fimmtudagur, janúar 30, 2003

Í dag mætti ég í sálfræði í sumarbústaðsstofuna mína (mikill húsnæðisskortur í F.Á.) og settist aftast, á bak við stóran dreng og tók nokkur snake session í rólegheitum. Samnemendur tóku að streyma inn í stofu og vonaðist ég til að geta setið ein þarna í horninu sökum skrýtileika fólksins er situr þessa tíma með mér. En nei - Ekki leið á löngu þar til þokkapiltur með hor í nös og lús í hári sest við mína hlið (heppin ég!). Tíminn hefst og ekki er langt á hann liðið þegar mér verður litið á piltinn við hlið mér sem er líka í þessu svakalega lúftgítarsólói, smælandi eins og hann sé Santana sjálfur og hristandi smjördrjúpandi hár sitt. Ég flissa bara inn í mér og held áfram að ráða í hausmælingar Svía sem kennarinn er að reyfa. Þar til fingurborðbarningur berst til eyrna minna frá einkennilega barnmenninu (sennilega busi). Santana er barasta kominn í píanó eða trommutrans - al al aleinn í heiminum! Það er nú eins gott að við erum ekki öll eins...

miðvikudagur, janúar 29, 2003

Áfram Ísland!

þriðjudagur, janúar 28, 2003

Ég sá Misery í gær eftir áralanga bið. Var hún alveg jafnspennandi og fyrir áralöngu biðina. Greyið hann James Caan að tvífótbrotna, handleggsbrotna, brisbrotna og vera dreginn heim til hjúkrunar af geðsjúkustu konu (Kathy Bates) norðan Namibíu. Hann komst hvorki lönd né strönd og fékk því skjótt viðurnefnið James Caan't (úff úff). Annars tókum við Auður einnig The Sum of All Fears sem er alveg hreint ágætisafþreying. Myndin skartar Afflecknum og Freeman (ekki DJ Frímann) og stóðu þeir sig nokkuð vel, jamm.

Nú eru þættirnir 24 byrjaðir aftur á sunnudögum og er það mikið gleðiefni. Þetta eru frábærir þættir og krónískt spennandi. Kiefer Sutherland leikur þar mann sem er svo sannarlega enginn laupur. Á eftir 24 byrjaði svo nýr þáttur er nefnist Boomtown. Í Boomtown fáum við að skoða vettvang glæps með augum fjölmargra mismunandi einstaklinga sem tengjast glæpnum á einhvern hátt (löggur, bráðaliðar, morðingjar, aðstandendur, fréttamenn o.fl.).

Ef við bregðum okkur aðeins úr sápukúlugerð og gleðisöngli þá langar mig aðeins að tala um alvarlegri málefni. Nefnilega stjórnmál eða óstjórnmál eins og þau ættu í þessu tilviki að heita. A) Í dag eru forsetakosningar í Ísrael og eru allir Arabar eða Palestínumenn lokaðir inni í tilefni dagsins - vei vei fyrir þá. B) Ariel Sharon, ofsatrúarmaður (að mínu mati) og fjöldamorðingi verður sennilega endurkjörinn - til hamingju Sharon! C) Hann er ekkert sérlega hrifinn af friðarviðræðum, búinn að fá nóg af svoleiðis bulli, enda eru ekki til heimilislausir flóttamenn í hans huga. D) Her Ísraels er fjármagnaður af guess who... vísbending - Bandaríkjunum. Ísraelsher vs Palestínumenn (skriðdreki á móti steini og priki). E) Bush+Powell+olía+whitetrash+engarsannanir= Stríð í Írak. Já, ég er pirruð og reið og ég vil vekja fólk af sínum "verð að fá mér nýjar diesel gallabuxur og djamma um helgina" væra blundi og vekja athygli á sjálfstæðri hugsun.
Og hananú - HarðsnúnaHanna

