mánudagur, mars 31, 2003

Flutningabílstjórar


Flutningabílstjórar eru afar undarlegur þjóðflokkur. Ég hitti einn slíkan er ég lagði hönd á plóg í familíuflutningum Ara á laugardag. Umræddur kauði er nokkuð undir meðalhæð, með bumbu, og virðist sem hver annar þjóðfélagsþegn í mannþröng, en undir velmegunarvömb hans liggja þéttsetnir vöðvar er bíða þess að verða notaðir. Ég hef kynnst nokkrum svona mönnum við marga flutninga og allir eiga þeir sameiginlegt að vera rótsterkir og fleygja níðþungum kössum og skenkjum til og frá eins og púðum. Bílstjóri þessi hékk inni í kagganum og fleygði í okkur flutningasherpunum húsgögnum og kössum eins og honum væri borgað fyrir það (honum var reyndar borgað fyrir það). Móðir og másandi töltum við sherparnir inn í bílinn og biðum eftir hlut til að flytja. Beið kauði þar iðulega sposkur á svip og sagði: ,,Hér er einn léttur kassi." og fleygði svo ,,létta kassanum", sem reyndist 97 kg og troðfullur af bókum, í mann og hendurnar byrjuðu að rifna af lömunum er þær náðu taki á honum. Svo skellihló hann og tautaði eitthvað um karlmennsku.

Það er fleira sameiginlegt þessari stétt manna en ógnarstyrkur, því þeir hafa flestir sérstakan húmor. Þessum guma fannst ofsa gaman að henda öllu lauslegu í hnakkann á okkur er við snérum baki í hann. Eitt sinn var ég og annar sherpi að bera þungan sófa út úr bílnum og máttum ekki við miklu hnjaski. Þá tók bílstjórinn einn púðanna og dúndraði í hnakkann á mótflytjara mínum. Brást sá hinn versti við og frussaði framan í bílstjórann ókvæðisorðum. Bílstjórinn stóð bara og lét þessi orð sem vind um eyru þjóta, enda finnst honum eflaust skrýtið að reiðast við svona aðstæður og skilur ekki að fólk vilji húsgögn sín heil úr flutningum.

Á Húsasmiðjudögum mínum hitti ég fyrir bílstjóra sem var ekki eins og fólk er flest. Karl sá var á þriðja tonnið, eigi geilegur, og kallaður ,,Kæfan" af lagermönnum. Ástæður þessarar nafngiftar kann ég ekki, en fannst mér hún þó passa vel við hann. Er karlinn keyrði inn á lagerinn, valhoppaði hann iðulega út úr trukkinum og keyrði bumbuna á undan sér í hjólbörum. Öndun hans var einkennileg og minnti á þýskan klámmyndaleikara í aksjón, volume 50. Manni þessum kynntist ég ekki vel, en fór þó einu sinni með honum að keyra út ísskápa. Það var lífsreynsla og heyrði ég ekkert í útvarpinu er hann andaði.

Þó undarlegir bílstjórar hafi verið efni pistils míns, þá hef ég hitt margan bílstjórann gegnum tíðina sem hefur verið eðlilegur og geilegur.

sunnudagur, mars 30, 2003

Á föstudagskvöldið var ég í fámennu en góðmennu partýi á Kárastíg nokkrum þar sem Kristín kom með nesti, Ágú var gluggakvendi, Ólöf bolmörg, Herdís drykkjuóeinbeitt, Tóta var tindilfætt, þar sem fyllin af Rúnari rauk og glöð var ég í hjarta mér. Elli álfur sat með okkur í eldhúsinu og yljaði sér um eistun meðan Krakádrengir, ókunnugir umheiminum bönkuðu og voru bjallaðir upp fyrir misskilning. Síminn hraung og lá leið fólksins niður í bæ (mínus Rúnar raft) en splúndraðist þessi hópur á u.þ.b. 20 metra radíus á einhvern óskiljanlegan hátt fyrstu skrefin í gleðina. Var ég samferða Herdísinni og Tindilfættu Tótunni áleiðis á óskemmtistaði miðbæjarins - 11 og Kaffibarinn. Lengi hef ég gert mér grein fyrir því, eða allt frá Thomsen tímabilinu víðfræga, að við stúlkur höfum misjafnar skoðanir þegar kemur að skemmtistöðum. Stoppuðum við því aðeins í nokkrar mínútur á skrýtna skemmtistaðnum 11 og héldum á Kaffibar til fundar við hitt fólkið úr partýinu. Nú hef ég ákveðið að spara stóru orðin um Kaffibarinn þannig að eftir u.þ.b. 10 mínútur þar á bæ var ég sannarlega tilbúin að vaða eld og brennistein til þess að sleppa þessu rugli. Heldur vildi ég að halda heimleiðis í faðminn minn skemmtilega og góða og stíga aldrei fæti inn fyrir dyr Kaffibarsins aftur.
Vona heitt og innilega að staðnum verði lokað sem fyrst og allir lifi hamingjusamir til æviloka - Ausa.

