fimmtudagur, febrúar 27, 2003

Skítamórall strikes back...(hulk)...(snökt)


Jæja, sei sei nei nei hei hei, í gær héldu hnakkar hátíð sína og gáfu frábærum hljómsveitum verðlaun. Þeir sem ekki ráða dulmál mitt mega snúa aftur í U-571 kafbátinn með Matta Konnason, aðrir vita að ég tala um Hlustendaverðlaun FM957. Írafár malaði aðrar sveitir mélinu smærra og þurfti Bigga Hauk að panta Hercules-þyrlu undir alla verðlaunagripina sína; gott hjá Biggu Hauk og kumpánum. Þetta var svart kveld að mati sumra, en ljósið í myrkrinu var endurkoma hinnar eiturskemmtilegu hljómsveitar Skítamórals (þessi málsgrein skal lesin undir áhrifum rómantísks háðs). Skímó átti kvöldið og þurftu tylftir manna frá að hverfa sökum eyrnabólgu eftir píkuskræki ungkvenna. Svo miklir voru skrækir píknanna að ekki heyrðist ómþýður söngur Einars Ágústs (hjúkk) á sviðinu og sendiherra Nepal hefur ráðið þrjár skrækustu píkurnar í vinnu sem nepalskar almannavarnarflautur í Himalaya. Heppinn verður Haraldur Örn ef hann klifrar næst upp Everest á lóðaríi.

Já, þær eru ankannalegar þessar skjátur sem tilbiðja Skímó. Ég á bágt með að skilja aðdáendur þessarar hljómsveitar, enda er hún gerilsneydd hæfileikum. Lögin hvert öðru leiðinlegra og Ertu þá farin er líklega skásta lagið þeirra; það segir margt. Eins og Auður nefndi hér að neðan var sorpsveitin Á móti sól tilnefnd fyrir besta lagið (Keyrðu mig heim). Þessi tilnefning segir talsvert meira um hlustendurna en hljómsveitina því þeir velja þá sem eru tilnefndir. Ég held að Keyrðu mig heim sé versta lag sem samið hefur verið af Frónbúa síðan bandið Smjörbolli kom með smellinn Það eru öll ljós kveikt...það er bara enginn heima. Íslenskar popphljómsveitir eru upp til hópa arfaslakar og ættu að halda sig við partýgítarinn og sleppa breiðskífunum.

Annars held ég að tími sé til kominn að ég sleppi gripinu af partýgítarnum og syngi mig inn í hjörtu landsmanna með einni vænni breiðskífu næstu jól.
Er að læra fyrir sögupróf og orðin ansi þreytt í rassinum vegna stólsins sem ég sit á - sem er notabene gamli barnastóllinn hans Jóns. Ætla nú bara að leggjast á koddann eftir nokkrar mínútur en þarf aðeins að dásama vini mína, sem eru alveg yndislegir! Var nefnilega að pæla í því um daginn hvað við værum nú öll orðin gömul og fullorðin - og hvað ég er mikill afturhaldssinni í hjarta mínu.
Þórhildur og Ágústa voru fyrstar í baslið og heimili þeirra og athvarf okkar stúlknanna til margra ára, Holtsgata 17, er hlaðin minningum um partý, spjall og allt þar á milli. Þar hafa nú ýmsir dvalið, til lengri eða skemmri tíma. Rut bjó þar ´97 (?), Ólöf ´00 (?!) og ég man nú eftir því þegar ég vildi frekar sofa þar en heima. Frægir menn hafa líka lagst til hvílu (ekki hinstu þó) í bólum þar á bæ og má helst nefna K.K. (eða kom hann bara í spólu?), Ottó Rafn, Ómar Berg og ýmsa og ansi marga í viðbót. Hér vil ég þó taka fram að ég er ekki að ræða neitt sem tengist mökun manndýrsins, heldur bara gestagang og ekkert annað.
Ýmslegt hefur verið fengið að láni frá borgarbúum og landbyggðarfólki til þess að gera búskapinn bærilegan. Má sem dæmi nefna naglaspýtuna sem Þórhildur labbaði með um meirihluta vesturbæjar og fann loks góðan stað fyrir hana á svölunum hjá sér. Einnig má nefna skóflu, áburðarpoka og síðast en ekki síst Irish coffe glös sem sponseruð voru af Hótel Heimi...? Allt hlutir sem vildu segja skilið við eigendur sína og beinlínis báðu um flutning.
Rut og Stebbi! ef þið lendið í kröggum og vantar skóflu eða eitthvað slíkt þá megið þið vænta skjótrar og áhrifamikillar aðstoðar sérvalinna fagkvenna og sérlegra aðstoðarmanna þeirra.
Takk fyrir uppeldið og árin stelpur (Ágústa, Herdís, Kristín, Ólöf, Þórhildur og síðust en ekki síst Rut)- luv yas!

