fimmtudagur, maí 29, 2003

Ég sá Fylkið endurhlaðið fyrir tveimur dögum. Myndin var svalari en alkul og gefur fyrri myndinni lítið eftir nema kannski í frumleika. Bardagaatriðin voru fáránlega flott og hraðbrautaratriðið með því betra sem ég hef séð. Myndin endaði í lausu lofti, enda framhaldsmynd á næsta leiti, og brenna margar Fylkjaspurningar á vörum njarða og annarra landsmanna. Hver er ákveða Fylkisins? Er Fylkið umhverfanlegt (eigi umhverfanlegt ef ákveðan er 0)? Hvað hefur Fylkið marga línulega óháða dálka? Þetta eru helstu spurningarnar sem Nirðir skeggræða.

Ég ætla ekki að blanda mér í þessa umræðu, heldur horfa í gaupnir mér og bíða eftir framhaldsræmunni. Ég þyrfti nefnilega að sjá fyrri myndina til að fá heildstæða mynd af atburðarásinni. Ég hef að vísu séð hana tvisvar til þrisvar sinnum, en þegar kemur að því að muna eftir myndum þjáist ég af Alzheimer á hæsta stigi. Þessi kvikmyndagleymni mín er gríðarhvimleið og þegar fýrar koma saman til að þylja upp flottar setningar úr myndum stend ég bara og hlusta. Stundum reyni ég að plata viðkomandi guma og lýg til um svala bíófrasa til að falla inn í hópinn. Það getur hins vegar reynst erfitt að skálda svala frasa á nóinu og á ég það til að koma með heimsins ósvölustu frasa sem varla fengju hlutverk í Stepmom eða The Horse Whisperer. Það góða við þessa lygi mína er að sæmdin er ofar öllu hjá frasafýrunum og komi ég með einhvern ömurlegan upploginn frasa, sem þeir hafa að sjálfsögðu aldrei heyrt um, þá kinka þeir yfirleitt kolli og hlæja mér til samlætis. Þeir vilja nefnilega ekki sýna fávisku sína í frösum meðal annarra manna. Með þessu móti næ ég að halda mér innan vébanda frasamennanna og virðist svalur í þeirra augum.

Í lokin kemur Sælgætishornið. Ágústa hringdi í mig um daginn og var í talsverðu uppnámi. Hún tjáði mér ást sína á Japan mixi og með tárin í augunum og krjúpandi á kné bað hún mig um að dæma þetta dýrindisnammi í Sælgætishorninu. Dragðu djúpt andann Gústa, því ég reyni að sjálfsögðu að verða við óskum aðdáenda Sælgætishornsins. Það var ávallt ætlun mín að dæma Japan mix, en innyflahatur mitt afvegaleiddi mig og varð því Japan mixið útundan.

Sælgætishornið


Vara: Japan mix.
Þyngd: Áætluð þyngd er 333 g.
Lýsing: Framandi snakk í margvíslegum og skærum litum. Snakk þetta er unnið úr úrvalshráefni eins og rækjudufti, þangsafa og lemúranýrum.
Kostir: Hollara en venjulegt snakk og nánast fitusnautt.
Ókostir: Gallharðir andstæðingar Japans mix kvarta ósjaldan undan óþef sem stafar af neyslu þessarar kóngavöru. Til að hrekja þennan rógburð andstæðinganna hafa vísindamenn sýnt fram á lyktarleysi Japans mix.
Einkunn: 12,91 Namm.