miðvikudagur, mars 26, 2003

Í dag er ekkert réttlæti til í heiminum. Frétti í félagsfræðitíma að það ætti að gera risaskýrslu í sálfræði fyrir morgundaginn. Ég sem var búin að ákveða að gera kraftaverk einverntímann seinna. Auglýsi því hérmeð eftir notaðri skýrslu um minni - tak så meget!
Mæli með því að menn sökkvi sér í bráðsnjallar greinar Þórðar Heiðars á deiglan.com og fái sér sjúss. Mússímússí!

þriðjudagur, mars 25, 2003

Það var frábær mynd á Sýn í gær með ofurstirninu Shannen Doherty úr Beverly Hills 90210 í aðalhlutverki. Þetta var ekta Sýnarmynd, varla stjörnu verð, og með undarlegum söguþræði. Myndin heitir Almost Dead og leikur Shannen sálfræðiprófessor sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á tvíburum. Þess má geta að Shannen var 22 ára þegar hún lék í myndinni og var þess vegna mjög markverð sem virtur sálfræðiprófessor, eða ekki. Annars hefur þessi mynd flest allt sem lélegar myndir hafa að bjóða.
Ég mæli með þessari mynd*.*Rómantískt háð.
í gær vorum við grjónin andvaka vegna Óskarsgláps á sunnudagskveld. Það er einmitt við slíkar aðstæður þegar við annaðhvort tölum og mölum endalaust og sofnum ekki fyrr en klukkan fimm. Eða þá að við snúum bak í bak og höldum hvort annað sofandi en erum í raun bæði glaðvakandi. í gær varð seinni ókosturinn fyrir valinu og þar sem ég hélt Jón sofandi fór ég að hugsa um skrýtnustu og óskrýtnustu hluti veraldar. Leiddi ég hugann að ættleiðingu samkynhneigðra, og hvað þeirra líf er nú oft á tíðum réttlaust. Í beinu framhaldi af því fór ég að hugsa um sílíkon og af hverju konur láta sig hafa svoleiðis ógeð. Ef maður hefur séð sýnt frá svoleiðis aðgerðum þá bókstaflega breimar sársaukameðaumkunin í huga og hjarta - ég meina þær geta ekki einusinni sofið á maganum for cræing át lád! Og hvað er það sem gerist ef þessar skvísur detta á ennið - og þar með bringuna - springur sílíkonstellið ekki bara í loft upp og þær drepast? Er það ekki þannig að þær þurfa með eða án slysa, á við ennisdett, að láta skipta um síló í þessu eftir einn áratug eða svo? Leiðinlegt væri að vera búin að skrifa þetta inná dagatalið sitt og hugsa til þess að í nokkra mánuði á meðan sílóið er að flytja inn og sárin að gróa að þær geti ekki gert neitt. Þær geta ekki sofið á maganum - nema það sé hola eða eitthvað fyrir brysterne. Ekki farið í snú snú (lífsnauðsynlegt) því þá myndu pokarnir væntanlega stinga af. Þetta er örugglega jafn sársaukafullt og fyrir úlfinn þegar veiðimaðurinn bjargaði Rauðhettu en fyllti mallann hans af steinum í staðinn. Ég meina´ða sko - þvílíkt VE S EN!