miðvikudagur, febrúar 26, 2003

Jón minn benti mér á athyglisverða en jafnframt sorglega staðreynd áðan þegar ég sat við lestur fréttablaðsins. Lagið "Keyrðu mig heim" með óhljómsveitinni á móti sól er tilnefnt sem "lag ársins" á effemm hlustendaverðlaununum. Jeminn eiiiini segi ég nú bara! Eru iddjótarnir sem komu þessu lagi í hlustendaverðlaun heyrnarlausir með öllu?! Gátu þau ekki heldur lesið textann - keyrðu mig heim, ég er fullur, kemst ekki sjálfur heim - þetta er sumsé allur texti lagsins og bara teygður og gaulaður í 2-4 mínútur. Nú ætla ég að fara að ná í minn réttláta skerf úr hafi tónlistarinnar, ég hlýt að ná lengra og geta samið betra lag en þetta skrum. Ennfremur vil ég benda á að hljómsveitirnar Englar og Ber eru tilnefndar sem "nýliðar ársins" - ÚFF! Mæli með því að áðurnefndar hljómsveitir prófi nýjan leik á meðan þau bíða eftir verðlaunum fyrir sín verk. Í stuttu máli gengur leikurinn út á það að halda niðrí sér andanum þangað til þau geta ekki beitt rödd né hljómlistarbölvun sinni á almenning framar. R.I.P.!
Megi FM vernda ykkur og blessa í nafni Svala, Einars Ágústs og Heilags Austmanns - Ómen!
Ég held bara að kennaralið skóla míns sé að missa eyrun af kreisíleika. Þrjár ritgerðir settar fyrir í sömu viku og dedlæn á þeim öllum í mars! Þessar ritgerðir þurfa náttúrulega allar að vera heimildaritgerðir og óbjóðslega erfið efni sem um er fjallað. Ég er barasta búin að fá NÓG, þetta er brot á 3. grein 45. liðar í mannréttindasáttmála Frýnmenmóníu - settur saksóknari fyrir mína hönd verður Ari Karls og mun hann vafalaust skóta liðið í kaf!
Ef einhver er að leita að mér þá verð ég annaðhvort undir bók eða á internetinu smærandi sem pónýhestur á Porthos.
Sjáumst í apríl!

mánudagur, febrúar 24, 2003

Á árshátíð Stiguls kenndi margra grasa en einkum þó jakkafataklæddra ungmenna og kjólklæddra ungkvenna. Fyrir árshátíðina var bjórþamb eða "fordrykkur" eins og Stiglarnir segja. Boðið var upp á bjór og snakk en eitt var það sem stakk mig sem títuprjónn í handlegg - það voru u.þ.b. grilljón stráksar en aðeins fimm kvendi og þá tel ég barkonuna með. Jákvæð hlutföll fyrir síngúl vimmen og bæjara af ýmsum kynjum.
Eftir alla tvo bitana sem ég borðaði af kjúklingabringu mér (uuu - Jón!) - vorum við hjónin ansi hreint kát og ple. Allt allt of margir peningar runnu í sjóð einstæðra barþjóna sem prísa sig sæla af verulegum fjármunum sem runnu úr vösum fátækra línþega... Eitt furðulegt gerðist þó á árshátíðinni og það var þegar ég missti sms málið. Af einhverjum ástæðum vorum við Þórður Heiðar (bróðir Jóns) að skiptast á orðum í sms formi. Ég var greinilega að leita að "réttu" orðunum - en fann ekki, held ég.

"Nei hei mei! En thú Túlímú, átt kólómó? Eða hvað? - kveðdja mávalín guðjónsdóttir."
...og hitt sms-ið sem Þórði fannst víst enn óskiljanlegra! (hemm)

"Ek er kringur iki miki liki sjoj sjoj. Kvendi áttu kjæst í mysulíng eki sandt? Myjó m"

Kannski hitti ég skiptinema frá Frýnmenmóníu með bullu í stað drullu sem sagði mér að gera og segja þetta - eða barþjónninn eitraði fyrir mér!?
Sjasjússísja sjasjússísjei la la la la la la la!
Þríhyrningskramparnir miklu


Löngum hef ég verið mikið krampadýr og fæ í tíma og ótíma (aðallega ótíma) mikla sinadrætti og aðra krampa. Í gær fékk ég stærðarinnar sinadrátt í kálfann við sjónvarpsgláp og stífnaði fótur minn upp sem reður á víetnömskum viagraróna. Hrópaði ég á Auði til að teygja á kálfanum, en fékk þess í stað sinadrátt í nárann í kaupbæti. Lá ég þarna í sófanum stynjandi sem storkur í bílapressu og Auður fann engar aðferðir til að teygja á mér.

