miðvikudagur, apríl 30, 2003

Mesta tilviljun sögunnar


Ég má til með að nefna hér einhverja mestu tilviljun sem ég hef orðið vitni að. Ýtið augnlokunum niður og hverfið með mér á Þjóðhátíð í Eyjum sumarið 2001. Þá voru sól og sumarylur ríkjandi í hinum annars veðurbarða Herjólfsdal. Ég og Auður héldum á vit ævintýranna ásamt hópi ungpeyja og -meyja og slógum upp tjaldbúðum á góðum stað. Eftir annasaman og drykkfelldan föstudag vöknuðum við á laugardeginum við fuglasöng, blíðviðri og ælu á stærð við Kasakstan á tjaldi voru. Kristín og Ólöf héldu í bæinn til kaupmannsins á horninu og keyptu ýmislegt í gogginn. Ég var í miklu átstuði og smakkaði allt það óholla er þær systur komu með til baka.

Um fimmleytið tók ég mér bjór í hönd ásamt dýrindiskleinum frá systrunum. Skyndilega gall mikið bíbhljóð í tjaldinu og var mér talsvert brugðið. Ég hafði fengið sms-skeyti frá Stefáni Jökli sem ákvað að virða Þjóðhátíð að vettugi og baða sig í sólinni í Portúgal í staðinn. Sms-ið var einhvern veginn á þessa leið: "Hva...bara verið að chilla með bjór í annarri og kleinu í hinni! Má minn maður við þessu?" Ég varð umsvifalaust gríðarhvumsa er ég las þetta enda var ég einmitt að chilla með kleinu í annarri og bjór í hinni. Ég sat inni í tjaldi og fannst undarlegt að Stebbi skyldi sjá mig. Ég fór því út að leita að honum og sá hann hvergi, skiljanlega, því hann var í Portúgal. Ég sendi honum til baka sms þar sem ég greindi honum frá aðstæðum mínum í Eyjum og spurði um leið hvort hann væri skyggn. Stebbi neitaði því og tjáði mér einungis að hann hefði sent mér Fóstbræðrasketch.

Þarna var mitt fyrsta og eina skipti sem ég chilla með bjór í annarri og kleinu í hinni, enda fara þessi matvæli ekki vel saman. Þvílík tilviljun að Stebbi skyldi senda mér þetta sms-skeyti, með nákvæmlega þessum Fóstbræðrasketch, á þessum tíma. Ég var lengi að jafna mig á þessu. Ég held því fram að Stebbi leiki tveimur skjöldum og sé í raun og veru skyggn.

þriðjudagur, apríl 29, 2003

Um daginn reit ég pistil um undarleg dýr eins og patagónísku möruna og indra. Svo virðist vera að nokkur dýr hafi orðið útundan í greinargerð minni og fór það fyrir brjóstið á Snorra. Ég og Snorri erum báðir miklir áhugamenn um ankannaleg og stórfurðuleg dýr og þykir mér vænt um allar slíkar verur. Það var því ekki ætlun mín að særa neinn eða vera með leiðindi í garð dýra eins og lemúra, nandúa og zebúa. Snorri nefndi sérstaklega að ég hefði gleymt þessum ágætu skepnum í pistli mínum. Ég biðst hér með forláts á þessu og lofa pitsli um þessi dýr eftir prófin. Í þeim pistli mun ég einnig tala örlítið um hið gríðarlega langa lindýr, langa smotta, sem lifir í sjónum. Einnig gæti ég talað um skrýtin dýr eins og flóðsvín, ljóna, vatnsnörtu, klumbudrögu og jafnvel bongó sem Þórður bróðir sagðist hafa heyrt um. Ég verð að grafa upp einhverjar heimildir um bongó, enda aldrei heyrt um það fyrr. Annars vil ég biðja þá er þessa síðu skoða að koma með hugmyndir að ankannalegum dýrum sem ég get fjallað um í komandi sumarpistli.

mánudagur, apríl 28, 2003

Nú höfum við troðið tautglugga á síðuna. Nú fá allir að tauta sem mest þeir geta.

sunnudagur, apríl 27, 2003

Þar sem ég hef verið í mikilli tilvistarkreppu undanfarinn mánuðinn þá hef ég þreytt persónuleikapróf af miklu kappi. Í þetta skiptið þá tók ég Leiðarljóssprófið sem sýnir mér hvaða karakter ég líkist mest í þeim þáttum... Ég var einmitt ein af mínum uppáhalds persónum og verð ég að lýsa yfir ánægju minni að hafa ekki verið Bridget eða Nadine sem eru án efa mestu mellurnar í þessum þáttum - aumingja Rut samt - hún var Nadine (hahhaaaa)!

