mánudagur, september 29, 2003

Ég er nú bara nýskriðin úr General Linguistics tíma hjá Matt sem er annars bara svona helvíti skemmtilega skrýtinn maður. Annað er hægt að segja um suma þá sem sitja tímann með mér. Endalaus er flóra kvenmanna sem sjá ástæðu til þess að bókstaflega tjá sig um alla hluti milli ilja og ennis. Þær stúlkur/konur sem eru svona uppfullar af orðum, að þær vart leggja niður hönd í þær 90 mínútur sem við sitjum þarna, eru líka svona smart í tauinu. Svo ég minnist aðeins á eina málglaða sem virkar samt alveg þolanleg. Hún var hvorki meira né minna en í ofur ljótum jakka. Svona töffara leðurjakka með göddum og belti eða eitthvað, við þessar líka undursamlegu buxur sem voru svona innvítt v.s. arabía, öðruvísi get ég bara ekki lýst þessum ófögnuði.
Diva nr. 2 sleppur ekki alveg jafn vel og þessi fyrrnefnda því hún virkar ekki ágæt inn við beinið. Maður gersamlega grætur í ístaðinu þegar gaulið byrjar að myndast í málstöðvum hennar, skræk sem kanarífugl með stólpípu eða unglingspiltur í ofurmútum, lemur hún vit og vonir þangað til ekkert virðist eftir. Þau orð sem maður greinir í eyrnastríðinu öllu saman túlkast einungis sem dæmisögur úr hennar (og ég verð að draga þessa ályktun) LEIÐINLEGA lífi. Ef ég myndi gerast svo gróf að fetta fingur út í sófarúskinið sem ég held að hún haldi að sé hip blússa þá myndi ég þurfa að þvo þennan umrædda fingur með klór og vírbursta vikum saman.
Ef ég reyni enn að grafa upp ástæður þeirrar óstefnu sem á sér stað hjá afar mörgum fyrsta árs nemum enskudeildar í klæðaburði yrði mér sennilegast ekki kápan úr því klæðinu. Kannski bjuggu bara allir á deliverance-inbread-hillíbillí-krummaskuðum (USA) þar sem sjálfsþurftin var lífsbjörg. Sófinn varð að blússu, buxum og inniskóm. Snati fékk endurnýjun lífdaga sem fótskemill eða snagi. Tja hvað sem það er þá vona ég að þessum kvendum vaxi smekkur, eða ekki (bara gaman að hafa fjölbreytni), þær kannski haldi kájoð svona einstöku sinnum í tíma og að þær lesi aldrei nokkurntímann þennan hamfarapistil.
Sorrí Stína

miðvikudagur, september 24, 2003

Miðvikudagssleggjan!

Í dag verður fjallað um bókina Skordýraþjónustu Málfríðar eftir Sigrúnu Eldjárn.
Skordýraþjónusta Málfríðar er bók fyrir fólk á besta aldri eða milli tvítugs og tuttuguoghálfs og er þetta því ærin lesning fyrir aldraða konu eins og mig. Titillinn gefur í skyn að bókin fjalli á einhvern hátt um skordýr en hún gerir það alls ekki. Aðalpersónur bókarinnar eru allt í allt c.a. 170 talsins sem gerir lesanda mjög hægt um vik. Létt yfirsýn er gefin yfir líf þeirra sem spanna allt frá 78 árum og upp í 102. Þrátt fyrir þessar ítarlegu upplýsingar er bókin aðeins um 70 bls. og afar lítil og smá. Ykkur kann að finnast þetta pínu skrítið en þetta er allt mun sléttara og felldara en nokkurn fær grunað.
Málfríður eins og kemur fram í titlinum er dulnefni og margslungið er það nokk. Því Málfríður þýðir fríður í máli á forn íslensku og því er þetta í rauninni aðeins blekking sem afar erfitt er að sjá í gegn um. Gott er að hafa orðabók við höndina því Sigrún á það til að sletta svolítið í tyrknesku enda er hún fædd þar og uppalin.
Skordýraþjónusta Málfríðar er því hin prýðilegasta lesning en aðeins fyrir lengra komna og helst aðeins lengra en það. Frábær flétta og hraður og spennandi endir. Bravó! Bravissímó!

mánudagur, september 22, 2003

Væntanlegt á næstu dögum!!!