miðvikudagur, maí 28, 2003

Þangað til á þriðjudag hef ég verið með hnút í maga mér. Þessi hnútur stafaði af kvíða og nennleysi til mánaðarvinnu í pökkun humars. Á þriðjudaginn hringdi mín svo í hann Ragnar Frank, þjóðgarðsvörð Skaftafells, bara svona til að reyna að hnykkja mínu tímabili um nokkra tíma eða daga jafnvel. Kom þá í ljós að kvendið sem mun vinna á móti mér er í tungumálaskóla og kemst ei fyrr en seint og síðar meir. Vakt minni var sumsé flýtt um mánuð eða svo og stefni ég á að byrja eftir aðeins tæpar tvær vikur. Jibbí kóla smóla! Pligt minni verður því flýtt og kemst ég því í legu utandyra seinnipart ágústmánaðar og jafnvel fyrr.
Af vinnu í Humarvinnslu stýrist hugur manns ósjálfrátt í átt til þjóðhátíðar. Þetta verður helst útskýrt af því að hugurinn leytar í örvæntingu sinni að einhverju til þess að halda sér á lífi (survival of bordom) á tímum leiðinda. Hér með vil ég því gera lauslega áhugasviðskönnun ykkar, kæru vinir, á því hvort þið mynduð vilja hópast þangað yfir helgi verslunarmanna. Þið getið svo látið svar ykkar detta inn um eina af þremur rafrænu bréfalúgunum mínum eða hreinlega slegið á þráðinn til mín við tækifæri.
Lífið er yndislegt,
Auður sem lyktar af humri...

þriðjudagur, maí 27, 2003

Ég hef verið mjög myrkur í máli í undanförnum Sælgætishornum og sveiflað lágum einkunnum út og suður. Nú er hins vegar sól á himni og sumarblíða, og er ég skyldugur til að endurspegla góða veðrið í Sælgætishorninu. Lesendur hafa komið að máli við mig og lýst yfir svekkelsi vegna slæmra dóma að undanförnu. Ég skil nú ekki þetta svekkelsi í lesendum, því sá matur sem ég hef dæmt á alla mína vanþóknun skilið. Nefni ég þar sjávarréttasnakk og innmat. Hver myndi hvort eð er gefa þessum óbjóði meira en 1 Namm? Ég gaf 0 Nömm. Örvæntið eigi, því í Sælgætishorninu í dag skín sólin glatt og góður matur fær góða einkunn.

Sælgætishornið


Vara: Hálfmáni á veitingahúsinu Ítalíu.
Þyngd: Áætluð þyngd er 876 g.
Lýsing: Eldbökuð „pizza“ í formi hálfmána, þannig að hvergi sér maður í álegg og innyfli. Hálfmáni þessi er svo fylltur úrvalshráefni, þ.e. osti, sósu, skinku og sveppum. Sveppir teljast víst ekki til úrvalshráefnis svo ég skipti þeim út fyrir namibískt pepperoni í hringskífulíki.
Kostir: Magnað bragð og rjúkandi eldbökunarangan mynda heildstætt par sem engin mannvera stenst, ekki einu sinni róttækustu grænmetisætur. Sósan er með þeim safaríkari og kætir kviðarholið eftir strembinn vinnudag.
Ókostir: Ógnarfáir, en helst vil ég nefna hve mikið fer til spillis í hornum hálfmánans. Þar er eyðimörk, og sósa, ostur, skinka og pepperoni hvergi sjáanleg.
Einkunn: 13,6 Nömm.

föstudagur, maí 23, 2003

Sjúklega er ég fegin að vera útskrifuð, útskúfuð og útfarin úr Múla ársins. Aðstoðarskólastjórinn hóf skriftina með shamanískum pornóstíl og hristi kjammann eftir rythma rókókóremixlags. Ræða hans minnti helst á hor sem er fastur í skeggi bónda, svo leiðinleg var hún. Hann hefur örugglega fallið 4.5 sinnum í íslensku 103 og þurft að sænga hjá núverandi kærastanum sínum, Hallgrími Heljarskít, til þess að ná fjórumkommaníu. Nóg um Ólaf nú og meira um mig. Ég var svo svo heppin að stúlkukindin sem sat mér við hlið á sviði Borgarleikhússins var í, jú og já, alveg nákvæmlega eins kjól og ég. Sem betur fer voru fylgihlutir okkar ekki þríburar líkt og kjólarnir! Hins vegar sátum við hlið við hlið og það þýddi það að ég var lesin upp og svo grey hún þannig að það fór ekki fram hjá viðstöddum kjóltvíburunin. Úff og húff.
Er sáttari en sátt við lífið og tilveruna. Blíða upp á hvern einasta dag, lambburður á Litlalandi og humarvigtun í algleymingi hversdagsins. Get ekki beðið eftir júlí sem ber óskastarfið í skauti sér á fallegasta stað á Íslandi.
Langar einhvern jafn mikið til útlanda og mig? Efast stórlega um það þar sem ég hef verið að reyna að selja úr mér nýra til þess að komast í bjórbandalag á baðströnd síðustu viku/r júnímánuðar. Endilega látið mig svo vita ef ykkur langar að vera memm í einhverju útilegustandi í sumar og þá helst í júní.
Ástarkveðja,
Stúdendinn
p.s. ykkur verður boðið í veislu mér seinna í sumar þannig að ekki tapa gleðinni :)

