mánudagur, júní 30, 2003

Var í útilegu í Skaftafelli um helgina að hitta Auði. Við fórum átta saman í tveimur þröngum bílum og komum á áfangastaði eftir miðnætti á föstudaginn. Þá var hné mitt samanskroppið og látið sökum plássleysis. Tjaldborg var mynduð fjarri ellikónum og bocciaspilurum til að fá frið til almennrar drykkju og söngs. Það er hvergi friður fyrir þessum farandbocciaspilurum. Þvílíkur hávaði sem myndast þegar hæst stendur leikurinn hjá þeim.

Vegna steinsteypu undir grænni torfu þurftu allir að hæla lárétt og fá góð ráð frá Ágústu sem vinnur við að grafa lárétt. Laugardagurinn hófst á ógnarsólskini og engin sála í þessum hópi kom með sólarvörn. Ég þarf að vísu ekki sólarvörn, því hörund mitt tekur brúnum hamskiptum er fyrsti sólargeislinn skellur á skinni (Sbr. Ibizaferðina). Því er öðruvísi farið með aðra þátttakendur útilegunnar. Rut og Stebbi tóku Aftersun í stað sólarvarnar. Ég hefði kosið frekar Beforesun til að vernda mitt djásn.

Eftir göngutúr að Svartafossi sneru til baka 7 viðbrenndar skepnur og ein tánaglarlaus (Þórhildur). Reið Þórhildur hnakkalaus á bökum hnokkanna á heimleiðinni enda eigi með fætur jafnlanga eftir naglarmissinn. Sólin reyndist okkur sem sagt hinn versti óvinur og fagnaði bleiknefjahópurinn því er hún settist bak við ský. Um kvöldið var svo grillað þar sem Stut og Rebbi slógu heimsmet í matarbardúsi. Eftir grillið skiptust bleiknefjar í tvær fylkingar eftir kyni. Píurnar saumaklúbbuðust meðan peyjarnir mynduðu ferning og léku hinn geysivinsæla leik bjórfrisbí. Man ég ekki í bliki augna eftir betri útileguleik. Ég veit hins vegar ekki hvort Gaui er því sammála enda hljóp hann hálfmaraþon (Maður á sem sagt að hlaupa kringum ferninginn og sækja bjór handa bjórlausum ef maður grípur ekki frisbídiskinn, en aðrir keppendur skera úr um hvort það sé kastara eða grípara að kenna).

Eftir dágóða stund blönduðust kynin og hófst söngur. Böddi klósetthreinsari mætti á svæðið með nikkuna og skeggræddi kvennamál sín við Rúnar sem sat fastur í klámsöguprísund hans fram að sólsetri. Gaui tók yfir nikkuna og fór hamförum meðan Ágústa sparkaði í neðri kvið pilta. Ég og Auður skelltum okkur í Lambhaga sem er líklega fallegasti staður á jörðinni og er til baka var komið þurfti ég frá að hverfa sökum gríðarþungra augnloka. Aðrir voru lengur að. Þá er útilegan öll.

Annars grátbað Kristín mig um að dæma hina nýju drykkjarmjólk í Sælgætishorninu. Ég hef ákveðið að verða við þeirri beiðni og kemur bráðlega uppfærsla á Sælgætishorninu góða.

föstudagur, júní 13, 2003

Var áðan í Smáralind Limadóttur og vappaði þar um í snyrtivörudeild Hagkaupa. Stekkur þá ekki á mig ofmeikuð og útklínd snyrtidrós og byrjar að "aðstoða" mig með alls kyns smurningu og litgreiningu. "Þú hefur svona litarhaft sem býður upp á marga liti ekki satt? Getur notað svona bleikan og pastelliti jú já og svo jarðarlitina!!!" Svo tók kvendið um axlir mínar og fleygði mér í stól og hóf púðrun mikla og klíndi á mig meiki í gríð og erg. Eftir drjúga stund í snyrtistól þessum náði ég að víkja mér undan hrukkóttum höndum kvendis þessa og gekk stórum skrefum aftur á bak þakkandi fyrir þjónustu góða, hægri vinstri. Þegar ég hafði loks fullvissað mig um að engin af snyrtikvendum Hagkaupa væru á hælum mér leitaði ég spegils þar sem grunur læddist að mér að ekki væri allt með felldu (star og gláp annarra í verslun). Í speglinum sá ég ekki freknóttu og saklausu mig lengur, heldur eftiröpun af andlitsútgangi kvendanna ofsnyrtu. Tók ég mér snarlega skeinispappír í hönd og hóf afmokun sem lauk ekki fyrr en farið var að grilla í nokkrar af mínum uppáhalds freknum og smá húð.
Af þessari erfiðu reynslu ákvað ég að miðla smávegis af þekkingu minni í snyrtivörugeiranum. Númeró únó: í 99,9 tilvikum af hundrað þá hefur þú, kona góð, hárrétt fyrir þér en ekki dragtarklædda málverkið. Númeró dos: meikóver frá miðaldra kerlum er ekki "inn" þar sem þær kunna bara að apa eftir tískunni sem var þegar þær voru ungar og þá voru sko ekki til svona fínar snyrtivörur heldur bara mold og sykur og svoleiðis jukk í krukku. Lesson óver.

þriðjudagur, júní 10, 2003

Ég las í einhverju blaði um daginn að vísindamenn ráðlegðu fólki að geyma tannburstana sína í meira en tveggja metra fjarlægð frá klósettinu. Ástæðan fyrir þess ku vera sú að hland getur skoppað út um allar trissur og saurgerlar geta skriðið ofan í tannburstaglasið. Strákar eru gjarnan duglegir við að hrista af alefli eftir væna skák við páfann og er afleiðingin iðulega hlandblettir úti um allt baðherbergi.

Er ég las þetta færði ég umsvifalaust tannburstaglasið okkar Auðar inn í skáp, en það hafði verið u.þ.b. 40 cm frá klósettinu. Mér hrýs hugur við þeirri tilhugsun að hafa endað flesta daga undanfarin ár á páfatafli og tannburstun með nýja Colgate/urine-tannkreminu. Sú spurning vaknar í kolli mér hvort þetta sé orsök þess að tennurnar mínar verði gulari og gulari með árunum. Kannski hefur fólk með gular tennur tannburstaglasið of nálægt klósettinu. Hland er jú gult á litinn. Hvernig er þá með fólkið með brúnu tennurnar? Úffalahúff. Það geymir örugglega tannburstana undir klósettsetunni.

Ég finn nú þegar, eftir að hafa lokað tannburstana inni í skáp, hvernig tennurnar verða hvítari aftur. Töfralausnin er ekki Sensodyn-White. Töfralausnin er að loka tannburstana inni í baðherbergisskápnum fjarri saurgerlum og hlandormum.

sunnudagur, júní 01, 2003

Ekki plana neitt föstudaginn næstkomandi.
Stjórnin