Á næstu dögum megið þið lesendur potsins eiga von á stórskemmtilegri nýjung frá mér sem ég vil kalla "Fyrirfram sleggjudómur". Aðal hlutverk Sleggjudómsins verður að dæma hina ýmsu hluti án þess að hafa nokkuð vit á þeim. Sem dæmi er hægt að nefna bíógagnrýni sem verður þá frá myndum sem ég hef ekki séð og mun jafnvel aldrei sjá. Annað frábært dæmi er Föstudagssleggjan þar sem ég dæma helgarnar fyrirfram - spennandi og hrífandi í senn ekki satt? Spennið beltin og pússið gleraugað því þið eigið ferð í vændum.

föstudagur, september 19, 2003

"Stjörnuspeki er svo smekklaus.

Það er raunar það eina sem ég hef á móti henni. Mér er alveg sama um allt hitt sem tengist henni: Að allt sé fyrirfram ákveðið, að persónuleiki manna sé óbreytanlegur, og svo framvegis (nei, mér er ekki alveg sama, en það er ekki aðalatriðið). Samkvæmt henni er allt fyrirfram ákveðið og frelsi manna er ekkert, eða í besta falli afar lítið og þeir sem tóku þátt í Helförinni á sínum tíma eru blásaklausir - þetta var allt í samræmi við stjörnurnar. Adolf Hitler, samkvæmt stjörnuspekinni, var ekkert vondur. Til að vera vondur verður maður að hafa frelsi til að velja og hafna, en samkvæmt bæði stjörnuspádómum (og spádómum Nostradamusar) hafa menn ekkert slíkt frelsi. Og að segja að verk nasista fyrr og síðar hafi ráðist af gangi stjarna og himintungla - og sá gangur lýtur lögmálum eðlisfræðinnar og er því óbreytanlegur, við getum séð í hvaða merki, og þá líka hvernig, einhver manneskja verður sem fæðist eftir 350 ár á Nuuk - er að leysa þá undan ábyrgð á eigin verkum. Vel að merkja, þetta losar líka fólk eins og Móður Teresu undan ábyrgð á sínum verkum, og hún getur þá ekki lengur talist vera góð. Tökum frjálsan vilja út úr jöfnunni - og allar athafnir manna verða hvorki góðar né illar.


En þetta er ekki smekkleysi stjörnuspekinnar. Þetta er ofureðlileg afleiðing, og stjörnuspekingar eru ekki þeir einu sem verða að gangast undir þetta. Fjöldi manna hefur haldið því fram í fúlustu alvöru að menn hafi ekki frjálsan vilja og jafnframt gengist undir þetta „af fúsum og frjálsum vilja“. Sumir guðfræðingar hafa t.d. haldið því fram að menn hafi engan frjálsan vilja, og samþykkt þessa niðurstöðu. Nietzsche - sem ég hef séð að ég hef minnst allt of mikið á, verð að fara að draga úr þessu - hélt því einnig fram að frelsi viljans væri aðeins tálsýn, m.a. vegna þess að það sem við kölluðum „vilja“ væri safn margvíslegra þátta sem við hefðum enga stjórn á og að því væru allir menn saklausir. En það skiptir ekki máli hér og nú, ég er að tala um smekkleysi stjörnuspekinnar en ekki frelsi viljans - eða það var a.m.k. það sem ég ætlaði að gera í upphafi.


Smekkleysan er þessi: Stjörnuspekin skýrir allt. Þetta er alltumfaðmandi og alltumliggjandi kerfi sem er aldrei hægt að reka á gat. Þvílíkt smekkleysi og ósvífni! Ef við höfum Jón hérna sem dæmi, þá er hann fæddur í Tvíburamerkinu, en margar athafnir hans eru algerlega andstæðar dæmigerðum eiginleikum Tvíbura. „A, sjáðu til, það er vegna þess að Neptúnus er í þessari afstöðu við Meyjuna“ myndi stjörnuspekingurinn segja. Nú eru einhverjir þættir í fari Jóns algerlega andstæðir þessu - en það er vegna afstöðu Júpíters við eitthvað enn eitt merkið. Og þar frameftir götunum, endalaust. Það eru engir hnökrar á þessu, engar lögleysur (anomalies) og engin óútskýranleg fyrirbæri. Þetta er alveg fullkomið kerfi: Smekkleysi af verstu sort! Allt sem er fullkomið er ekki aðeins smekklaust; það er líka vafasamt og varasamt.
:: Þorsteinn 10:59 [+] :: "

Ofurskemmtilegur maður!