laugardagur, janúar 25, 2003

Nú er ég nývaknaður eftir skrall og skrum í gær. Stigull fór í vísindaferð í Flögu og var það afar gaman. Borðin iðuðu í veigum sem hungraðir Stiglar máttu sín lítils gegn. Eftir Flöguna var haldið niður í félagsherbegið enda klukkan einungis 18:30. Þar var setið að sumbli og atburðir líðandi stundar skeggræddir. Þar fékk ég yfir mig 13 cl af ævafornu kaffi, líklega frá ofanverðri 7. öld fyrir Krist. Flóði þá myglað og ógeðisangandi kaffi yfir flíkur mínar líkt og Skeiðarárhlaup í hámarki. Þetta lét ég samt ekki á mig fá og hélt ótrauður á vit ævintýranna í partý hjá einhverju Stigulskvendi er ég kann engin deili á. Astró tók við af þeirri hnátu sem gestgjafi okkar og þar hélt skemmtunin áfram og meiri bjór flæddi um háls minn. Það olli meðal annars því að ég og Heiðar gleymdum okkur á dansgólfinu og dönsuðum súludans á breiðustu súlu í heimi. Vakti þetta mikla kátínu millum oss tveggja, enda engin önnur sál að dansa. Hverfisbarinn varð svo endastöð fyllerísjárnbrautarlestarinnar og þar hitti ég fyrir Auði og vinkonur hennar, Ágústu, Kristínu, Þórhildi, Rut og Stebba kærasta hennar. Var þar mikið glens og grín og gaman.

fimmtudagur, janúar 23, 2003

Las ég mér til mikils hummoghaleika sögu Jón Þórs (betur þekktur sem Sjondon) af kettinum Ugga. Svo virðist sem Uggi sé ekki bara Uggi heldur öfugUggi og hafi þróað sterkar "tilfinningar" til eiganda síns. Því miður fyrir Ugga og sem betur fer fyrir Sjondon virðast þeir ekki fella hugi saman. Já kattardýrin eru afar skemmtileg og minnisstæðir eru þeir tímar þegar ég og Dúrilúri (köttur minn þegar ég var 4-5 ára) börðumst um athygli foreldra minna. Eða bara börðumst... Mamma og pabbi ákváðu í því tilfellinu að velja mig fram yfir köttinn því sögur voru komnar á kreik í Þorlákshöfn um gríðarlegt heimilisofbeldi sökum kattaáverka á mér og kattmundur var látinn fara.
Næsta gæludýr mitt (og Jóns) verður væntanlega lemúr en það er gríðarerfitt að fá landvistarleyfi fyrir slíkar skepnur. Í þessu erfiða máli höfum við leitað aðstoðar Péturs Blöndal sem á einmitt maka af lamadýrskyni.
Jæja, þá eru linkar komnir inn. Ég hef tekið stórstígum framförum í meðferð HTML-kóða. Næst er að koma af stað kommentaglugga svo vegfarendur geti tjáð sínar tilfinningar og talað tungum. Þá er kostur að vera margtyngdur. Hugsanlega er á döfinni að troða inn myndum, en ég kann það eigi í bliki augna. Þá gætuð þið barið augum kynstrin öll af ankannalegum skepnum er við Auður festum á filmu í Búdapest. Þessa filmu eigum við eftir að framkalla. Við náðum myndum af öllum asnalegu dýrunum í dýragarðinum í Búdapest, þ.á.m. af lemúr, tapír, storki, alls kyns öpum, nashyrningum og pardusi. Eitt dýr hefur mig alltaf langað að hitta í eigin persónu, en það er ókapi sem er einhvers konar samblanda af sebrahesti og gíraffa. Þórður bróðir sá hann í dýragarðinum í London og öfunda ég hann einkar mikið fyrir þær sjónir. Ég myndi gefa báða ökklana fyrir að hitta þá skepnu.
Svo virðist sem enn einn sólskinsdagurinn sé risinn í Reykjavík. Ávallt þegar viðrar sem í dag verður fólk eins og ég einfaldlega að horfa á björtu hliðarnar... T.d. er hægt að taka 180° handbremsubeygju í botnlanga Grjótaselsins, vera í tvennum buxum og tveimur eða fleiri sokkum, að ógleymdu yfirsofelsinu. Mér virðist sem það sé fullkomlega löglegt að sofa yfir sig á dögum sem þessum - might be wrong samt...