fimmtudagur, maí 22, 2003

Enn og aftur er dýrindisblíða sem dvelur hér. Ísland er hin nýja hitabeltisparadís, það er á tæru. Þetta er einmunablíða eins og Áskell afdalabóndi mundi segja.

Ég gleðst yfir sumrinu. Maður getur nú sest niður um helgar án þess að fá samviskubit yfir lærdómsletinni. Tími til kominn að slaka á eftir samfellda skólagöngu í hartnær aldarfimmtung. Hver gengur heill til skógar eftir slíka prísund? Sumir.

Ég hef annars gerst svo kræfur að spá svona blíðviðri allt sumarið. Mig dreymdi það. Ég einfaldlega trúi ekki að það fari að rigna og hvessa. Draumar mínir eru óskeikulir. Mig dreymdi annars Diddú um daginn. Hún var nýflutt í kjallaríbúðina á móti. Ég veit að þessi draumur rætist og Diddú mun flytja á næstu korterum í götuna. Þá fæ ég kannski einhverjar aríur í c-dúr eða úturdúr fyrir svefninn.

Talandi um drauma. Þeir eru skemmtilegasta og jafnframt furðulegasta fyrirbæri heimsins. Ég held því fram að heilinn setji allar minningar manns, líka þær sem maður man ekki eftir en eru engu að síður til staðar í heilanum, í stóran grautarpott og hræri afar vel. Svo þegar augnlok skella á hvarma og Óli lokbrá segir hæ, þá nær heilinn í stóra ausu, nær í einn safaríkan minningaslurk úr pottinum og setur í draumaskálina. Oft eru atburðir og persónur líðandi stundar í aðalhlutverki í draumunum, en einnig bætast við undarlegustu persónur og furðuverur sem maður hefur ekkert séð eða spáð í lengi. Kannski birtist Janus úr unglingavinnunni skyndilega í draumi. Í því tilviki hefur heilinn náð að lauma þessu stolna minningarbroti um hann Janus greyið og sett í draumaskálina.

Suma dreymir fábrotna og leiðinlega drauma. Mig dreymir oft mjög ankannalega og skrýtna drauma. Snorra dreymir hins vegar ávallt svo asnalega drauma að maður situr hvumsa í marga tíma eftir að hafa hlýtt á drauma hans. Oft flétta ég ýmsa atburði inn í draumana, t.d. símhringingar og svoleiðis. Það tók mig einu sinni 11 stundarfjórðunga að svara í símann því hringingarnar fléttuðust á snilldarlegan hátt inn í drauminn minn sem bjölluhljómur í Belgíu.

Eitt sinn vaknaði ég skellihlæjandi eftir draum einn og hætti ekki að hlæja allan liðlangan daginn. Draumurinn var ekkert ofsalega fyndinn en ég gat samt ekki hætt að hlæja. Í draumnum var ég ásamt Snorra, Gumma og Ara í Kringlunni. Ég var á bíl og keyrði alla. Á leiðinni heim gengum við inn á bílastæðið og Snorri spurði mig hvar bíllinn væri. Ég fór í prakkaraham og vísaði honum og Ara á vitlausan bíl. Þeir settust inn í vitlausan bíl og héngu þar. Á meðan gengum við Gummi að rétta bílnum og hlógum hátt og dátt. Ég vaknaði líka hlæjandi eftir þennan grikk og hló lengi á eftir. Þá er sagan öll.