Þegar ég æfði fótbolta átti ég til að fá krampa á þrjá staði í einu: Einn krampa í hjartað og tvo í magann. Þetta kom oft fyrir og hóf ég að kalla þetta krampaferli þríhyrningskrampana miklu, þar sem þeir mynduðu jafnhliða þríhyrning á maga mér. Var þetta iðulega mjög óþægilegt og þar sem ég hafði einungis tvær hendur (og hef enn) þá gat ég bara þrýst á tvo krampa í einu og lék sá þriðji lausum hala. Ég þurfti að fá hjálparhönd fyrir þriðja krampann. Síðan ég hætti að æfa hafa þessir þríhyrningskrampar ekki sagt skilið við líkamann minn, þvert á móti; þeir birtast nefnilega við gríðarleg hnerriköst. Ég læt mér ekki nægja að hnerra einu sinni, heldur a.m.k. 10 sinnum (metið mitt er 21 sinni) og í kjölfar þessara hnerrikasta fæ ég þríhyrningskrampana miklu. Þetta er mjög hvimleitt og til að losna við þessa krampa þarf ég að fetta mig og bretta eins og skrykkdansari á lóðaríi. Þetta getur komið fyrir hvar sem er, hvenær sem er, og þetta kom einmitt fyrir í dag. Ég og Auður vorum í Nettó í Mjódd og er við gengum út úr grænmetisdeildinni þar hófst skothríð úr nösum mínum. Ég fékk heljarinnar hnerrikast (á bilinu 8-11 hnerrar) og í kjölfar þess birtust þríhyrningskramparnir miklu. Nú þurfti ég að fetta mig og bretta til að losna við þá, en búðin var full af fólki og ég í vanda staddur. Hefði ég farið að fetta mig á miðju gólfi, fyrir framan alla, þá væri búið að leggja mig inn á Kópavogshæli nú þegar. Ég þurfti að leyna þessum fettum og brettum og gekk kengboginn, með brjóstkassann fram, að næsta gangi þar sem færri sálir leyndust. Náði ég þar að losa mig við krampana með minnstu athygli búðarrápara.

Ég hef búið til krampaskalann, Kramp (stig 1-10), til að lýsa þessum krömpum og er þar tekið tillit til sársauka og lengd krampanna. Þríhyrningskramparnir í Nettó í dag mældust 7,5 stig á Kramp. Ég hef fengið þá betri og verri.

laugardagur, febrúar 22, 2003

Ég, Auður og Halldór skelltum okkur á Gangs of New York í gær. Þetta var fínasta mynd, eilítið slakari en ég bjóst við, enda fannst mér vanta einhvern neista í hana. Daniel Day-Lewis var frábær sem William Cutting a.k.a. Bill "The Butcher" en leikaraliðið var annars mjög gott. Mér finnst þessi mynd ekki eiga skilið að fá Skarann fyrir bestu myndina. Þann titil á LOTR að fá, sama hvað gumar og gellur tauta og raula. Akademían er annars svo undarleg familía og velur eflaust ekki LOTR sökum þess að hún er ekki nógu fáguð og of mikil ævintýramynd.

Annars er ég á leið á árshátíð Stiguls, Hvarfs, Hnallþóru og Haxa í kveld. Skal ég teyga mjöð sem hottintotti í hamskiptum og hleypa útlimum mér á skeið á dansgólfinu. Á undan er fordrykkur í lögreglusalnum og mun þar allt verða eyðilagt í hamslausum múgæsingi gegn lögregluvaldinu. Táragasi verður beytt gegn trylltum teygurum er mega sín lítils gegn legíónum löggunnar. Múgurinn heldur svo í Auðbrekkusalinn í Kópavogi og snæðir snigla og kóalabirni í kveldmat. Þar mun Óli Palli þeyta skífum og sína skrykkdans milli forréttar og aðalréttar. Eftir ámu af bjór og tunnu af tequila mun stórhljómsveitin Stóri Björn spila fyrir dansi og mjaðmahnykkjum manna og kvenna. Er karlar kenndir verða halda þeir á vit ævintýra í Bæheimi og berja dyra á börum bæjarins. Svannar svitna og svolgra safann, og ferómónið fælir engan nema nátthrafna og nákomna ættingja. Frónbúar frjósa í frostköldu næturhúminu og fáfengilegir froðupopparar fleyta kerlingar í vatnsrúminu heima, meðan aðrir andans menn bíða eftir taxanum titrandi af kulda.

Freygáta leggur við höfnina og ungar villimeyjar breima við borðstokkinn. Tindátar teygja sig til þeirra og daðra þær upp á dekk. Erlendur Hermannsson kemur í heiminn og leitar uppruna síns. Á meðan tryllum við Auður lýðinn með lostafullum lambadadansi og beitum táragasi á andsetna aðdáendur er ásækja okkur.