Mindy Lewis (Melinda Sue): ert algjor frekja og pabbastelpa og faerd thad sem thu villt! Thu ert fatahonnudur a uppleid og varst a leidinni ad giftast syni fyrrverandi konu fyrrverandi astmanns thins. Ekki orvaenta tho thu hafir horfid i bili, thu kemur aftur!

föstudagur, apríl 25, 2003

Gott sumar?


Nú hefur liðinn vetur verið afskaplega góður, einn sá besti í mínu minni. Meðan Kanar frjósa úr kulda í 30 stiga gaddi og brjóta rafmagnslínur með höndunum sitjum við Frónbúar á stuttermabolum og borðum ís. Hvernig væri að markaðssetja Ísland sem hitaparadís norðursins? Eflaust hægt. Nú er hins vegar sumar gengið í garð og gott skal það vera. Svo segja a.m.k. gárungar, spjátrungar, nærsveitungar og aðrir andans ungar. Gott er að fá gott sumar, en böggull einn fylgir þar skammrifi. Nú tala ég um pöddur. Einhver mætur veðurseggur spáði nefnilega miklu pöddusumri. Yfir þessu get ég með engu móti glaðst, enda þjáist ég af blaðlúsafælni á hæsta stigi.

Nú skulum við hverfa sem snöggvast ein þrettán ár aftur í tímann. Á ellefta ári lék ég mér í ljósi sólar og lærði hörpu að stilla. Einn góðan veðurdag var ég í miklum ham og hljóp gegnum runna, einn, tvo, þrjá ellegar seytján. Er ég kom heim í ranninn um miðnæturbil blöstu við mér tvær dólgslegar og ófrýnilegar grænar flugur á öxlinni. Varð mér svo brugðið við þessa hryllingssýn að ég froðufelldi og fékk vænt flogakast. Hélt ég umsvifalaust að umræddar viðbjóðsflugur væru blaðlýs og hef haldið þær það allar götur síðan. Seinasta sumar fékk ég hins vegar þær upplýsingar að blaðlýs væru agnarsmáar og rauðar. Varð ég hvumsa við að heyra þetta. Kannski hef ég ekki þjáðst af heiftarlegri blaðlúsafælni öll þessi ár heldur svokallaðri grænuflugnafælni sem ku ansi algeng í Papey.

Eitt er víst að þessar hrottafengnu og stórhættulegu grænu flugur eru ekki góðvinir mínir hvort sem þær heita blaðlýs eða eitthvað annað. Mig fýsir hins vegar að vita nafn þeirra, ef þær eitthvert slíkt bera. Seinasta sumar vorum við Auður að prufukeyra útilegutjaldið í Logafoldinni hjá Auði. Eftir eilítinn tíma barði ég augum bláa flugu á tjaldhimni vorum. Skaut þessi sjón mér skelk í bringu. Ég tel þessa ljótu flugu ættingja grænu flugnanna; þær eru að minnsta kosti jafnógeðslegar. Hvaðan koma þessar óvættir? Eru þær jafnhættulegar og ég tel? Gaman væri að fá svör við þessum spurningum.

Ég er líklega eini Íslendingurinn sem ekki gleðst yfir væntanlegu blíðviðri. Mér hrýs einfaldlega hugur við þeirri tilhugsun að í kjölfar þessa hlýja vetrar hafi myndast kjöraðstæður fyrir got blaðlúsa, litaðra flugna, rotvera og annarra ára. Ekki vil ég búa við þá hættu að græn fluga gjóti tugum eggja inn í miðeyrað mitt eða ofvaxnar blaðlýs hreiðri um sig undir handarkrikum mínum. Heldur vil ég kaldara sumar og pöddusnauðara.