Fór í freestyle tíma nr. 3 í gær og fékk þá að vita af SÝNINGUNNI sem verður haldin í lok námskeiðs fyrir vini, ættingja og talentscouts. Kannski lifi ég ekki nógu lengi til að sjá þessa sýningu - kannski verð ég tognuð í nára eða með blettaveiki eða steptakokka eða eitthvað. Ykkur er sumsé öllum boðið (einmitt!). ---- Ég ætla sko pottþétt að fara á annað námskeið á vegum Kramhússins, það er úr svo mörgu skemmtilegu að velja... Magadans (nei nei), Afró (tvímælalaust), Breikdans (verð að læra), Ashtanga jóga (mmm kannski), Salsa (já já) og Tangó (mmm) og örugglega eitthvað fleira. En aldrei ALDREI mun ég taka þátt í svona "lokasýningu". Nei, nei og nei og nei og aftur nei!

miðvikudagur, janúar 22, 2003

Já ýmislegt er nú til. Með því skemmtilegra eru vinir, elskulegir kærastar, góðir hárdagar og draumar - að ógleymdu föstudagssvarinu á vísindavef H.Í.. Þar má einmitt finna skemmtilegar vangaveltur og ennþá skemmtilegri svör. "Er hálf hola til?", "Halda mýs að leðurblökur séu englar?" - ansi fyndið. Pæling búin...

Á allra næstu tveimur vikum er von til þess að æfingar Svananna hefjist að nýju. Von er á nokkrum nýjum og ferskum leikmönnum frá Sýldavíu og von er á slíkri reisn að við liggur bráður bani. Ekki bráðabani. Óþarfi er líka að minnast á gífurlegan ósigur (að mig minnir) Svannanna MC gegn Rasssíðu Langömmunum síðasta vetur. Eflaust gengur okkur betur með þær núna sökum óheppilegra fráfalla í RL. Sunna fór úr mjaðmalið, Sjonna Gamla er í 400 m hlaupi og KrissKross (eins og hún var kölluð) var svipt sjálfræði af langömmubörnum sínum fyrir neyslu stera. Því miður náði Ólöf okkar ekki inntökuprófi Svananna í ár, en hún komst inn í lið ÍR-inga og mun eflaust "rugga þeirra veröld" (hehemm). Munum sakna þín Ólöf okkar - þú ert nú samt velkomin á æfingar...

þriðjudagur, janúar 21, 2003

Þrátt fyrir að vinna Grænlendinga 30:17 spiluðu Íslendingar sem handalausir borðtennisspilarar, þ.e. öndvegis illa. Góður leikur í gær er Ástralir stigu 55 sinnum á miðpunktinn og 40 marka munur varð raunin. Ástralir eru lélegastir í heimi í handbolta, en samt leynast nokkrar enn lélegri eyjaþjóðir í Melanesíu, Pólynesíu, Míkrónesíu og annars staðar í Eyjaálfu. Ástralir nefnilega slátruðu miklum handboltaþjóðum á leið sinni í úrslitakeppnina. Ber þar hæst Cook-eyjar, sem Ástralir rétt mörðu 35-7, og Vanuatu-eyjar sem Ástralir unnu með marki í blá lokin 51-14. Það er ljóst að Eyjaálfubúar eru fæddir íþróttamenn og hver man ekki þegar Ástralir unnu Amerísku Samoa-eyjar 31-0 í knattspyrnu í undankeppni HM 2002, þar sem Archie Thompson (who?) þandi netmöskvana 13 sinnum. Nú hefur FIFA ákveðið að eitt lið úr hinni geysisterku Eyjaálfu fá að fara beint á HM í kanttspyrnu (í stað þess að keppa við fimmta liðið í Suður-Ameríku um laust sæti á HM). Þar með eru Ástralir orðnir áskrifendur að HM um ókomna tíð, nema Tongabúar rífi sig upp af rassgatinu og setji á stofn knattspyrnuæfingabúðir.
Í gær fór ég í jass funk freestyle tíma nr. 2 og viti menn - enginn Addi Fannar með kameru að taka upp frumraun mína í freestyle. Svei og aftur svei hvað ég var foj! Þessi tími var mun betri og mun ég innan skamms geta leikið eftir (jahaaa!) snilldartöktum sem sjást aðeins í myndum á borð við Girls Just Wanna Have Fun!, þar sem bæði Helen Hunt og Sara Jessica Parker hrista á sér ástarhöldin.