Var á netbrimi miklu áðan og lenti á afar skrýtinni síðu sem nefnist rap hunnies eða eitthvað í þá áttina. Gekk þessi síða einungis út á það að gefa myndum af stúlkum einkunnir. Svo voru líka svona skemmtilegir fítusar eins og að kommenta á myndina sem var líka svona rífandi og skemmtilegt bara. Stelpur sem voru í sætari kantinum fengu eintóm skilaboð frá einhverjum "niggurum" (nikkas) sem sögðust vilja gera þetta og hitt með sírópi og svoleiðis skemmtilegheitum. Ekki fagurt orðaval myndi ég segja. Svo voru það nú "tha ugly ho's" sem fengu ekki svo skemmtilega útreið bæði hjá "niggurði" og svo hjá kynsystrum sínum. "0000000000000000000000000000000000000000000000000000000000000AAAAAAAAAAAAA AAAAAAAAAAAAAAAAAAAA!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! burn my computer!!!!!!!!!!!" eða jafnvel "why r u callin your self a sexy ass, i doubt your 16 u barly look 10! i think your fukking ugly and acording to the outher ppl who left a message... they think you r 2" og líka bara afar skrýtið hvernig fólk skrifar - ómæ sko!
Eftir að hafa skoðað nokkrar myndirnar rákust augu mín á aldur þessara kvenna og voru þær fæstar yfir tvítugu - eiginlega bara ógislega margar sem voru bara fimmtán eða þrettán eða eitthvað álíka sorglegt.

Ekki skemmtilegt blogg í dag - vonandi að Jón standi sig betur en ég...

miðvikudagur, september 17, 2003

Jæja, langt er liðið síðan Sælgætishornið birtist hér síðast. Þar sem ég er alráður í dómnefnd Sælgætishornsins áskil ég mér rétt til þess að breyta einkunnum eftir frekari reynslu minni og kynnum af dæmdum vörum. Þetta er í líkingu við það sem tónlistarmógúlar Rolling Stone-blaðsins gera, en þeir eiga það til að breyta stjörnugjöf ýmissa platna til batnaðar.

Eftir mikla umhugsun og uppgjör við sálu mína, neyðist ég til að lækka einkunnina á HARIBO-mixi. Var þetta erfið ákvörðun sem gerjast hefur í görn mér í hálft misseri. Mix þetta fékk hvorki meira né minna en 12 Nömm á hinum víðfræga og virta Nammskala í febrúar. Nú eru sjö mánuðir síðan ég dæmdi mixið og hef ég kjammsað á því örlítið síðan. Ég hef annaðhvort glatað einhverjum bragðlaukum eða gerst fráhverfur HARIBO-mixi því eitthvað bragðast það verr en upphaflega. Er það afar miður. Ég neyðist einfaldlega til að lækka einkunnina úr 12 Nömmum niður í 10,5 Nömm. Gríðarleg fallhæð það og spurning um að virkja.

Vindum okkur í annað efni. Ég tyllti niður rassi á veitingahúsinu Apótekinu fyrir allstuttu síðan. Er það útlitslega smekklegt og lekkert veitingahús. Maturinn reyndist ágætur, en magnið var eitthvað af skornum skammti og hin feykidýra súkkulaðikaka sem ég snæddi í eftirrétt var á stærð við nýfædda augnglennu. Skal ég nú dæma þennan mat í Sælgætishorninu í dag.


Sælgætishornið


Vara: Lambahryggvöðvi með öllu tilheyrandi á veitingahúsinu Apótekinu.
Þyngd: Áætluð þyngd er 7 g.
Lýsing: Lambahryggvöðvi, 3 þunnar sneiðar, með ógnarlitlu kartöflulíki og hnetusmjörseinhverju ásamt smáum, heilum lauk. Þakti þetta ferlíki rétt tæplega 1/18 af disknum. Í eftirrétt var súkkulaðikaka, borin fram með ís og smásjá.
Kostir: Lambið bragðaðist afar vel og kartaflan var ágæt. Ísinn var einkar gómsætur.
Ókostir: Þegar ég fer á veitingahús leita ég eftir góðum mat í góðum skömmtum. Apótekið er greinilega listgallerí, því matardiskur minn líktist helst málverki eftir Tolla, svo skreyttur var hann. Skammtarnir voru svo litlir að ég fékk hálfgert áfall við að sjá þá og taldi mig í falinni myndavél. Súkkulaðikakan, sem kostaði 1400 kr., var smærri en allt og í þokkabót ekki góð.
Einkunn: 6,17 Nömm.

mánudagur, september 15, 2003

Ykkur vafalaust til mikils léttis ætla ég ekki að hraðsjóða Búmbasögur í vísuformi aftur í bráð. En viðbrögðin voru slík að annaðhvort hataði fólk Búmba eða elskaði. Já sei la ví og fátt þykir mér skemmtilegra en að læra þessa dagana. Ég bókstaflega stekk fram úr klukkan 06:30, yfir Jón (hurdle) og vind mér í joggarann og ríf doðrantinn upp á rassinum. Eftir eins og þrjúhundruð blaðsíður af ljóðum og lífsglöðum orðum bregð ég mér í brúsabað og þareftir í heimatilbúna lagningu hára. Að því búnu vippa ég mér í gellugallan og sit tíma brosandi eyrna á milli.
Ég er nefnilega ein af þeim sem er alltaf búin að öllu og glósa með uppsett hár og krosslagða fætur.
Jæja nú jæja - sjáumst í saumó í vikunni görls?

miðvikudagur, september 10, 2003

Sagan af Búmba.