þriðjudagur, maí 13, 2003

Sælir unnendur augnpots. Fámál verð ég í dag því ég hef lítið að segja - hins vegar á hún Rut afmæli í dag og sendi ég henni ástar- og afmæliskveðju með laginu Boogie Boogie sem finna má á rokk.is (Sveittir Gangaverðir).
Í gær áttu líka tvær prýðiskonur afmæli og sendi ég þeim kossa og knús í tilefni þess. Ólöf og Kristín heita þær og eru evróvísíónbörn af bestu gerð.
Til hamingju semsagt allar þrjár með að vera orðnar tuttuguogþriggja og luvyas!

mánudagur, maí 12, 2003

Ég hef ákveðið að gleðja ekki lesendur mína með þessum örpistli heldur færa þeim tær leiðindi á silfurfati. Eftirfarandi hafa einhverjir menn, sem hafa ekkert að gera, reiknað út:
10101010104,829261048*10183230 = 9876543210.


Ég vona innilega að þetta hafi glatt ykkar talnahjörtu. Fyrir þá sem hafa gaman að skák, þá segir eftirfarandi tala til um áætlaðan fjölda möguleika á mismunandi skákum (miðað við að skákin verði ekki óendanlega löng):
101050.


Þeir sem eru að dunda sér við að reyna að búa til allar mögulegar skákir ættu að snúa sér að einhverju öðru. Þeir sem eru að hugsa um að senda mér miltisbrand í pósti sökum ógnvænlegra leiðinda minna hér að ofan er bent á að hugsa málið örlítið, því í lokin er það Sælgætishornið góða til að gleðja nákvendi og námenn. Í dag tek ég fyrir matvöruflokk sem varla getur talist til sælgætis, en mér sem matargagnrýnanda ber hins vegar skylda til þess að vara fólk við ómat þessum.

Sælgætishornið


Vara: Allur innmatur.
Lýsing: Innyfli steikt á pönnu með tilheyrandi blóði, galli og óþverraangan.
Kostir: Engir.
Ókostir: Allir.
Aukaverkanir: Hrollur í vélinda, þunglyndi, viðbjóðsfnykur í munnholi, næturlöng innmatsræpa og fjöldi annarra almennra óþæginda.
Einkunn: 0 Nömm.

laugardagur, maí 10, 2003

Nú er fimmfaldur Lottópottur í dag og er talið að vinningsupphæðin verði um 50 milljónir króna. Mér finnst undarlegt að enginn skuli nokkurn tímann hafa keypt allar mögulegar Lottóraðir. Mögulegar Lottóraðir eru 501.942 talsins. Sá sem ætlar sér að kaupa alla möguleikana borgar einungis 37.645.650 kr. fyrir þá, þar sem hver röð kostar 75 kr. Gerum nú ráð fyrir að vinningspotturinn verði 50 milljónir í kvöld og ég kaupi alla möguleika. Þá fara 45% (reyndar fer ekki öll upphæðin í vinningspottinn fyrir 5 réttar tölur, en til einföldunar geri ég ráð fyrir því hér) af 37.645.650 kr. í vinningspottinn, þ.e 16.940.542 kr., og potturinn stækkar í 66.940.542 kr. Að sjálfsögðu er ég öruggur með að vinna og verði ég sá eini sem fær allar tölurnar réttar græði ég 66.940.542 - 37.645.650 = 29.294.892 kr. og tel ég þá ekki með upphæðir fyrir fjórar réttar og bónustölu, fjórar réttar o.s.frv. Þetta er dágóð fúlga.

Eini ókosturinn við þetta ferli er að ég græði ekki nema ég verði eini vinningshafinn. Ef ég mun deila vinningsupphæðinni með e-m Kormáki úti í bæ þá tapa ég 4.175.379 kr. og tapa meira eftir því sem vinningshafar verða fleiri. En það er gaman að taka áhættu og hvet ég alla sem eiga 37.645.650 kr. inni á bankabók að gera svo.

Í lokin er það Sælgætishornið víðfræga.

Sælgætishornið


Vara: Sjávarréttasnakk frá Stjörnusnakki (held ég).
Þyngd: Um 100 g.
Lýsing: Snakk með sjávarréttabragði, t.d. rækjubragði og öðru óbragði. Skelfilega viðbjóðslegt snakk og hræðileg hugmynd hjá Stjörnusnakki.
Kostir: Hætt hefur verið við framleiðslu ógeðisins.
Ókostir: Of margir til að telja þá upp.
Aukaverkanir: Ælupest og bévítans óbragði í koki í allt að þrjá daga eftir neyslu. Ég hef ekki enn jafnað mig eftir að ég bragðaði þennan hrylling.
Einkunn: 0 Nömm.

fimmtudagur, maí 08, 2003

Allar símalínur á skrifstofum Sælgætishornsins loga glatt líkt og skógareldar í Ástralíu. Ritarinn minn er í óðaönn að taka við pöntunum frá fólki sem vill fá vörur dæmdar í Sælgætishorninu.