laugardagur, mars 22, 2003

Alltaf finnst mér ég læra jafn mikið af því að skrifa ritgerðir, þá alhliða þjálfun líkama og hugar. Í þetta skiptið var ég að skrifa ritgerð sem fjallaði um Trú/Aðskilnað ríkis og kirkju. Eftir að hafa aflað mér heimilda, þrælað mér í gegnum þær og melt þá hefur álit mitt á kirkju, sem var nú ekkert mikið fyrir, skriðið niður í holu og mælist einungis í Louiville tölum hér eftir. Las ég m.a. nokkrar greinar eftir biskup Íslands og aumingja hann, honum virðist nefnilega sem ég sé "andlega fátæk" og að ég væri "betur sett" með Jesú Kristi. Afar stangast okkar skoðanir á í alla staði, Kalli ætlar nefnilega að halda í ríkið af öllum lífs og sálar kröftum. Tásleikjan hans, hún Sólveig Péturs (dóms- og kirkjum.ráðherra) segir ríkið ekki vilja eiga fyrsta skrefið í skilnaðinum, það er nefnilega svo erfitt að skipta kirkjujörðum og prestssetrum á milli sjáiði til! Annað áhugavert atriði í þessu öllu saman er að mér virðist sem lög stjórnarskrárinnar um mannréttindi og verndun evangelísku lúthersku kirkjunnar séu ekki n'sync. Áhugasamir lesi stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands.
Oooog fyrst við erum farin að tala um lýðveldi þá finnst mér það ekki réttnefni fyrir okkar stjórnarfar. Við fáum nú ekki rönd við reist ef okkur finnst eitthvað athugavert við málefni og ákvarðanatökur líðandi stundar. Þeir sem hafa reynt með veikum mætti að mótmæla, annað hvort með hungurverkfalli (Bjarkarmútta) eða standa í rigningu og roki fyrir framan stjórnarráð eða alþingi, þykja bara fyndnir. Það eru sextíuogeitthvað prósent landsmanna sem eru fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju, samt hefur ekkert markvert gerst í þeim málum. Fólk er bara hætt að nenna að mótmæla óréttlætinu, því það stoðar ekkert. Álit fólks á þér er það eina sem breytist; "Voðalega er þessi alltaf neikvæð og á móti öllu".
Ég er á móti því að menn eins og biskupinn hafi eitthvað um örlög sambandins að segja (annars staðar en á blogginu sínu kannski), hann er jú bara að viðhalda fjárhagslegri stöðu þjóðkirkjunnar í skjóli þess að hann "vilji okkur vel" - je ræt - Karl er bara gamall eiginhagsmunaseggur með greindarvísitölu á við hor.
Guð hjálpi mér!

fimmtudagur, mars 20, 2003

Helvítis anskotans DHL má fara til fjandans og Finnlands fyrir mér! Skítbögglarnir og smokkdrjólarnir klúðruðu skólaumsókninni minni og barst hún þann sautjánda í stað þess fimmdánda. Aldrei í lífinu mun ég skipta við þessa fæðingariddjót sem vildu hvorki bæta mér skaðann né kyssa á mér rassinn - 4000.- krónurnar sem ég borgaði fyrir "hraðþjónustu" hefðu betur farið í buxurnar sem mig langar í. Þökk sé þeim hafa líkurnar á því að ég fái skólavist í Roskilde Uni hríðminnkað og munu þeir eiga mig á fæti það sem eftir er! Heimsku rottur!!!
Fyrir utan þessi leiðindi er allt ágætt að frétta af mér þar sem ég leitaði til vinkvenna í gær á Kárastíg og yljaði það mér um hjartarætur. Það eiga eflaust fáir jafn yndislegar vinkonur og ég.
Þúsund þakkir, kossar og allt það - elsk'ykkur!
Þá er sprengjuregnið hafið í Bagdad. Bush er ákveðinn í að berjast fyrir friði með stríði (einhver mótsögn hér?). Það er erfitt að búa yfir mesta her sögunnar og fá aldrei að sýna jarðarbúum mátt sinn og megin. Bjálfinn fær nú tækifæri til þess með innrás í sjálfstætt ríki, sem á víst að vera meiri ógn við heimsfriðinn en runninn í Kanalandi. Enginn ætti að velkjast í vafa um slæma stjórnarhætti og yfirgengishátt Saddams í Írak, en hvort það veiti Bandaríkjunum og bandamönnum rétt til innrásar í óþökk SÞ er ekkert vafamál. Þetta er ólögmæt innrás og eru allir sérfræðingar í alþjóðalögum sammála um það.