Svona er Ísland í dag!

miðvikudagur, febrúar 19, 2003

Lengi hefur mig langað að prófa að vera með topp. Ekki svona amerískan mellutopp sem er næfurþunnur og samanstendur af max 11.5 hárum, heldur massatopp. Ég er sumsé búin að vera að skærast á toppinn á mér með reglulegu millibili heimavið og nú er ég eiginlega bara komin með topparann sem ég er ánægð með - til hamingju ég! Annars var Ólöf hjá mér áðan í prufumálun svokallaðri. Hún er einmitt að fara á árshátíð K.Í. á morgun og ég fæ að mála snoppu snótarinnar fögru. Tókst bara með ágætum held ég, enda hef ég stríðsmálað mig með reglulegu millibili frá hálfs árs aldri.
Svandís vinkona kom líka í dag og tíndi vel valin föt úr skáp mér fyrir sína árshátíð, sem kallast notabene Bifróvísíón, og verður haldin á laugardaginn. Almennilegheit mín hafa augljóslega borgað sig og bauð fraukan mér bara á herlegheitin á laugódagó og líst mér bara ágætlega á. Kannski enda ég bara á rokkinu á Bifröst og held coveri mínu þar, sem sænskur skiptinemi frá Bangladesh í Colorado fylki í suðurhluta Kína - og af albínóakyni.
Enívei - ble ble og kossar til ykkar allra kæru vinir.
Ég virðist vera komin með gænýjan sjúkdóm. Í honum felst sú þörf eða heimska að smella með músinni á X takkann, efst í hægra horni í stað þess að smella á SEND eða post and publish. Þetta er sko alveg hrikalegt! Áðan var ég búin að skrifa ógislega langt meil, búin að fínpússa, fara yfir mögulegar stafsetningarvillur - bara eins og maður gerir alltaf - ooooog heimska sjúka ég loka fokking glugganum í stað þess að ýta á send! Svo fer ég á minn elskulega blogger, skrifa margt skemmtilegt og vonandi fyndið og í stað post and publish loka ég bara helv... glugganum.
Ég er bara svo mikill blettatígur!

þriðjudagur, febrúar 18, 2003

HARIBO*

Ég á mér draumastarf. Þetta starf felst í yfirsmökkun hjá HARIBOverksmiðjunni. Hver kannast ekki við HARIBOmixið sem fæst í öllum betri matvörubúðum? Þær eru ófáar dollurnar sem ég hef keypt í gegnum tíðina og slátrað á innan við seytján mínútum. Ef allt nammi heims væri komið saman í einhverri fjarlægri vetrarbraut, þá væri ég svartholið í miðjunni. Það er alkunna að ef nammibiti sleppur inn fyrir munnvik mín (öðru nafni event horizon), þá á sá nammibiti ekki afturkvæmt. Ég tel engan betri en mig í starf yfirsmakkara hjá HARIBO; ég hef áralanga reynslu af HARIBOmixi og ætti því að þekkja betur en meðalþengillinn hvernig mixið skal bragðast.

Ef draumur minn rætist, gæti það þýtt endalok HARIBOveldisins í Þýskalandi, því ég sæti í leðursófa við nammifæribandið með tylft aðstoðarmanna við að fylla munn mér af dýrindisnammi. Ég myndi sem sagt borða 55% af framleiðslunni og salan þar af leiðandi stórminnka. Þetta myndi leiða til hruns HARIBO. Þetta er einkar grátlegt en engu að síður dagsatt.

"Þeim var ég verst er ég unni mest."

*HARIBO var stofnað af hjónakornunum Hans Riegel og Gertrud, 13. desember 1920, í Bonn í Þýskalandi. Nafnið HARIBO er sett saman úr fyrstu tveimur stöfunum í nöfnunum Hans, Riegel og Bonn. Fyrsti smellurinn þeirra var gotterí er nefndist Tanzbär, eða dansbjörninn, og var hann eilítið stærri en hlaupbirnirnir sem við þekkjum nú í dag. Síðan þá hefur fyrirtækið verið að stækka jafnt og þétt og hóf meðal annars innreið sína á breskan markað 1972.

sunnudagur, febrúar 16, 2003

Þá er Júróvisjón búið og allar 11 ára hnátur landsins kusu Birgittu, með sitt týpíska Júróvisjónlag, til Lettlands í maí. Ég missti nokkur tár niður kinnar mínar er Botnleðja laut í lægra haldi fyrir froðupoppinu. Ég er sannfærður um að Leðjan hefði malað aðra rembingssöngvara og froðufrussara mélinu smærra í Riga. Annaðhvort það eða eigi fallið í kramið hjá kjósendum og lent í seinasta sæti.

Logi Bergmann og Gísli Barnteinn Spjátrungsson fóru hamförum í aulabröndurum og voru stórfínir, alla vega betri en venjulegir kynnar sem lesa bara af skjá og standa líkt og þeir hafi stærðarinnar prik í skeifugörninni. Ég komst að einu merkilegu, Heiða Ununarsöngkvendi fyrrverandi er nákvæmlega eins og hýenurnar í Konungi ljónanna. Ekki er það gott fyrir greyið Heiðu og jafnvel enn verra fyrir greyið hýenurnar. Einnig komst ég að því að Hreimur er alltaf eins á sviði; það er eins og hann sé með stífkrampa í vinstri hendinni. Annars var mjög fyndið þegar diskurinn snappaði í seinna laginu hans og allt fór í bál og brand. Lán í óláni að Hreimur, hinn sviðsvani söngvari, lenti í þessu en ekki e-r annar sem var að missa söngsveindóminn á sviði. Sá hefði nú kjökrað á sviðinu og fengið kransæðastíflu.