Halldór Benjamín hringdi inn áðan og bað mig að dæma Nonnabita. Halldór er eins og alþjóð veit einarður Nonnabitaaðdáandi og myndi vaða eld og brennistein fyrir einn glóðarstektan Nonna. Hann er öllum hnútum kunnugur á Nonna og þekkir meira að segja Nonna sjálfan persónulega. Mér er í fersku minni eitt skiptið er við Halldór skelltum okkur á Nonnabita. Halldór var nokkuð kenndur, gekk inn í eldhúsið eins og hann byggi þar og sagði: ,,Jón minn!", eins og hann hefði þekkt Nonna frá örófi alda. Jón a.k.a. Nonni brást ókvæða við þessari innrás og vísaði Halldóri út. Já, svona fór um Nonnaferð þá.

Vel á annan tug mismunandi Nonnabáta er matreiddur og því er úr vöndu að ráða hvern þeirra skal dæma. Ég er hins vegar mikill fylgismaður kjúklingabáts og hef því ákveðið að dæma hann hér.

Sælgætishornið


Vara: Nonnabiti, kjúklingabátur.
Þyngd: Áætluð þyngd er 503 g.
Lýsing: 12" bátur í nýbökuðu og ilmandi brauði með steiktum og vel krydduðum kjúklingi, maískorni og fersku grænmeti að vild.
Kostir: Afar ljúffengur og bragðmikill skyndibiti sem fer vel í maga.
Ókostir: Teljandi á fingrum annarrar handar handalauss manns.
Aukaverkanir: Sósa með 97,5% fituinnihaldi hefur slæmar afleiðingar fyrir sálir þeirra er reyna að halda línunum í lagi.
Einkunn: 13,2 Nömm.

miðvikudagur, maí 07, 2003

Sælgætishornið


Ég hef áralanga reynslu í sælgætismauli og þekki sérhvern krók og kima í sælgætisgeiranum hér á landi. Ég hef því ákveðið í samráði við mína nánustu aðstandendur að setja á stofn Sælgætishornið. Í Sælgætishorninu verður ákveðin framleiðsluvara tekin fyrir í hvert skipti, kostir hennar og gallar tíundaðir og einkunn gefin fyrir frammistöðu vörunnar í munnvikum mér. Ég hef ennfremur smíðað einkunnaskalann Namm til að meta gæði vörunnar, þar sem hæsta einkunnin er 14 Nömm en sú lægsta 0 Nömm. Ég vona að víðtæk reynsla mín á þessum vettvangi verði góður vegvísir fyrir óharðnaða sælgætisneytendur. Ef þið lesendur hafið einhverjar vörur sem þið vilja láta mig dæma, þá skuluð þið tauta nöfnin á vörunum og ég reyni eftir bestu getu að verða við óskum ykkar í komandi Sælgætishornum. Mitt fyrsta verk í Sælgætishorninu verður að dæma HARIBO-Mix*.

Sælgætishornið


Vara: HARIBO-mix.
Þyngd: 1000 g.
Lýsing: Dolla full af dýrindisnammi. Í dollunni kennir ýmissa grasa, allt frá lakkrís til hlaups, og getur hver maður fundið nammi við sitt hæfi.
Kostir: Ferskt og bragðgott nammi sem endist manni næturlangt.
Ókostir: Fátt út á HARIBO-mix að setja, nema að það mætti sigta út hluta af lakkrísnum eða hafa meiri fjölbreytileika í honum. Einnig finnst mér vanta marsipanlakkrísinn sem var í gömlu dollunum.
Aukaverkanir: Eins og fyrr segir vegur dollan 1000 g og getur óhóflegt át valdið bylgjuhreyfingum í endaþörmunum með tilheyrandi flóði.
Einkunn: 12 Nömm.*Sjá pistil frá 18. febrúar 2003 um HARIBO.

sunnudagur, maí 04, 2003

Flestir hafa eflaust heyrt um gassprenginguna ógurlegu í Garðabænum fyrir nokkrum vikum. Ég gleymdi að tjá mig um þann atburð. Betra er seint en aldrei.