Í fréttum fyrir tveimur dögum sást yfirmaður 5. flotadeildar sjóhers Bandaríkjanna blása eldmóði í tindátana sína sem hrópuðu og kölluðu og voru æstir eins og leikskólastrákar á leið í byssó. Ég vona að menn geri sér grein fyrir alvarleika svona stríðs. Ætla Bandaríkjamenn eftir Íraksinnrásina að skipta sér af stjórnvöldum í fleiri löndum, sem ekki fylgja þeim að máli? Kannski vilja þeir Chirac burt vegna neitunarvaldsins. Þess má geta að Bandaríkjamenn hafa beitt neitunarvaldi í SÞ um tuttugu sinnum í málum er varða Ísrael, einkason Bandaríkjanna. Það er greinilega ekki sama hvort maður er Jón eða séra Jón.

þriðjudagur, mars 18, 2003

Jæja, nú er margt á seyði í öllum helstu þáttum Stöðvar 2. Nágrannar eru á toppi síns ferils þessa stundina og enginn þáttur kemst í hálfkvisti við þá. Nú virðist sem Carl sé ekki við eina fjölina felldur því Elly, hin 15 ára frænka Susan, telur hann föður sinn. Já, Carl er grunlaus og veit eigi af þessu. Ég sé fram á bjarta og spennandi tíma í Grönnum. Matt hinn vitgranni er enn í felum undan lögreglunni eftir að hafa stungið af frá spítalanum. Heimskur hann.

Amazing Race stendur nú sem hæst og rétt áðan duttu tvíburarnir út. Það var leiðinlegt því Flo og Zach eiga skilið að detta út, einkum vegna krónísks kjökurs og væls Flo. Hún er gríðarlega leiðinleg og sífellt tuðandi í Zach greyinu sem er á barmi þess að myrða hana. Nú eru þrjú pör eftir: Flo og Zach, Ken og Gerard og Ian og Terri. Ian og Terri eru hundleiðinleg. Flo er hundleiðinleg og þar með Flo og Zach. Ken og Gerard eru hins vegar bráðskemmtilegir og vil ég sjá þá fara alla leið.

Nú er gott að kommentin séu ekki komin í lag, því þá myndu einhverjir óprúttnir náungar nýta sér þann kost til að rakka Granna niður. Ekki er hægt að rakka þann dýrindisþátt niður. Hann býður upp á spennu, drama, frábæran leik, frábært handrit og síðast en ekki síst frábæra leikstjórn.

fimmtudagur, mars 13, 2003

Þegar maður hefur ógeðslega mikið að gera þá verður maður oft bara svona stjarfur og kemur engu í verk. Stjarfinn er viðvarandi ástand þar til maður, af einhverjum óútskýranlegum ástæðum, klárar verkefnin í stjarfaálögum og þá leysist geðveilan upp og maður veit hvorki haus né sporð og fer í spariskapið.
Til dæmis var ég í versta skapi heims í dag og hegðaði mér eins og Kelly Osbourne og Flo í Amazing Race til skiptis og það er sko ekkert smávegis sem gengur á þá. Ég var að fylla út KOT umsókn (skólaumsókn til Danmerkur) og það gekk bara svo illa! Þurfti ábyggilega að henda svona 7-8 eyðublöðum vegna smávægilegra mistaka, eins og til dæmis þegar ég skrifaði Thorborg í stað Thorbjorg, gleymdi stöfum inn á milli hér og þar og skrifaði of stórt fyrir ör-reitina sem eru ALLT OF litlir notabene! Ég var farin að reyta af mér fúkyrði og hár af haus - og það af einskærri geðvonsku og KellyOsbournesku. Auuumingja Jón segi ég nú bara - hann var eitthvað að reyna að róa mig niður en það eina sem mig langaði að gera var að ausa úr skálum reiði minnar yfir einhvern sem hefði unnið til þess - vona að Jón beri barr sitt eftir kast mitt... En umsóknin er allavega á leið til Roskilde fyrir aðeins tæpar fjögurþúsundkrónur - never again DHL!
Kisses from Kelly xxx

þriðjudagur, mars 11, 2003

Sumir hafa gaman að videoglápi og horfa jafnvel á 4-5 myndir sama kvöldið. Sumir hafa gaman að videoglápi en endast samt afar stutt. Til síðari flokksins teljast foreldrar mínir. Fyrir um þremur árum áttu pabbi og mamma við hvimleitt vandamál að stríða, þ.e. þau tóku annan hvern dag 2-3 spólur, en náðu í mesta lagi að glápa á eina þeirra. Mamma sofnar nefnilega þegar pabbi kemst í 7,4 attómetra radíus við play-takkann á videofjarstýringunni og pabbi smitast yfirleitt af mömmu og sofnar stuttu seinna. Ég sendi þau bæði í videospólutökuafvötnun í Surtsey og hafa þau verið róleg síðan.

