mánudagur, júlí 21, 2003

Mikil útilega var um helgina á geysifögrum stað í Þjórsárdal. Þar er skógi vaxin hlíð og á sem ber drykkjavatn. Þessi leynistaður er sem sagt kjörinn til legu úti og drykkju. Mikið táp og fjör einkenndi flokk fólks á föstudagskvöldinu og svamlað var í nætursöltum humlamiði fram á sólbjartan morguninn. Sumir skelltu sér á sveitaball í Árnesi meðan aðrir dönsuðu á nærbuxum og með hatt (viðkomandi nærbuxnadansari gengur undir dulnefninu Þorbjörg Auður). Farið var í hinn ógnarvinsæla og skemmtilega leik bjórfrisbí og voru þátttakendur 8 talsins; er það metþátttaka.

Matti tók með sér bjórdælu til að hleypa bjórnum á skeið niður þurrar kverkar og tæmdust bjórdósir villt og galið í kjölfarið. Bolti var hafður með í för og dýfði Júlli sér fram af 37 m hárri klettahlíð ofan í stórfljótið til að bjarga einum slíkum. Þess má geta að Júlli er við hestaheilsu þrátt fyrir mikið fall, enda brokkaði kauði upp fjallið með boltann á herðunum.

Á laugardaginn var ofsagott veður og sólin í stuði. Sumir fóru í golf á Búrfellsvelli, en aðrir léku sér með gjörð og könkuðust eitthvað á. Hitinn fór hátt í 303 stig á Kelvin og var ég vopnaður málningarrúllu til að smyrja seytján feta lagi af sólarvörn nr. 25 á gríðarbrúnan líkama minn. Sökum þess kennir engra rauðra flekkja á víðfeðmum bringspölum mínum. Lítill svefn föstudagsnóttina og suðumarkshiti andrúmsloftsins urðu þess valdandi að engin kvöldvaka var haldin á laugardagskvöldinu og fóru allir snemma að sofa.

Auður hélt í Skaftafell snemma á sunnudagsmorgninum og sat ég því einn og óstuddur og mergsaug allar spennusögur Séð og heyrt nema gúrkusöguna um bólstrarann. Brátt fór mér að leiðast svefnþóf annarra og þrumuhrotur Þórhildar og breytti mér því í mennska vekjaraklukku. Söng ég sem angólsk þelugla á lóðaríi stefið ,,du du du du du du du" gegnum mjórri enda bjórtrektarinnar og magnaðist hinn fagri söngur minn tífalt er hann dundi á innra eyra svefnpurrkanna. Vaknaði allur skarinn við þetta glaður í bragði og hélt í halarófu til pizzaáts í heimabæ Adda Fannars. Svo fór um sjóferð þá.

fimmtudagur, júlí 03, 2003

Kominn tími til að blogga eftir langt hlé vegna tölvuleysis í Skaftafellinu. Það kemur nú bara þæginlega á óvart hvað það er auðvelt að lifa án adsl massatölvu og sjónvarpsgláps þegar allt kemur til alls. Svoldið tómlegt fyrst en svo saknar maður þess ekki neitt.
Eins er með hammara og pitsur og annað þvílíkt jönk sem er bara ekki til í sveitinni heldur bara jógúrt, pasta og annað í þeim dúr. Smá viðbjóðsafvötnun í gangi í þjóðgarðinum.
Er ekki búin að elda mér neitt nema kannski hrísgrjón eða hakk kannski 3 sinnum samanlagt. Enda verður maður svo geðveikt montinn af eigin nenni yfir eldunargleði að maður neyðir ofaní sig afgangana næstu daga af þrjóskunni einni saman. Þetta gerir svo aftur að verkum að maður borðar bara morgunkorn og jógúrt í öll mál.

Þó það sé nú erfitt að fara frá Jóni mínum svona mikið þá held ég að þetta hafi verið ákkúrat það sem ég þurfti, einfalt líf á fallegum stað. Það verður bara allt svo miklu skýrara og auðveldara þegar maður þarf ekki að einbeita sér að öðru en vinnunni. Ekki skemmir fyrir að launin segja sís og maður kemur heim með þá von í brjósti að maður geti farið að koma undir sig fótunum og loksins flutt að heiman. Ekki þar með sagt að við Jónó höfum það ekki splendid heima hjá tengdó - því þau eru bæði yndisleg - en við höfum það bara eiginlega allt of gott...

Verð sumsé í bænum fram á mánudagsmorgun og minns vill alveg vera memm og svoleis - sjáumst,
Ausa