Annars fór ég á bjóraftan á föstudagskvöldið í Þróttaraheimilinu. Þar þekkti ég færri en sárafáa, en fleiri en engan. Ég, Heiðar og Jóel stóðum bróðurpartinn úti í horni og löptum bjór úr dós, meðan óþekktar og ókunnugar verur sveimuðu um dansgólfið. Í bæinn var svo haldið, en þar voru fáránlega fáir, allir staðir tómir og 12,59 km röð á Hverfisbarnum. Allir bæjarfarar hafa greinilega ákveðið að kíkja í þá röð. Við komum við í hverju horni, hverjum bar og á Nonna undir lokin þar sem Balli Stigull var sídrukkinn. Svo kenndur var kauði að hann át pappírsumbúðirnar af Nonnabitanum með bestu fáanlegu lyst. Það var list.

laugardagur, febrúar 15, 2003

Helgin "guð"dómlega runnin upp og Evróvísíón undanúrslit í kveld. Hittingur hjá okkur Jóni, held ég allavega, og vinir og velunnendur velkomnir. Ekki get ég sett mig almennilega inn í svona júróstemmingu eins og sumar vinkonurnar. Stína og Lóló eru sko alveg brál í Evró og má segja að þetta sé fyrir þeim sjöunda sakramentið - íhuga meiraðsegja að borga fimmtánhundruðkall fyrir að horfa á xfögnuðinn læv. Tja og mja segi ég nú bara!
Var áðan í sprikli með pabba og Steinari - barnið er að læra undirstöðuatriði skvassins og tekst bara ágætlega. Eftir svassbreim um stund bregðum við okkur alltaf í svona "one on two" körfubolta og má með sanni segja að ég hafi t a p a ð illa. Hitti ég þó venjulega miklu betur en þeir en er afar léleg í stratagíunni... Nóg um mig í bili og góða helgi!

föstudagur, febrúar 14, 2003

Valentínusardagur runninn upp og landinn að missa legvatnið yfir dýrðinni. Við Jón höldum ekki uppá þessa amerísku hátíð - ég vil ekki taka einu skrefi nær Ameríkananum að neinu leyti. Tel mig barasta stálheppna að hafa fæðst á Íslandi, vera uppalin í Reykjavík og Þorlákshöfn í bland og enn heppnari að hafa erft bæði hreystirjóða í kinnar og ofurfeita putta frá honum pabba mínum. Pabbi var einmitt að kaupa sér svakalega flottan bíl... eeee Landcruiser ef ég man rétt - svona risabíll sem þrengir að litla hógværa skódanum mínum á sveitavegum landsins. Mamma þurfti að selja Volvoinn, sem mér fannst alveg dúndurkaggi - hefði sko alveg vilja fá að keyra hann aðeins meira *hint hint (sneið til múttu). Ég verð nú bara að viðurkenna að það að búa ekki hjá mor og far getur nú bara verið svoldið erfitt. Maður saknar þeirra voðalega - og svo náttlega gerir mamma allt best - ég minnist þess þegar ég var lítið hrogn, aðeins nokkurra vetra og mamma bjó til brauð með tómötum handa mér, sem var rosalega gott - svo bjó hún sér til alveg eins brauð, og mér fannst hennar brauð miklu betra bara af því að hún var búin að bíta í það. Steinar kannast vafalaust við það þegar mamma býr til "mömmubita", það er svona biti sem er með smávegis af öllu á - í hárnákvæmum hlutföllum - smá kartafla, smá kjöt, smá hrásalat, smá sulta og auðvitað smá sósa. Skrýtið hvað mér fannst Steinar alltaf miklu meira mömmubarn en ég. Ég held nebblega að ég hafi alltaf verið að rembast svo mikið við að vera eins og pabbi - ég hef kannski bara verið pabbastelpan og Steinar verið mömmustrákur... - þannig má segja að við skiptum þeim á milli okkar og þau okkur á milli sín!
Ástarkveðja til fjölskyldunnar,
Eplið

fimmtudagur, febrúar 13, 2003

Enn einn dagurinn í Feitmúla og mikið rosalega leiiiiiðist mér! Sit í tölvuveri við afar hægvirka tölvu með snarbæklað lyklaborð. Ætti samt eiginlega að vera að læra - leita heimilda fyrir tvær ritgerðir sem eru á heimaverkefnaskrá mér en nei, frekar skal sóa tíma í blogg og leiki.
Ágústa Óheppna var einmitt að bjalla á mig áðan og sagði mér þá óheillasögu sína. Hún var nebbla að fara í skólann - sem fyrr, steig þá út úr bíl Matta Tótusonar og flækti fót sér í bílbeltinu - æ - æ - ákvað þá að grípa í snarhasti efst í beltið til að bjarga sér frá falli á fésið. Mun þá hafa flækt putta sér í belti þessu og krambúlerað hann með meiru. Er sumsé búin að heimsækja slysó og er puttlömuð með meiru! Jahérna hér - óheppin frauka myndi ég segja! Ágústa er örugglega eina manneskjan sem hefur dottið tvisvar út úr bíl??!
Í fyrra skiptið gerðist það á djammi, á Selfossi, fyrir utan Sjálfstæðishúsið ef ég man rétt... og Þórhildur var að keyra - og það sem gerðist þá var að Þórhildur var búin að leggja bílnum og Ágústa var búin að opna hurð bílsins og komin með annan fótinn út - þá sér Þórhildur miklu betra stæði og brunar af stað - Ágú dettur út úr bílnum, rífur sokkabuxur og lendir hérumbil á enninu en hélt á glasi sem slapp alveg. Áfram Ágústa!!!

