasti nemandi hefur lagt síðan byrjað var að leggja bílum, EVER. Ég er svooo reið að mér er skapi næst að sturta niður ullarsokk í klósettinu heima hjá þeim og hreinsa ennisholur þeirra með sýflisssýktum sandpappír.
Hér með heiti ég því að snúa vörn í sókn og fer að leggja lykkju á leið mína til þess að eyðileggja bæði daga og nætur þessa fólks. Veiðileyfið hefur verið gefið út og ég er byrjuð að safna hráka í krukku sem ég ætla að neyða ofaní afkastamesta sektara hvers mánaðar þangað til þeir hætta að sekta mig fyrir að leggja þar sem ég vil leggja. Aumingjar og aftur aumingjar - ég skal garndraga ykkur helvítin ykkar!!!
Stöðumælaverðir - varið ykkur.

laugardagur, október 11, 2003

Senn líður að vendipunkti í Íslandssögunni. Íslendingar fara á EM. Eða ekki; eða jú, því ekki það? Ég er ágætlega bjartsýnn fyrir leikinn, en sú bjartsýni hrapar inn að kjarna jarðar ef hinn fádæma vonlausi Rikki Daða byrjar inn á. Aldrei hef ég séð jafnvonlausan knattspyrnumann og hann svitna í bláu treyjunni. Hann kann hvorki að taka á móti boltanum né gefa hann frá sér. Rikki er höfðinu hærri en menn sem eru höfðinu hærri en aðrir menn, en er þrátt fyrir það slæmur skallamaður. Gleymum honum um stund. Ég tel alveg smámöguleika á jafntefli, jafnvel sigri á móti Þýðverjum, eða að Keltar tapi fyrir Litháum. Þetta segir maður í ofurbjartsýniskasti. En ef Ísland kemst á EM, þá fer ég til Portúgals ásamt örugglega 17499 öðrum Frónbúum.

Árangur okkar litla landsliðs verður að teljast í betra lagi í þessari undankeppni. Ég græt mig þó í svefn þriðja hvern dag yfir glötuðum stigum gegn lélegum Skotum. Undarlegast finnst mér þó að okkar landslið með, menn eins og Rikka Daða og Helga Sig innanborðs, geti unnið leik. Að mínu mati eru þetta slökustu leikmenn Íslandssögunnar og tel ég þá með Kristján ,,eldingu" Jónsson og Rannveigu Rist. Einnig græt ég að Veigar Páll skuli vera kominn í liðið. Er hann án efa leiðinlegasti knattspyrnumaður sinnar samtíðar og jafnvel fortíðar einnig; líklega framtíðar líka. Spígsporar laupur sá um knattspyrnugrundir sem önd með bringuna tólf metra fyrir framan sig.

Hef ég ei orku í að eyða meiri orku í lélega og leiðinlega knattspyrnumenn. Áfram Ísland.

miðvikudagur, október 08, 2003

Andrea Gylfa hringdi í mig áðan og spurði hvort ég vildi kaupa nótt hjá henni. Jón lokaði sig inná klósetti þangað til ég neitaði að þekkja hana og sagðist aldrei hafa talað við konuna.
Þar sagði ég ekki allskostar satt - því eitt sinn, þegar ég var 16 ára, var ég á balli í Inghól þar sem ég gaf henni stuðgleraugun mín. Fyrirgefðu Jón minn. Ég var búin að gleyma...
Getur einhver gefið mér góð ráð í að dulbúa lauk, sveppi og skötusel þannig að rétturinn líti út sem Önnugerð nautapiparsteik með glóðuðu korni... Ég veit bara að kærastinn minn myndi borða allt sem ég get eldað ef hann bara vissi ekki að það væri laukur eða eitthvað álíka framandi í því. Hann grét stanslaust í viku eitt sinn þegar ég matreiddi ofaní hann egg án þess að hann fattaði að það væri egg. Úff!

sunnudagur, október 05, 2003

Í hinum geysiskemmtilega þætti 60 Minutes í kvöld var fjallað um svokölluð regnmenni (e. rainmen). Regnmenni þessi eru yfirleitt afar mikið fötluð og ósjálfbjarga en búa yfir einhvers konar ofursnilligáfu á einhverju afmörkuðu sviði. Einn sjö vetra bandarískur regnfýr er blindur og talsvert fatlaður andlega, en er undrabarn í tónlist og getur spilað heilu sinfóníurnar á píanó með því að heyra þær einungis einu sinni. Í þættinum var einnig fjallað um regnpilt frá Englandi, eflaust um 25 ára, sem býr yfir sams konar undrahæfileikum á píanó. Sá kann óendanlega mikið af lögum og getur spilað allt, en nærist samt ekki nema að einhver segi honum að gera það.

Hver man ekki eftir myndinni Rainman þar sem Dustin Hoffman lék regnmann sem gat reiknað ótrúlegustu hluti í huganum? Í einum þætti af 60 Minutes var kíkt í heimsókn til regnmannsins sem umrædd mynd er byggð á. Var kauði látinn reikna eitthvert nítján talna margfeldi í huganum. Baunaði kauði svarinu út úr sér eftir 74 píkósekúndur. Þegar spyrillinn spurði hann hvernig hann hefði farið að þessu sagðist regnmaðurinn ekki hafa hugmynd. Útkoman birtist víst bara bak við ennið án nokkurrar skýringar. Mennsk reiknivél þar á ferð.

Á Íslandi býr einhver fjöldi regnmanna. Fremstur í flokki er eflaust Reynir Pétur sem er nokkurs konar samblanda af hinum upprunalega rainman og Forrest Gump. Hefur Reynir Pétur einkar gaman að göngutúrum í guðsgrænni náttúrunni og lagði eitt sumarið land undir fót. Gekk hann kringum landið og reiknaði í huganum á leiðinni. Virtist hann vera með vetnisfylltar varir því ekki hvarf af honum brosið á röltinu svo gaman hafði hann að þessu. Gárungar segja hann enn brosandi í dag.

Vísindamenn hafa sett fram ýmiss konar kenningar varðandi þessa snilligáfu. Sumir telja heilann bæta upp fötlun einstaklinganna á öðrum sviðum. Hvort það er satt skal ekki segja, en eitt er víst að þessi regnmenni eru gríðarskemmtileg og glæða tilveruna lífi.