Er búin að fá sumarvinnu í Skaftafelli, nánar tiltekið frá byrjun júlí til ágústloka. Það þýðir að ég verð í Humarvinnslunni fram að því og rokka í slopp, í stígvélum, með svuntu og hárnet - jei jei. Vona að einhverjir af mínum gömlu félögum verði þar enn svo mér leiðist ekki óendanlega í kringum eintóma polla og Pólverja. Veit að Ágú verður eitthvað í humó en vona að fólk á borð við Kötu Tómasar, Önnu Möggu og fleiri snillinga tjútti mér við hlið og berjist fyrir áframhaldandi píkupoppi og svita.
Svo er náttlega bullandi félagslíf þarna sem ég má eigi missa af - allavega ætla ég mér kannski að vera með í róðraliðinu og þessháttar uppákomum. Finnst eiginlega eins og ég sé að ganga í unglingdóm á ný því ég mun síðast hafa snert við hárneti fyrir um 3 árum þegar ég var bara níídján ára smástelpa. Spurningin er bara sú hvort ég nái þeirri aðlögun sem þörf er á... ég meina Þorláksvaka, fjörupartý, álfastuld og fleira í þeim dúr. Svo verð ég náttlega að setja upp dekurvörn nr. 995 til þess að ég snúi ekki til baka sem óþolandi normalbrauð sem kann ekki að klæða mig í sokka. Amma er nú alveg svakaleg við barnabörnin sko! Eina ráðið til þess að fá að smyrja brauðið sitt sjálfur er að ljúga að henni að þú sért hættur að borða brauð, taka svo undir sig stökk og hrifsa til sín brauð, smjörhníf og smjör, loka sig inná litlaklósetti og borða hádegismatinn þar! Svo má alls ekki vitja klósetts áður en maður býr um rúmið því annars er búið að gera það fyrir mann. Ég held ég verði bara að snúa vörn í sókn og búa um rúmið hennar áður en hún vaknar og smyrja allt brauð sem til er á heimilinu, viðra sængur og þrífa bílinn á meðan hún er í baði því annars er það bara hviss, bang og púströrið eftir á Hellu...

Stefni á að snúa aftur úr humri, Skaftafelli og sumri ódekruð (má nú ekki við meiru) - ætla mér að arka fellið þvert og endilangt og borða bara gras og fífla þess á milli sem ég vinn eins og hestur en ekki prestur. Einnig skal minns vera orðin mellufær í jóðli og hvers kyns gauli fyrir sumarlok!

miðvikudagur, apríl 23, 2003

Jahérna hér, sjaldan hef ég séð jafn fyndna síðu og hjá honum Frank sem er væntanlega Amrískur og stórbilaður - mææli með því að þið skoðið þessa síðu STRAX!
Elsta vinkona mín hún Rúna var að eignast lítinn strák á afmælisdaginn hans pabba og vá hvað hann er sætur og fullkominn. Bara búin að skoða myndir og svoleiðis og fékk barasta tárin í augun við að sjá þessa nýju fjölskyldu. Á svolítið erfitt með að átta mig á því að Rúna og Teitur séu foreldrar og að ég sé orðin svona gömuuul.
Man einmitt eftir því eins og það hafi gerst í gær hvernig við urðum vinkonur - en þá bjuggum við báðar í Þorlákshöfn og vorum bara fimm ára pæjur. Hún var að reyta mosa fyrir aftan húsið hennar ömmu Siggu og ég fór nú til hennar og fræddi hana um hversu mosi væri nú lengi að vaxa og því ætti maður ekki að vera að tæta hann. Ómægod! hvernig vissi ég hvað mosi var lengi að vaxa þegar ég var fimm ára! (leiðinlegt barn myndi nú einhver segja) Anyhew - sé nú ekki eftir því að hafa skikkað hana til, því upp frá þessu urðum við best friends og lékum okkur í barbí myrkranna á milli. Aumingja hamsturinn hennar var meiraðsegja brúkaður sem barbíhundur - geðveikt heppinn!
Annars vil ég bara óska Rúnu og Teit til hamingju með barnið og barninu til hamingju með þau!

föstudagur, apríl 18, 2003

Þá er fegurðarsamkeppni Reykjavíkur búin og kenndi þar ýmissa grasa. Mörg voru þar misfögur fljóðin og undarleg. Annars á þetta að vera keppni í fegurð og glæsileika, hvernig svo sem það á að vera hægt. Keppendur eru gerðir einkar hallærislegir með því að ganga í nærbuxum og háhæluðum skóm. Seint mun það teljast góður kostur og þægilegur, enda voru stúlkurnar í stöðugum vandræðum með að halda jafnvægi á glerhálu sviðinu. Einnig er alveg með ólíkindum asnalegt að sjá dömurnar dilla sér á sviðinu með gervibros á vör og á háhæluðu skónum. Meiri vitleysan.