miðvikudagur, febrúar 12, 2003

Helgi Áss Grétarsson skákbeimur með meiru bætti enn einni rósinni í hnappagatið á nýju jakkafötunum sínum í kveld er hann beið lægri hlut fyrir agnarsmárri skáksnót sem heitir Hallgerður. Hallgerður er 10 vetra og lagði þennan fyrrum heimsmeistara unglinga í fjöltefli. Hallgerður var reyndar ekki sú eina sem vann Helga, því einn 11 ára kauði bókstaflega malaði hann mélinu smærra. Það er eflaust réttast að taka það fram að Helgi tefldi eigi með augum sínum, heldur horfði hann í gaupnir sér bak við múr mikinn og ímyndaði sér framvindu mála í skákunum, þ.e.a.s. hann tefldi blindskákir. Hvort sem um er að ræða blindskák ellegar eigi, þá eru alltaf örlög að vera fyrrum heimsmeistari og tapa fyrir 10 ára hnátu er vart kann mannganginn. Þetta er svipað og ef ég myndi tapa fyrir akurhænu í skák.
Er í einn einu gatinu í Fármúla. Get ekki með neinu móti einbeitt mér að lærdóm og brima því bara um netið eins og blöðruhálskirtill. Aðallega búin að vera að lesa síður trúaðra og trúleysingja... óslökkvandi forvitni mín í þessum efnum leiðir mig áftam sem barn á bretti. Eigi vil ég þó tala um þessi málefni á Þorrablóti þagnarinnar og sný mér þess heldur í snarhasti að léttvægari málefnum.
Var einmitt að fá póst frá Ragnari, þjóðgarðsverði í Skaftafelli, og fannst mér hann afar jákvæður í minn garð. Skrýtið samt að fara kannski að vinna í Skaftó - ekki með posse-inu mínu. Við vorum náttlega bara eins og mafía þarna, réðum lögum og lofum, sem er náttlega bara kúl og rúl. Ég get samt einhvern veginn ekki farið að hugsa svona langt því þó ég e-l-s-k-i Skaftafell og ég veit alveg að það verður gaman þá á ég bara eftir að sakna allra svo svo mikið. Get ekki sofið við hlið Jónómínó og kysst hann kvölds og morgna... úff ég ætla sko ekki að hugsa og kvíða svona langt fram í tímann - það er nú bara sillí.
Grátmúrsgellan frá Konstantínópel

þriðjudagur, febrúar 11, 2003

T r ú l e y s i


Ég er trúleysingi. Þið sem hafið fordóma gegn trúleysingjum ættuð að kynna ykkur betur hvað felst í trúleysi. Fordómar eru til sökum fáfræði. Fáfræði skal uppræta, og ykkur til fróðleiks getið þið kíkt á www.samt.is, síðu Félags trúleysingja, og kynnt ykkur hvað í trúleysi felst. Þar er ýmsum spurningum frá alls konar fólki, trúuðu og ekki trúuðu, svarað og rök færð fyrir hverju svari.