Um helgina kom hins löngunin aftur upp í þeim og tóku þau 3 spólur á föstudaginn. Ég var niðurbrotinn maður er ég komst að þessu og hafði samband við forystumanninn í Surtsey sem ráðlagði mér að ræða þetta í rólegheitum við þau. Ég tók hann á orðinu og kallaði foreldra mína á fund. Ég sagði þeim mína hlið mála, þ.e. ég væri óánægður með að þetta vandamál skyldi vera komið upp aftur, en þau brugðust ókvæða við og vísuðu ásökunum mínum á Baug og sögðu Jón Ásgeir hafa sagt þeim að taka þessar spólur. Ég veit hann sagði þetta í hálfkæringi. Fundarhöld fóru út um þúfur og voru báðir fundaraðilar ósáttir með niðurstöðuna. Mamma og pabbi héldu beinustu leið inn í stofu, skríkjandi eins og leikskólakrakkar, og settu fyrstu spóluna í tækið. Ég fylgdist með þeim gegnum gervitungl og brátt fór allt á þann veg er ég hafði spáð. Pabbi náði í fjarstýringuna og í sömu andrá þyngdust augnlok mömmu það mikið að þau skullu á hvörmum hennar og hélt hún á fund Óla Lokbrár. Pabbi smitaðist og fylgdi henni í draumalandið.

Föstudagskvöldið endaði með því að þau horfðu ekki á neina spólu. Laugardagsmorgunninn hófst með látum. Voru foreldrar mínir staðráðnir í að bæta fyrir kveldið á undan með maraþonglápi, en allt brást sem áður fyrr og héldu mamma og pabbi til rekkju án þess að hafa videomynd augum barið. Sunnudagurinn var sektardagur fyrir spólurnar og nú var að duga eða drepast hjá þeim. En eins og með aðra videospólutökufíkla enduðu þau með að skila spólunum, óáhorfðum, á þriðja degi og borga sekt. Þessu hafði ég spáð en nýtti mér engu að síður tækifærið og glápti ásamt Auði á tvær af spólunum meðan foreldrar hrutu hátt. Önnur þeirra var hin sænska Tillsammans og var hún mjög skemmtileg. Mæli með henni. Þá er sagan búin.

mánudagur, mars 10, 2003

Mikið getur hann Jón minn verið yndislegur - þvílíkur fróðleikur sem vellur úr ginnungargapi hans. Hann flengdi Sverri allavega dálaglega með svitarökum nærbuxum, og samkvæmt þeim skilningi sem ég hef öðlast á einkennum einhverfu þá tel ég líklegt að Jón sé 1/100 einhverfur. Auðvitað er hann 99/100 elskulegur og fyndinn og líka ýmislegt annað sem ég ætla eigi að tíunda né níunda hér.
Óska ykkur öllum mátulegs mánudags og þróttmikils þriðjudags...

sunnudagur, mars 09, 2003

Um jarða og jónir


Sverrir Hermannsson var í viðtali á Stöð 2 áðan og blaðraði um Decoderíkisábyrgðina. Nefndi hann þar 20 billjarða sem ríkið þyrfti að leggja út ef í hundana færi. Ég ætla rétt að vona að ríkisábyrgðin sé ekki 20 billjarðar (billjarður er 1015 kr. = milljón milljarðar króna), því það jafngilti að hver landsmaður þyrfti að borga 70 milljarða og 671 milljón króna til Kára og kumpána. Þessir jarðar og jónir, þ.e. milljónir, milljarðar, billjónir o.s.frv. virðast vefjast of mikið fyrir alþýðu manna. Íslenskir jarðar og jónir eru ekki þau sömu og í Bandaríkjunum, en þar á enska orðið billion við um íslenska milljarðinn (109). Oft rekst maður á ranga þýðingu orðsins billion í fréttum sjónvarps og blaða og hefur DV t.d. stundum sagt fótboltakappa keypta á tvær billjónir þegar rétta verðið er í raun tveir milljarðar. Þarna munur talsvert miklu. Í eftirfarandi lista geta jarða- og jónaáhugamenn (og konur) séð hið rétta í tölunum.