Ég verð nú að tauta eilítið um kynna. Kynnar á keppnum sem slíkum eru að jafnaði fólk sem ekki ætti að opna munninn. Í þessari keppni sá Jón Axel um að deyða lýðinn ásamt Jóhönnu Vigdísi. Jón Axel var leiðinlegur sem endranær og á ekkert að fá að þenja raddböndin í návist annarra en lemúra á Madagaskar. Hann og Gulli Helga eru leiðinlegasti dúett íslenskrar útvarpssögu (deila reyndar þeim titli með Þór og Steina á FM hér um árið), en þeir boruðu sig inn í varnarlausar sálir landsmanna á Bylgjunni. Ég var að vonast til að Jón Axel væri horfinn úr okkar sólkerfi, en svo skýtur hann upp kollinum á keppninni. Leitt er það.

En nóg um vonlausa kynna. Ég og Auður sáum viðbjóðslegt kvendi í Smáralind um daginn. Kvensa þessi var eflaust hálfsextug, í níðþröngum snákabuxum, með of sítt að aftan, í skelfilegum leðurjakka frá ofanverðri nítjándu öld og lyktaði eins og súkkulaðihúðuð grásleppa. Grunaði okkur að drós þessi væri atvinnudræsa. Svona furðuverur sér maður nefnilega ekki á hverjum degi; ekki frekar en finngálkn, kímerur, satíra, dreka eða griðunga. Þessi umræða mín minnir mig á herfilega ljótt nagdýr sem kallast patagóníska maran. Óvættur þessi lifir eins og nafnið gefur til kynna í Patagóníu í Argentínu og hefur ásjónu rottu en eðli grimmra úlfa. Undarlegt dýr. Enn undarlegri vera er indri. Indri er dýr sem lifir einungis í frumskógum Madagaskar og heldur sig við rætur nokkurra eldfjalla þar. Indri er ennfremur háværasta dýrið á eyjunni og bergmála öskrin hjá honum um gervalla eyjuna er rökkva tekur. Eflaust er hann ekki vinsæll meðal annarra dýra á Madagaskar. Það er kalt mat mitt. Að lokum neyðist ég til að nefna dýr sem er mér afar hjartfólgið. Að sjálfsögðu tala ég um ókapann. Ókapinn var þjóðsagnarvera meðal íbúa Vestur-Afríku þangað til hann fannst árið 1901, japlandi á laufblöðum í góðu yfirlæti. Vera þessi ku vera nokkurs konar sambland af gíraffa og sebrahesti. Ég öfunda Þórð bróður gríðarlega, en hann sá ókapa í dýragarðinum í London. Ég skelli mér þangað við fyrsta hanagal.

fimmtudagur, apríl 17, 2003

En hvað það er dásamlegt að vakna við kirkjuklukkur í morgunsárið eftir seinsofelsi kvöldið áður. Ég tel jafnvel óhætt að fullyrða um það að þessum sið sé óhætt að hverfa frá - ég hef oft leitt hugann að því hvað ég yrði brjál ef ég væri með lítið barn eða væri á næturvöktum og þessi óbermi myndu dirfast að raska ró minni. Það er einmitt það sem hefur gerst, þrátt fyrir barnleysi og vinnulausar nætur, og er ég alvarlega að velta því fyrir mér hvað ég geti gert til þess að sporna við þessu. Kannski ætti ég að kaupa dúsin tyggjókartona og hubbabubbahúða bjöllubersana. Eða senda inn grein í moggann um mikilvægi a.m.k. 6 tíma, samfellds svefns sem mætti eigi rjúfa með slíkum ólátum á helgarmorgnum. Svo gæti ég náttúrulega mótmælt með því að byggja mosku við hliðiná kirkjunni og góla þaðan fimm sinnum á dag, með gjallarhorni, trúarjátningu múslima. Já, eitthvað yrði nú sagt um það í landi trúfrelsis (eins og einhver sagði: "yeah, right!"), hvet alla þá múslima sem skoða síðuna mína hefja köll sín a.s.a.p.! Annars held ég að þetta trúaða samfélag okkar (hehemm) nenni ekkert að hlusta á mig því fæstir heyra jafn vel í klukkum kirkna sinna og ég í þessari. Kannski ætti ég að senda þeim reikning fyrir hljóðeinangrun húss Jóns svo við fáum einhverntímann að sofa út. Jevla iddioter!