Ég tel að fólk ætti að temja sér gagnrýna hugsun á trú, enda finnst mér, og er það mín reynsla, að margir eigi erfitt með að slíta sig frá barnatrúnni. Langflestir Íslendingar alast upp í kristinni trú og fljóta svo með straumnum gegnum lífið í þeirri meiningu að það sé trúað, en fæstir hafa eflaust virkilega hugsað út í hvað það trúir á og hvers vegna. Mér finnst að fólk ætti að færa rök fyrir sinni trú, hvers vegna það trúir og á hvað það trúir. Margir sem ég hef talað við og spurt hvort séu trúaðir bregðast við með því að yppa öxlum og segja: "Ég veit það ekki, ætli það ekki bara." Þetta fólk hefur greinilega aldrei spáð í trú sína, einungis alist upp í kristinni trú og talið sig trúað. Ég nenni ekki að blaðra meira um þetta í bili, en kíkið endilega á síðu Samt til að forvitnast um trúleysi. Þar er flest eins og talað úr mínu koki.
Draumar eru eitthvað það undarlegasta sem til er! Enginn skal halda því fram að þar komi leyndar þrár, langanir og annað slíkt fram í dagsljósið! Ég er sko ekki búin að segja Jóni mínum frá þessum ógeðisdraum/martröð sem mig dreymdi í nótt. Aðalpersónan, auk mín, mun hafa verið þekktur Íslendingur. Úff úff úff - hvar á ég að byrja? - mar náttlega man ekki alltsaman úr svona draumförum en here goes...
Við vinahópurinn vorum að fara að leigja okkur sumarbústað út á landi. Ég mun hafa séð um þau mál og einhverra hluta vegna fer ég á undan liðinu uppeftir. Þegar þangað er komið þá blasir við undarleg en mjög falleg náttúra allt í kring um bústaðina. Ég fæ mér göngutúr og labba inn í einhvert gil þarna og kem þá að svona sandvík þar sem allt var morandi í kríum, sem reyndu eftir fremsta megni að gogga í haus mér. Minns er ekkert hrædd við kríur og var þetta því bara svona "Þorlákshafnarkríudæmi" sem ég er þrælvön. Oooog svo var ég komin að einhverjum læk með skærgrænt gras og niðurlútar girðingar í kring - þurfti sumsé að fara yfir læk þennan til þess að komast aftur í bústaðinn. Allt í einu stefnir eitthvað svart naut á mig og ætlar að stanga mig en stangar bara peysuna mína í staðinn... ég er samt svoldið smeyk við naut þetta og haska mér að læknum. Ég er byrjuð að vaða lækinn (sem er mun breiðari og dýpri en hann sýndist) og allt í einu rek ég fæturna inn í sexhyrnd járnrör (svona jafn löng eins og skíði), og einmitt svona ofaní mið rörin (veit ei hvort lesandi skilur) og er þar föst. Með afli get ég samt labbað (eins og að labba á skíðum) og er að koma að hinum bakkanum en lendi þá undir girðingunni eða eitthvað og það kemur maður, mér til bjargar.
Ekki veit ég af hvaða ástæðu ég og þessi maður verðum skyndilega svona innileg eftir björgunina - en við tökum til við að kyssast og svoooooleiiiis. Hehemm! Eftir hitting okkar er ég sumsé mjög heilluð af manni þessum en held leið minni áfram að bústaðnum. Maðurinn var Árni Johnsen!!! Draumur á enda og oj og foj og svei og nei!!!

mánudagur, febrúar 10, 2003

Núna fer allt að verða vitlaust! Danmerkurbatterí að fara af stað, atvinnuleit fyrir sumarið og auðvitað ritgerpasmíð fyrir skólann. Var einmitt að spjalla við Þórhildi mína áðan - ræddum Norðurlandayfirtökuna. Hún er einmitt að fara til Hikkhúkk í Finnlandi að læra að drekka vodka og höggva tré ásamt því að stórnmálalærast í Lappalandinu. Svo er Ágústan að fara til Skotlands (er það ekki annars komið á hreint?!)... þar ætlar hún að verða stórmenntuð í mokstri og þvílíku - taka meiraprófið á múrskeiðina = fræðast um hvernig má ná ýmsu ævafornu dóti upp úr jörðinni og vista það í krukku. Veit ekki alveg sko - ég er ekki með fornleifafræðina fullkomlega á hreinu held ég!?! Duglegar fraukur - líkt og Kristín sem er alltaf að læra meira og meira í táknmáli, og Ólöfu sem spinnur leikþætti og leikur sér í Kennó. Herdís að mangast út um bæinn þveran og endilangan. Ég held hreinlega að allur vinkvennahópurinn gæti sest í helgan stein og Herdísin tekið að sér verk okkar allra og meira til. Hún er spinnegal með rakettuna í rófunni. Correct me if æ´m wrong - Herdís er í H.Í. í frönsku og stjórnmáló, er í einhverri björgunarsveit, vinnur á Hverfisbarnum, kynnir mat í verslunum og síðast en ekki síst er sérdeilis prýðilegur starfskraftur V.F.. Oooog svo bloggar hún líka!!! og hjólar og og og og maður verður bara þreyttur af því að tala um þetta alltsaman. Anyhow - vildi að ég væri ofvirk eins og sumir - en eins og sést eru allir bara að meikaða og ég og Jónó bara að sigla lygnan, í smá meiki og fílum lífið og lemúra... ple ple kæru ástvinir :)

fimmtudagur, febrúar 06, 2003

Ávallt er gaman í skóla mér. Til dæmis er ég í tölvuverinu núna - tróð mér inn í léttsetinn vélritunartíma til þess að sinna heimanáminu. Minnist ég gömlu góðu daganna þegar ég var í vélritun í Versló og vér svindluðum sem mest við máttum og flissuðum sem býflugur á stöng. Það var árið sem ég var megatossi og sérhæfði mig í hvers kyns villuvegaakstri. Til dæmis skrifaði ég Dísu vinkonu silljón og einn miða í bókfærslu hjá Bolla og kastaði krilljón stokleðursbútum í risavaxin hár drengjanna fyrir framan mig. Þeir minnast þessara æskudaga í Versló með tár í augum og hor á vör vegna allra fjölmörgu klámfengnu ljóðanna sem ég og Siggi sömdum um upplogna samkynhneigð þeirra. Hér kemur ein limafögur limra úr verksmiðju Auðar og Sigga...