Vinsamleg tilmæli sem ég vil beina til Rutar og Stebba, meðlima í Útivistarklúbbnum Posse, eru á þá leið að frumraun okkar ætti kannski að SKE svo klúbburinn geti farið í loftið. Þessi frumraun er að vísu erfiðleikum háð þar sem einungis er bjart milli hálftvö og tvö á Íslandi í dag - en látum svoleiðis smáatriði ekki fara í taugar oss. Að lokum vil ég, fyrir hönd Posse (breytanlegt nafn), bjóða alla þá sem treysta sér í hörkupúl, blóð og tár velkomna í klúbbinn og bendi ég á gjaldkera hópsins sem mun taka við nýskráningu milli kortéryfireitt og hálftvö alla "virka" miðvikudaga nema þá sem eru rauðir á dagatölum. Gjaldkeri er Jón Sigurður, langskólagenginn í stærðfræði, sjálfmenntaður landfræðingur og skemmtilegur gaur.

mánudagur, janúar 20, 2003

Þá er helgin liðin. Ég horfði eilítið á Golden Globe í gær og olli það því að ég dottaði seytján sinnum í Netafræði í morgun. Sökum þess hélt ég heim á leið eftir þann tíma af ótta við frekari dott í Fjármálastærðfræði. Hjá mér er dott í tíma eða á bókasöfnum afar mikill ókostur. Um leið og ég fell í kóma opnast fyrir mér nýjar víddir og draumaheimar og held ég samstundis á vit ævintýranna. Á skjön við öll góð ævintýri enda mín yfirleitt illa, yfirleitt þannig að ég hrapa eða dett í draumunum sem endar með því að ég kippist til líkt og tapír í teygjustökki. Verður þá öllum starsýnt á mig.
Annars spilaði ég Gettu betur um föstudagsaftaninn hjá Kárastúlkum og voru Stut og Rebbi þar einnig. Auður bar fyrir sig spilaleiða og tók heldur ein þátt í sjónvarpsmaraþoni (42,195 klst.). Höfundum spilsins hefur eitthvað yfirsést nokkur lönd í Evrópu því ein spurningin hljóðaði svona: Rússland er fjölmennasta ríki Evrópu, en hvaða tvö lönd koma þar á eftir? Svarið var Þýskaland og Úkraína. Þetta er vitaskuld rangt, rangt, rangt og alrangt eins og Reynir Axelsson komst svo skemmtilega að orði er hann fór yfir heimadæmi mín eitt sín. Þýskaland er annað fjölmennasta land Evrópu með rúmlega 83 milljónir íbúa; svo koma í réttri röð: Tyrkland (telst reyndar ekki allt til Evrópu) með rúmlega 67 milljónir íbúa, Bretland (kannski ekki hægt að telja Bretland sem eitt land) með 59,78 milljónir íbúa, Frakkland með 59,77 milljónir íbúa, Ítalía með 57,7 milljónir íbúa og svo loksins Úkraína með 48,4 milljónir íbúa. Þetta er meiri ruglingur en góðu hófi gegnir hjá annars fínum höfundum.
Laugardagurinn hófst á knattspyrnu með Ungmennafélaginu Reisn. Hitastigið var rétt yfir alkuli og margar sameindir hættar að hreyfa sig. Eins og venjulega við knattiðkun við alkul reynir maður að forða lærunum og kálfunum frá bylmingsskotum. Það tókst bærilega framan af, en svo kom að því að ég fékk eina væna neglu aftan í lærið. Ég reyndi að bera mig karlmannlega að eftir atvikið, en raddböndin voru mér ósammála og dældu út hverju veininu á eftir öðru. Ég hugsa að Hergé, höfundur Tinna, hefði umhugsunarlaust gert mig að fyrirmynd Vaílu Veinólínó hefði hann heyrt mína ómþýðu rödd á laugardaginn. Ég var bara nokkrum áratugum of seinn. Næst á dagskrá var 65 ára afmæli ömmu Auðar (amma Mæja). Þar kenndi ýmissa grasa og var urmull af kjöti á boðstólum. Systur afmælisbarnsins sáu um krónískt hláturshow og veit enginn hvað var svona fyndið, ekki einu sinni þær sjálfar. Eftir matinn var boðið upp á landabollu en því miður þurftum við Auður að fara til að undirbúa ranninn fyrir heimsókn gesta. Setið var að sumbli fram eftir miðnætti og stefnan sett á bæinn. Kaffibarinn og Celtic Cross voru áfangastaðirnir.
Sunnudagurinn hófst á knattspyrnu og endaði á Golden Globe.

föstudagur, janúar 17, 2003

Bloggið okkar er enn á steinöld. Brátt munu linkar líta dagsins ljós sem og komment, þar sem snáðar og snótir geta komið sínum orðum á framfæri og jafnvel valdið usla á vef þessum.

fimmtudagur, janúar 16, 2003

„Verði blogg“, og það varð blogg.