Fréttir af atburðinum hermdu að þrennd ungmenna hefði setið að sniffi í ranni eins mennisins í Garðabænum. Var löngun krakkanna svo mikil og óþreyja að ekkert minna en tveir stærðarinnar gaskútar dugðu til sniffs. Þar sem þessi gelgmenni vaða varla í gáfum, þá býst ég við að þau hafi sogið eins og 1207 atmósferur eðalgass upp í (ó)vit sín og fagnað glæstu sogi með því að tendra einn vindling á mann. Með 18 lítra af gasi í stofunni sátu þessir vanskeplingar og munduðu kveikjarann. Við tendrun varð ógnarsprenging og allar rúður hússins brotnuðu og garðskálinn hrundi til grunna. Ekki sakaði heimskmennin neitt of mikið. Hve heimsk er vor æska? Mig grunar að þessi þrennd heimskmenna hafi verið saman komin í sniffi til að halda upp á glæst afrek fyrri tíma. Hvaða afrek?

Í vetur fór nefnilega fernd unglinga á jeppa föður eins þeirra út á Hafravatn. Smá hrím var á vatninu og þótti gelgmennunum það nóg til að bera eins og einn jeppa. Á miðju vatni brotnaði hrímið og fór jeppinn á bólakaf. Ungmenninn sluppu með skrekkinn, köld og hrakin og gengu nokkra kílómetra í bæinn. Ég hef lagt saman tvo og tvo og fengið út að sniffþrenndin hafi verið 75% Hafravatnsferndarinnar. Hafravatnsferndin hefur eflaust ákveðið að hittast í Garðabænum og fagna ísförinni miklu með gríðarsniffi. Þar sem einungis tveir gaskútar voru til staðar (það er alkunna að eigi minna en 2/3 hlutar gaskúts duga fyrir einn sniffara), þá þurfti einn ferndarmeðlima frá að hverfa og sniffþrenndin varð til.

Nú hefur Hafravatnsferndin/sniffþrenndin eyðilagt hús og jeppa. Hvað verður eyðilagt næst? Þessi spurning brennur á vörum allra landsmanna. Ég vara ættingja Hafravatnsferndarinnar við því að hleypa henni inn til sín. Ég óttast reyndar að ferndin skaði sjálfa sig mest í næsta áhlaupi. Það er spurning hvort við munum heyra eitthvað meira frá afreksverkum ferndarinnar í náinni framtíð. Mun ferndin eyða sjálfri sér með óttalegum heimskupörum? Tíminn einn veit svörin við þessari spurningu, en eitt veit ég að náttúran sér um sína og þeir hæfustu lifa af.

fimmtudagur, maí 01, 2003

Óstuð mitt fyrir lærdóm hefur náð hámarki og hef ég ekki einungis mótmælt harðlega í helstu fjölmiðlum landsins heldur hef ég staðið í 12 tíma hungurverkfalli í svefni mínum. Þraukaði ég svo einungis í tvær klukkustundir áður en ég hóf brauðsmjatt á við einn og hálfan lagsmann.
Vil ég taka fram við ykkur lesendur og kæru vini að ég geng ei lengur undir því djöfullega nafni auzzzur hjá heitpóstinum vegna gífurlegs magns áhangendapósts. Þess má geta að þessir áhangendur eru bæði þolmiklir og úrræðagóðir og boruðu sér við hvert tækifæri inn á ástvinapóshús mitt. Eina úrræðið fyrir mig var því að flytja úr landi, lita hár mitt kímónóbleikt og skipta um pósthús innan heitpóstsgeirans. Geng ég nú undir því feiknarfína og úrræðagóða nafni - augnpot á heitpóst púnktur kömm.
Beini ég þeim tilælum vinsamlega til Ara hins Ástkæra og Ylhýra að hann verði að gefa upp svokallað "url" svo vér náum að skoða skoðanir hans við öll helstu tækifæri...
Túdílú ástarpúngar!