Þórður runkar Reyni oft,
þá bunan stefnir upp í loft.
En Þórður hetja bjargar þessu,
Og gleypir væna brundklessu.

Eins og sjá má eru hæfileikar ljóðskáldanna af óskornum skammti og réðum við okkur varla fyrir kæti af eigin fyndinleika. Ég var sextán ára þá - ei á sambýli með Jóni mér. Bjó í vínrauðu herbergi í foreldrahúsum og lék mér að lífinu eða lífið lék sér að mér.

þriðjudagur, febrúar 04, 2003

Alltaf er gaman að vitleysingum. Um helgina keyrðu nokkur gelgmenni ofan í Hafravatn. Nú er ekki búið að vera mikið frost lengi og það tekur eflaust smá tíma fyrir svona vatn að gegnfrjósa. Þessi gelgmenni, fjórir fýrar og einn svanni, ákváðu í blíðviðrinu að taka nokkrar handbremsubeygjur á Hafravatni. Bílstjórinn hefur eflaust læðst út upp úr miðnætti, stolið jeppanum frá húsbóndanum og ætlað að skemmta sér ærlega á ísilögðu vatninu ásamt vinum sínum. Eftir 40 metra hrundi jeppinn hins vegar gegnum ísinn og gelgmennin rétt náðu að komast út úr bílnum á bólakafi, hrakin og heimsk. Ísinn reyndist einungis 6 nanómetra þykkur, en það er auðvitað nóg fyrir svona léttan jeppa og 400 kg af holdi og blóði. Ekki er öll vitleysan eins.

Þetta minnir mig á sögu er ég heyrði eitt sinn af snáða einum á Snæfellsnesi sem var að undirbúa mikla rörsprengju fyrir áramótin. Kauði var búinn að dæla púðrinu í rörið og kítta fyrir. En hann hafði gleymt að tengja kveikiþráðinn við sprengjuna og datt þá mikið þjóðráð í hug, að bora gat á rörið og setja svo kveikiþráðinn inn í það. Þegar hann byrjaði að bora í rörið, hljóp neisti í púðrið og sprengjan sprakk beint framan í kauða.

Svona eru gelgmenni Íslands í dag.

mánudagur, febrúar 03, 2003

„Manstu þegar þú snertir svarta manninn, hann var svo heitur? Þetta var heilagur andi að verki.'' Þetta sagði einhver Guðrún við son sinn eftir samkomu um helgina hjá nígerískum manni sem heldur því fram að hann lækni fólk af ýmsum kvillum einungis með því að snerta fólkið. Guðrún þessi er sannfærð um að sonur hennar hafi læknast af grasofnæmi er töfralæknirinn snerti hann.

Hversu heiladautt getur fólk verið? Mér skilst að samkoman hafi verið yfirfull af fólki í leit að lækningu. Það er ótrúlegt hve mikið af fólki trúir svona endemis vitleysu. Fólk hugsar ekki, það er málið.

Eitt í lokin: Ég held því fram að ég geti læknað alla af hlaupabólu með einni snertingu. Ef þið þjáist af hlaupabólu endilega kíkið til læknis, fáið lyf, bíðið í viku eftir að hlaupabólan er horfin og snertið mig svo. Þið munuð læknast af snertingu minni.

laugardagur, febrúar 01, 2003

Í gærkveld var hittingur hjá vinahópnum og margt um dýrðir. Kristín og Jóhann voru gestgjafar og var boðið upp á kjúkling í MahhaaadddmaJahhfreyysósu eða eitthvað - mjög gott. Þórhildur steikti og steikti og fingur sér ei sleikti. Herdís hnetaði mjög gott saladó og fleiri góðir komu að matargerð. Síðust á staðinn voru svo þau Lolla og Lolli eða Ólöf og Lúnal. Skammarverðlaun fyrir að koma 4 og hálfum sólarhring of seint var uppvaskið... vei vei fyrir þau eða Ólöfu og Rut þar sem Lúnal sótti ís út í óbermið. Spilað var svo af hörku og hakkað nammi sem aldrei fyrr. Japansmix var á borðum og herma áreiðanlegar heimildir að einungis 1/8 pakkans hafi verið maulaður. Jón Sigurður eitthvað farinn að missa annars góða mixlyst sem gæti stafað af þara- og dækjudufti sem er vandlega falið í iðrum Japansmix sem er afar ljótt "nammi" - það finnst mér og Rut allavega!
Vígreif héldum við svo út á djammið eilítið fyrr en sumum þykir æskilegt (en var þó sökum vinnusemi ákv. einstaklings) og var ferðinni heitið á eighties kvöld á Vídalín. Þar var fátt um manninn og aðallega fólk úr Árnessýslu og svo erlendingar - afar einkennilegt.