 • Þúsund = 103 (e. thousand)
 • Milljón = 106 (e. million)
 • Milljarður = 109 (e. billion)
 • Billjón = 1012 (e. trillion)
 • Billjarður = 1015
 • Trilljón = 1018
 • Trilljarður = 1021
  .
  .
  .
 • Sentilljón = 10600


Sentilljón er stærsta talan í þessu kerfi og engin ástæða til að búa til stærri tölur. Ég vona nú að Sverri gamli gæi átti sig á hve mikla hann telur ríkisábyrgðina, þ.e. 20 billjarða. Hið rétta er að ríkisábyrgðin er 20 milljarðar króna (milljón sinnum minna en 20 billjarðar).
Vildi að ég ætti peningatré því þá gæti ég gert svo mörg góðverk. Gefið Bon Jovi fyrir klippingu, Courtney Love fyrir mannasiðum og Jim Carrey fyrir beinum. Svo gæti ég kannski kíkt aðeins í heimsreisu með Jóninum, við gætum svo keypt íbúð innan skikkanlegs tíma (innan tveggja ára) og innréttað íbúð oss í fínustu flimtingum. Ég var einmitt að skoða potterybarn.com og með sanni má segja að það sé eigi hættulaust.
Ég held samt að ef ég ætti péníngatré þá myndi mér ekki líða vel með sjálfa mig - kannski smá eftir góðverkin en ekki eftir innréttun og kaup á alltof flottri íbúð í miðbæ Tók í ó, húss í Toscana og þakíbúð í downtown Reykjavík. Neeei frekar vil ég puða og snuða, skulda og muldra, elska og velska og náttlega vinna fyrir einhverju sjálf. Þá fer maður líka að hugsa - you only live once. Ég nebblega held ekki að ég súi aftur eftir þetta líf sem hrossatað, tapír eða Fríða Jósteins í fríkadelluáti í Svíþjóð - ég held nebblega að maður fái bara einn sjéns. Einn sjéns til þess eins að uppfylla væntingar samfélagsins, fjölskyldunnar og manns sjálfs til sín.
Mér virðist oft sem Íslendingurinn berjist í bökkum við að meika'ða...? - í beinu framhaldi hjótum við þá að spyrja hugartetrið að því hver og hvar mælistikan á meikið sé. Er ég búin að slá í gegn þegar ég næ menntunartakmarki? (uuu - aldeilis ekki!), en þegar ég er búin að puða í vinnu minni og á pínu péníng?(neits!), en þegar ég er búin að eignast börn og svoleiðis júnít komið í gír? (þá er það uppeldið og stöðugt viðhald péníngavaxtar)...
Djöfuls röfl alltaf í mér!

laugardagur, mars 08, 2003

Ég varð fyrir afar óheppilegri reynslu áðan - það sigtaði mig einhver msn brjálæðingur út, setti mig á contact listann sinn og viti menn fór svo bara að gefa mér undir fótinn og kíkja upp undir pilsið svona að mér óspurðri. Svei sagði ég þá! þú ert bara hortittur og lúser (á enskunni náttlega) og ég er stelpa sem vil bara ekkert tala við þig. Svona fuss og svei og burt með þig. Kemur þá í ljós að viðkomandi er einnig með bryster og svoleiðis græjur og er bara að lessast inná mig og mína. Já þá bauð ég hana velkomna - komdu gakktu inn í bæinn sagði gæjinn - ég hef enga húfu á þig væna mín. Svona fyrir kurteisissakir já sei sei!
Góða helgi Helgi!

föstudagur, mars 07, 2003

Grátur og gnístan tanna,
ungra og enn yngri svanna.
Heyrast um helgi þessa,
ó prestur viltu mig blessa?
(viðlag) - sja sjússí sja,
sja sjússí sjei - la la la la la la

Gamma pamma lamma slamma mamma!