Fyrir þá sem hafa verið of lengi á Greipsstöðum í Gufunesgjá og eru í takmörkuðu sambandi við umheiminn þá erum við hjón, ég og Jón, búin að vera par í tvö ár. Við eigum sko afmæli 14. apríl en kennum okkur samt mest við föstudaginn langa... okkur langar einmitt svoldið að hitta vin(konu)ahópinn okkar sem fyrst og jamma með því góða fólki. Sendi ég hérmeð orð til eyrna þeirra um nauðsyn þess að við sötrum bjór og etum ís saman hið fyrsta.
Pling dóng flínd sí - koll mí!

miðvikudagur, apríl 16, 2003

Eins og allir vita verður keppnin um ungfrú Reykjavík haldin í kveld og hlakka ég mikið til enda stórviðburður í ættinni. Loksins komst einhver af mínum ættingjum á blað fyrir að vera fallegur og fínn og verðum eflaust skráð á spjöld sögunnar fyrir fádæma fegurð. Annars finnst mér frekar merkilegt að þessi keppni lifi ennþá svona góðu lífi vegna þess hve gífurlega hallærisleg hún er... það var sko verið að kynna keppendur í þættinum "Ísland í bítið" og fannst mér afar merkilegt hvað þessar annars bjútíful hnátur virtust agaðar og villtar í bland, kameran var svona alveg í ennisholunum á þeim og þær flissuðu og hristu hárið á víxl til að heilla alla upp úr skónum. Að sjálfsögðu svínvirkaði þetta og ég var farin að óska þess að vera í þeirra sporum.
Hvað er þá sem gerir eina af þessum "gyðjum" að toppgyðju eða úngfrú eitthvað? Til þess að geta dæmt um fegurð fólks þá finnst mér eiginlega að manneskjan þurfi fyrir það fyrsta að vita að maður sé alls ekki að reyna að meta hana. Í öðru lagi finnst mér frekar skrýtið að þær fái ákveðinn fyrirvara til þess að gera sig sætari með sjúku líferni á borð við skyrkúr og sprikl sjö tíma á dag. Og í þriðja lagi þá eru staðlarnir skítlegir: ungfrú perfect á að vera barnlaus, hress, skemmtileg, 175 cm í það minnsta, rosalega grönn, ekki með appelsínara og vitaskuld hafa háleit markmið í lífinu - hóst hóst - hvenær fara þessir hlutir saman!?
Þessi frænka mín sem tekur þátt heitir Regína og fullvissa ég fólkið um að hún er ekkert lík mér (surprise surprise) og að henni mun ábyggilega ganga vel í keppninni um hver er sætust. Tengsl þar á milli eru hins vegar óljós...
Persónulega finnst mér samt allar vinkonur mínar vera miklu sætari en þessar píur þarna í úngfrúeitthvaðkommaís því þær þekki ég og það er einmitt kjarni málsins - fegurðin kemur að innan!