Það var einu sinni Búmbi sem sagði aldei sís,
svo gerðist það einn daginn að í'ann fékk flís.
Flísin varð að kýli nokkru er Búmbi reynd'að sprengja,
ei tókst það þó og dapur varð og sig fór þá að hengja.

Nú Búmbi litli í gröfinni sinni liggur bara og lúrir,
eða það hélt hann þangað til hann fattað'að hann var í búri.
Úr búrinu Búmbi komast varð og hringd'í sína mömmu,
hún varð svo reið að á endanum'ún drap sína ömmu.

Enn í búri Búmbi lá og blár var á lim og marinn,
kýlið var þar ennþá á en limurinn næstum farinn.
Búmba jókst þá depurð enn og sig reyndi aftur að drepa,
lenti hann þá aftur í vandræðum fætur ei náði að þrepa.

Í skyndi var búri af hjörum svipt og þar stóð lítill drengur,
hann kynnti sig sem JR frá Dallasi og sagðist vera happafengur.
Nú saman hafa búið í hundrað ár hommar - í vígðri sambúð,
Búmbi og litli drengurinn, sem sundur saman, strýkir hans húð.


mánudagur, september 01, 2003

Nú er liðið á annað árþúsund frá seinustu færslu minni á vef þessum. Eru rithendur mínar báðar farnar að mynda ryð á úlnlið og eru fingur mínir sem kol í Kólóradó. Nú er óminnishegrinn, sá er hvílt hefur á vinstri öxl minni undanfarið stíflutímabil, farinn á brott til heimkynna sinna í innstu sveitum Kambódíu. Margt hefur drifið á daga mína, en þó ekki. Margt er fréttnæmt frá þessu skeiði og ber þar hæst afburðaheimska íslenskra bankaræningja.

Undanfarið misseri hafa bankaræningjar verið í í essinu sínu og varla líður stakt korter milli þess að þrautþjálfaðir ræningjarnir hrifsa til sín hundruð jafnvel þúsundir króna. Einn er þó ribbaldinn iðnastur. Ungur fýr, eigi títján vetra, hefur brosað í öryggismyndavélar bankanna afar oft. Sá er reyndar iðulega handtekinn, en sleppt aftur sem eldislaxi. Lærir kauði ei af reynslunni, stelur alltaf 220 kr. frá Karli Steinari á löggustöðinni og tekur tólfuna frá Hlemmi að næsta útibúi.

Nú í liðinni viku var framið bankarán á Seltjarnarnesi. Viðkomandi ræningi hoppaði yfir gjaldkeraborðið, eins og Vala Flosa áður en hún fór að fella byrjunarhæðina, og hnuplaði einum stórum, brúnum poka, merktum KR., eins og í Andrésblöðunum. Ræningi þessi er 25 ára gamall og ofur vitgrannur enda ákvað hann að hvíla lúin bein í næsta strætóskýli. Þar beið hann og beið eftir næsta vagni, en viti menn, lögreglan kom á undan vagninum. Skrýtið. Alltaf óþolandi þegar strætó er seinn.

Annars var ég í magnaðri teiti hjá Kárastúlkum á föstudaginn. Hélt þar Herdís upp á afmælið sitt og Þórhildur kvaddi mannskapinn fyrir Finnlandsferðina. Á boðstólum var hrefnukjöt, sem reyndist nokkuð gott, og kjúklingur. Undarleg stemmning myndaðist þó í eldhúsinu er leið á kvöldið því 27 manns dönsuðu þar í þremur röðum, haldandi utan um axlir hvers annars. Var stemmningin líkust andrúmslofti í jólaauglýsingu Kóka-Kóla. Eftir trylltan dans ákvað ég að hvíla lúin bein í sófa. Aðrir héldu í bæinn.

Nóg um það, ég er farinn að skipuleggja bankarán þar sem ég ætla ekki að brosa allan hringinn í myndavélarnar eða taka strætó af vettvangi.