fimmtudagur, mars 06, 2003

Í dag var ég ofur proffi og vakti mikla aðdáun viðstaddra með hnyttni í bland við einskært rúl. Gerðust þessir atburðir í félagsfræði hjá Hannesi, sem mér finnst hrikalega fyndinn maður að öllu leyti. Hann byrjaði tímann á því að krefja þá sem áttu eftir að skila einhverju helv... verkefni svara - og var mitt svar á þá leið að ég væri að gefa út ljóðabók á netinu og ég færi beint í verkefnavinnu að afrekinu loknu. Ha - ha! Fyndin ég, nema hvað að hann trúði mér og allur nemendaskarinn líka - þekkja greinilega ekki minn húmor - flúor. Undo! Sagðist ætla að gefa honum upp slóðina á netljóðabók minni um leið og ég skilaði af mér verkefninu... ætla sko pottþétt að gefa upp bloggsíðuna hennar Rósu, http://thedailynagging.blogspot.com/ en hún gengur undir nafninu "Engla" þar á bæ. Úff! Mér finnst þessi síða svo fyndin að ég græt þegar ég skoða hana, Rósa rúlar! Kannski þarf maður samt að vita hver þetta er til þess að finnast þetta svona *grát grát* fyndið - en æ og ó hvað ég ligg þegar ég les Rósutal.
794 rokkprik til Rósu!

miðvikudagur, mars 05, 2003

Dagskráin á Stöð 2 í gærkveldi var ekki upp á marga fiska, jafnvel engan fisk. Fyrri hluti framhaldsmyndar mánaðarins, Atomic Train, var sýndur í gær og verð ég að blaðra eilítið um það sorp. Þetta var ein lélegasta mynd sem ég hef séð og uppfull af formúluatriðum. Rob Lowe, hinn mikli B-myndaleikari (og West Wingari), Kristin Davis (Charlotte í Sex and the City) og Mena Suvari (American Beauty) léku stóru hlutverkin í þessum fyrri hluta (og gera það líklega í seinni hlutanum). Myndin fjallar um lest sem verður bremsulaus og reynist hafa kjarnorkusprengju í farmi sínum. Hún stefnir á Denver, Colorado, á ógnarhraða og verða menn og mýs að stöðva hana svo 3 milljónir Denverbúa deyi eigi. Rob Lowe leikur lestarslysarannsóknarmannin John Seger, Kristin Davis konu hans og Mena Suvari dótturina. John Seger er sendur á vettvang í þyrlu og hoppar á lestina á 180 km hraða. Upp frá þessu hefst æsispennandi atburðarás; hetjur koma fram á sjónarsviðið, óeirðir verða í Denver, þar sem fólk gengur berserksgang, forsetinn fundar með yfirmönnum hersins sem vilja sprengja lestina og margt fleira. Í miðju æsingakófinu, þegar lestin nálgast Denver, var klippt á myndina. Fyrri hlutinn var búinn. Stöð 2 hefur greinilega keypt sjónvarpsmynd og búið til framhaldsmynd úr henni með því að klippa hana í tvennt. Vel gert Stöð 2 og fagmannlega unnið.

Eftir fróðlegt viðtal við Saddam í 60 Minutes var komið að gullmola kvöldsins, kvikmyndinni Virus. Ég hélt það væri ekki hægt að botna Atomic Train, en mér skjátlaðist þar. Virus, með stórleikarana Jamie Lee Curtis, Donald Sutherland og William Baldwin í broddi slakrar fylkingar, er arfaslök og talsvert slakari en Atomic Train. Hvernig er það hægt? Það er vel hægt og ekkert mál ef þú gerir mynd um raflífverur utan úr geimnum sem hertaka rannsóknarskip og fara í stríð við áhöfnina. Þannig er söguþráður Virus í hnotskurn.

Ofantaldar myndir komast á minn topp 10 lista yfir slæmar myndir. Á toppnum á þeim lista situr Trois sem ég og Auður ösnuðumst til að taka fyrir nokkrum mánuðum. Oft er flagð undir fögru skinni og reyndist mikið flagð undir fögru hulstri Trois. Myndin fær hvorki meira né minna en 2,7 af 10 mögulegum í einkunn á imdb og segir það ýmislegt um gæði þessarar myndar. Söguþráður Trois er einkar undarlegur og gloppóttur og algjörlega í ósamræmi við það sem stendur aftan á hulstrinu. Ég vil ekki rekja söguþráðinn, enda man ég hann illa sem betur fer.