miðvikudagur, apríl 09, 2003

Nú fer í hönd merkilegt tímabil. Ég að verða stúdent (vonandi) - Jón að útskrifast (dittó) og vinir vorir að festa kaup á heimili. Nánar tiltekið eru þessir vinir okkar Rut og Stebbi og viljum við óska þeim hjartanlega til hamingju með að vera orðin svona stór og rísponsíble. Annað á döfinni er fyrirlestur kl. 11:40, vona að ég klúðri honum ekki líkt og þeim seinasta sem ég hraðspólaði yfir og roðnaði svo í kaf þegar tímastilltu, flottu glærurnar mínar rúlluðu í 12 mínútur á eftir. Vona líka að hópfélagar mínir sem eru notabene 2-3 árum yngri flippi ekki út í einhverju allsherjar hláturskasti og brandarareytingi. Kvöldið býður svo upp á smá danserí og sullerí þar sem okkur frístæl stúlkum er boðið til Yasmeen að væta okkur eilítið fyrir sýninguna. Er ekki ennþá búin að ákveða hvort ég verði gó eða nósjów því svona gjörningar kalla fram mína feimnu hlið og úff hvað ég er stressuuuð.
Hlakka mikið til morgundagsins mínus söguprófs.

mánudagur, apríl 07, 2003

Um helgina var haldin Galaxy-fitness keppni. Þetta á að vera keppni í þreki, snerpu og styrk, en mér finnst hún eiginlega orðin keppni í brúnku. Keppendur mæta til leiks, með demantshart þvottabretti á maganum og á litinn sem saur eftir kondór á lakkrísfylleríi. Þessi brúnkutíska er fyrir löngu komin út í öfgar. Ég fengi til dæmis aldrei þátttökurétt í þessari keppni (ekki að ég óski nokkurn tímann eftir því), enda verð ég aldrei svona saurbrúnn á litinn, sama hversu marga ljósatíma ég myndi sækja. Ég verð frekar rauður í staðinn*.

Búningar keppenda eru með eindæmum efnislitlir og sést móta fyrir erótískum útlimum líkt og í röntgenmyndavél. Brjóstahöld kvenkeppendanna eru sem fingurbjargir og einungis gerð til að hylja geirarana. Einn þáttur keppninnar er líkamametingur, en þá standa Snickerslitaðir keppendurnir í röð og snúa sér fram og aftur, út og suður til að sýna dómurunum alla vöðvana sína. Sá gaur sem líkist mest He-man vinnur. Sú kvensa sem líkist mest Önnu Kristjáns vinnur. Þetta er sem sagt ofsalega skemmtileg keppni.

*Ég á slæmar minningar frá of miklum sólböðum. Í útskriftarferð MR-inga '98 á Ibiza hóf ég ferðina á ströndinni. Ég lagðist á einn bekkjanna í steikjandi hita og bolaði öllum ráðum vina minna um notkun sólarvarnar frá mér. Ég neitaði líka að snúa mér við og lá því á bakinu, án sólarvarnar, í 23 korter. Er ég vaknaði næsta dag var ég ein brunarúst og varð að halda mig innandyra til sólseturs eins og vampíra það sem eftir lifði ferðar. Ég gægðist þó stundum út á sundlaugarbakkann, enda blóðþyrstur af allri inniverunni.

Svona fór um sólferð þá.

sunnudagur, apríl 06, 2003

Ég lenti við hliðina á Birgittu í Írafári á ljósum um daginn, hún skoðaði sig vandlega í speglinum, hagræddi hárinu og dýfði vísifingri svo í nebbalínginn sinn og paut af öllum kröftum í nef sér, þangað til græna ljósið kom og hún brunaði af stað. Eftir þetta atvik þá hef ég ákveðið að hætta að bera óþol í hennar garð og þess í stað að líta á hana sem venjulega konu. Það hlýtur jú, þegar öllu er á botninn hvolft, að vera erfitt að vera Birgitta og vera alltaf jafn kát og hress undir öllum þessum farða. Hún ferðast um landið þvert og endilangt og annaðhvort heldur tónleika, dæmir í keppnum af ýmsu tagi eða prómótar heilbrigt líferni. Hvers vegna er það þá sem hún fer í taugarnar á mér? Þoli ég illa hversu "perfect" hún er eða auðmjúk kannski? Kannski er það hvernig hún talar eða greiðir sér eða spassast með aðra hönd til hliðar og hjólbeinast á sviðinu. Get bara ekki gert það upp við mig hvernig hún böggar mig. En núna veit ég að hún borar í nefið á ljósum eins og hver annar rassskorupípari og það færir hana niður á "allir hafa sína galla sviðið" og það er mér léttir.
Gó Birgitta Horborari!