Ég hvet alla unnendur slæmra mynda að verja andvökunótt í þessar myndir.
Var rétt í þessu að koma úr félagsfræði 203 þar sem ritgerðarverkefnið okkar var skeggrætt. Samkvæmt fyrirmælum eigum við að vera tvö saman og brjóta á almennum vettvangi félagslegt viðmið. Sem dæmi um slíkt má nefna: - að kaupa bensín fyrir 10 kr. á bensínstöð. - að þéra fólk. - að þakka fyrir sig í búð með handabandi. - að prútta í hinum ýmsu verslunum. (t.d. í Hagkaup eða Sautján). - að máta föt fyrir utan mátunarklefa. Ég er að hugsa um að sérhæfa mig í hvers kyns viðmiðabramli þar sem mér finnst þetta afar sniðugt. Viðmið samfélagsins fara stundum bara í taugarnar á mér þannig ég ætla að vera svona eins og OfurGuffi, nema að ég brýt viðmið í stað þess að bjarga íbúum Músabæjar.
Skora á Jón í þetta með mér - fyrsta markmiðið verður að kela ógurlega í rúllustiga Kringlunnar og reyna að borga í öllum búðum með rússneskri rúblu.

þriðjudagur, mars 04, 2003

Merkilegar fréttir úr draumalandi mínu bárust mér í gær. Ég var í þetta skiptið að fara í freestyle ásamt vinkonu minni, sem hafði ekkert andlit, og tveimur vinum. Annar vinurinn var á sjó með pabba og pabbi var í draumnum eitthvað hastari og hvassari en hann er í "real life" - harður yfirmaður sumsé. Ég og vinkonan og vinirnir vorum á leið í freestyle og við fórum á Skódalíngnum og lögðum þarna í bílastæðahúsinu á móti Kramhúsinu. Út stigum við og röltum oss í freestyle-inn og Yasmen (kennarinn) sagði bara fýrunum að vera með líka. Kemur svo undarleg staðreynd úr ímyndunarafli mínu fram þar á eftir og er sú að annar drengjanna var Jerzy Dudek, markvörður Liverpool!
Já það er mikil gæfa að hafa bilaðan haus og dreyma svona undarlega, lífgar upp á hversdagsleikann að eiga vini sem Jerzy svona í rassvasanum.
úúú á Mantjéster Júnæted - áfram Dúdek!

mánudagur, mars 03, 2003

Ég las í Fréttablaðinu um daginn að einhver kauði í Florida í Bandaríkjunum vildi breyta nafninu á frönskum kartöflum í ég man ekki hvað. Hann vildi a.m.k. hætta að kalla þær franskar kartöflur sökum þess að Frakkar hafa aðra skoðun en Bandaríkjamenn í Íraksmálinu. Kauði þessi er alveg bandbrjálaður út í Frakka; að þeir skuli voga sér að hafa eigin skoðun á þessu viðkvæma Íraksmáli. Já, þeir Kanarnir mega nú aðeins lækka í sér rostann og hætta að líta á sig sem boðbera alheimssannleikans. Það eru fleiri þjóðir í heiminum en Bandaríkjamenn sem hafa atkvæðarétt í mikilvægum málum og ber þeim að hlusta á þeirra sjónarmið, ekki valta yfir þau.

Í 60 Minutes um daginn endaði Andy Rooney þáttinn sem áður. Undantekningalaust hefur hann gert það vel og skemmtilega, en í umræddum þætti skaut hann upp í stúku. Í pistli sínum var hann að tauta og tuða um afstöðu Frakka í Íraksdeilunni. Var ellismellurinn á því að Frakkar hefðu engan rétt til að hafa aðra skoðun en Kanar á málinu og nefndi í því samhengi innrásina í Normandy (D-Day). Sagði Andy Rooney að Frakkar ættu að vera þakklátir Bandaríkjunum fyrir að frelsa þá undan Nasistum og sökum þess ættu þeir að vera á þeirra bandi núna. Virðing mín fyrir Andy Rooney hvarf, eftir þennan pistil, út á ballarhaf. Farðu á Grund gumi minn áður en þú bullar meira! Þar sem Rooney vitnar í söguna, ættum við þá ekki að minnast skerfs Frakka í Frelsisstríðinu í Bandaríkjunum? Ættu Kínverjar enn að vera reiðir út í Mongóla vegna innrásar þeirra fyrir 700 árum? Eiga Íslendingar að vera fúlir út í Breta vegna Þorskatríðanna? Andy, hættu að tala!

Annars er ég ánægður með að tyrkneska þingið skuli hafa ákveðið að leyfa Bush ekki að nota Tyrkland sem bækistöð fyrir tvöhundruðþúsund manna tindátaleikinn hans. Svarta gullið heillar svo mikið að Bush vill drepa Saddam til að komast yfir það. Ætli Bush sé ekki bara meiri ógn við heimsfriðinn en Saddam?